Í einstaklingsherberginu sem ég hafði pantað mér í Flókalundi reyndust 2 rúm og 1 skrifborð. Á skrifborðinu smurði ég nesti fyrir næstu 3 daga sem áttu að fara í göngu, á öðru rúminu pakkaði ég ofan í bakpokann minn. Í hinu rúminu lagðist ég til svefns. Þrátt fyrir mökk af óreiðukenndum hugsunum var ég fljót að sofna.
Var líka fljót að vakna, dreif mig í sturtu og morgunmat. Mætti fram í andyri hótelsins kappklædd í gönguföt, regnbuxur og vel reimaða gönguskó. Sá að göngufélagar mínir voru flestir í hversdagsfötum, flestir í strigaskóm, nokkrir í gallabuxum. Allir, fyrir utan einn, voru harðákveðnir í því að fara ekki fet þennann daginn. Pabbi minn hafði nefninlega hárétt fyrir sér; það var ekki göngufært í Arnarfirði þennann daginn.
Þann daginn sníkti ég far með fólki sem ég þekkti ekki neitt fyrir næsta dag. Fór síðan í göngutúr upp að Surtarbrandsgili með fólki sem ég þekti allt úr fyrri göngum. Prísaði mig sæla að Anna bauð mér að deila 2ja manna herberginu sem henni tókst að fá í uppbókuðum Flókalundi. Þrátt fyrir að hafa rætt hjartans mál í heita pottinum í orlofsbyggð Flókalundar og báðar snætt ljúffengann þorsk á veitingastað hótelsins, þá afréðum við engu að síður að biðja um annað lak svo við gætum aðskilið rúmin. Þrátt fyrir að yfirfara skrínukostinn saman með það í huga að 3ja daga ganga var orðin að 2ja daga göngu, áframtalandi um hjartans mál og hlægjandi, búnar að staðfesta að það var ekki bara 1 ganga á Hornströndum sem við áttum að baki heldur aðra göngu norður á Strandir, þá vorum við ekki reiðubúnar að liggja saman í hjónarúmi. Orðnar nánar en samt ókunnugar.
Svoleiðis eru þessar göngur, maður er sífellt að hitta nýtt fólk og spjalla við fólk, ganga með fólki og jafnvel ganga með því oftar en einu sinni. Sumu fólki fer manni að þykja vænt um og svo er líka til fólk sem maður tengist. Allt er það óháð líkamlegu þreki og göngugetu, getið sveiað ykkur uppá það.