mánudagur, 25. júní 2012

Hringdi með æsingi í röddinni

í bróður minn í gær. Varð að láta hann vita af mynd kvöldsins á RÚV. Fyrsta sem bróðir minn sagði var; manstu hvað við vorum hrædd? Jeramíasminnmanég! Ég var skítlogandihrædd í 3 áratugi eftir að ég horfði á þessa mynd, allt þar til í gær er ég sá hana aftur



Þar sem Húsið hefur verið brennd í minni mitt í þessa 3 áratugi var fátt sem kom mér á óvart, nema þá helst hvað hún var hæg og lítið draugaleg, eiginlega bara alls ekki neitt draugaleg. Mér fannst samt gaman að sjá hana aftur, finnst plottið enn gott og naut Eydísarnostalgíunnar.

Ekki síðra að losna við Hús-hræðsluna. Vonandi.

miðvikudagur, 20. júní 2012

Sjarmerandi spéfugl

Fyrir rúmu ári skrifaði ég e-ð á þá leið að menn misstu ekkert húmorinn við það að rétt silast yfir hálfa öld. Húmorinn hjá kómíska kærastanum mínum styrktist bara við að komast annað árið yfir hálfu öldina


tví-efldist jafnvel



Gef mér því að húmorinn þrí-eflist eftir tæpt ár og leyfi mér að hlakka til að sjá hvað þeim myndarlega dettur í hug að setja á höfuðið á sér á næsta afmælisdegi. Hláturinn lengir jú lífið.

föstudagur, 15. júní 2012

Eftir lengri vinnudag en vanalega

tók ég eftir því á heimleiðinni að bifreiðin var að verða bensínlaus. Ef rauða ljósið hefði getað gefið frá sér hljóð erum við að tala um heila lúðrasveit og læti. Fór að hugsa um hvar næstu bleiku bensínstöð væri að finna og veðjaði á Snorrabrautina. Lét ekki hugfallast þegar gulur góndi á mig þar og hugsaði með mér að fyrst ég væri komin þetta langt þá væri lítið mál að beygja niður á Miklubraut því ég var handviss um að stöðin væri bleik við Kringlu. Nema ég tók vitlausa beygju og endaði niður á umferðamiðstöð þar sem ég hugsaði aftur að fyrst ég væri nú komin þetta langt þá hlyti ég að hafa það af að snúa við og koma mér á bleiku bensínstöðina við Kringluna. Og það tókst. Næstum því.
Á ljósunum við Kringlu (Miklubraut/Kringlumýrarbraut) stoppaði Gullvagninn. Harðneitaði að fara fetinu lengra án vökvunnar.

Hvað gerir svo stúlka á fertugsaldri í vanda? Jú, hringir í pabba sinn nema pabbi var líka að vinna langan vinnudag og í ofanálag á reiðhjóli. Pabbi benti nú stelpunni sinni á að það væri göngufært á bensínstöðina og jafnvel hægt að fá brúsa á stöðinni hinum meginn. Stelpan benti pabba sínum ekki á að hún hefði ákveðið að fara á appelsínugulu hælaskónum sínum í vinnuna um morguninn. Stelpan hringdi í bróður sinn sem kom að vörmu spori með tvo brúsa fulla af bensíni. Á árum áður var bróðir minn bensínlaus í tíma og ótíma út um hvippinn og hvappinn. Í gær uppástóð hann að þessir tveir brúsar, sem stóðu blindfullir af bensíni í bílskúrnum hans, væru ætlaðir sláttuvélinni, hann væri löngu hættur að verða bensínlaus.
Hverju svo sem sætir þá er ég ánægð að eiga lítinn bróður sem býður mér á tónleika eitt kvöldið og bensín næsta kvöld á eftir

Brósi í Hörpu í gær

fimmtudagur, 14. júní 2012

Ráð-stefna og afmæli

Sá myndarlegi kom örþreyttur og örlítið rakur heim í gær með fangið fullt af blómum


Ekki handa mér, seiseinei, blóm sem honum voru afhend fyrir að skipuleggja og vinna að stórri ráðstefnu. Vafalítið staðið sig með miklum sóma, skyri og rjóma. Svaf líka eins og ungbarn undir sæng laust eftir níu í gærkveld.

Öllu hressari í kvöld er hann snaraði fram dýrindisnautasteik og hrærði saman bernaise fyrir afmælisbarn dagsins, væntanlega úthvíldur og einu hugsanlegu áhyggjurnar sitt eigið afmæli eftir örfáa daga


Eftir nautasteikina var ég svo heppin að vera boðin í Hörpu þar sem ég hlustaði á sinfóníuhljómsveit og sópransöngkonu, nútímaleg verk og klassísk. En sú dásemd sem tónlist er, að maður tali ekki um góða veðrið úti. Enda er ég á leið í göngutúr og geri mér góðar vonir um að ná þeim myndarlega upp af sófanum.

Þó ekki fyrr en ég er búin að setja hér inn mynd af fína afmælisbarni dagsins og sætu systur hans



miðvikudagur, 13. júní 2012

Fór í gala dinner í gær

ásamt 899 öðrum og uppgvötaði að mig sárvantar hvíta flík sem er klárlega það heitasta í dag, eins og t.d. hvíta kjólinn sem ég sá í Fréttablaðinu um helgina, þessi þarna efst til vinstri



Á hvítar nærur og haldara. Haldari að vísu orðinn örlítið grásprengdur af þvotti en ætti að geta sloppið. Kjólinn gæti ég svo strax notað aftur í næsta mánuði í bryllupi. Í ágúst gæti ég svo unnið í garðinum í þessari fínu flík þar sem ég þarf ekki að óttast grasgrænkuna og í september gæti ég svo prófað að hella yfir hann rauðvíni ef mér skyldi detta í hug að bjóða fólki heim í mat. En þá verður þessi drusla líka löngu dottin úr tísku og því orðinn óþarfi að fylgja ráðunum þarna í vinstra horninu eftir. Þá verð ég löngu búin að snúa mér að næsta lit sem ég þarf að eignast til að vera inni og heit.

mánudagur, 11. júní 2012

Þegar forsíðufréttirnar snúast um

að landsbyggðin tapi konum, að ýsan sé við hættumörk og að hvítt sé inni, finnst mér þessi forsíðumynd vel við hæfi



Grínlaust.

sunnudagur, 10. júní 2012

Lífið er grænt og það er kominn júní.

Höfum dundað okkur við garðdútl undanfarna blíðviðrisdaga. Dútlað við að skipta og færa gróinn runna með rætur niður til kölska. Dedúast við að grafa upp steinsteypuklumpa frá löngu liðinni tíð. Látum togstreitu vors og sumars ekkert á okkur fá og dundum okkur daglega við að vökva nýju rósirnar, nýju brómberjarunnana, nýja matjurtagarðinn og allt hitt gamla klabbið. Hlustum ekki á það þegar talað er um að það hausti snemma. Skítt með það þó rósirnar láti ekki sjái sig fyrr en næsta sumar og að brómber kosti hvítuna úr augunum og tvo handleggi til og að matjurtagarðurinn liggi á steyptum klumpum. Hvernig svo sem fer þá eru hlutir í lífinu sem vert er að treysta á



eins og kartöfluuppskeruna. Og jájá, kallinn líka, mikil ósköp.

Mamma kom færandi hendi



Sveskjurograbbarbari, gráfíkjurepliograbbarbari, döðlurograbbarbari, apríkósurograbbarbari, rabbarbarasulta, sultaðurlaukur, súrsaðgrænmeti.

Rabbarbarbía.

Ekki sætavísa heldur sæta mín

segir sá myndarlegi stundum við mig.
Þá brosi ég blítt og hugsa um það hversu heppin ég er að vera ekki sætavísa í leikhúsi í Glasgow, heldur sæta hans myndarlega sem elskar mig næstum jafn heitt og ég elska hann.