fimmtudagur, 28. ágúst 2008

Þegar óskirnar rætast

Mæli með því að láta drauma sína rætast.
Altjént að reyna, það er vel gleðinnar virði.

miðvikudagur, 27. ágúst 2008

Góð-verk

Ég gerði góð-verk í gær. Að vísu fyrir sjálfa mig en ég ætla samt að telja það með.
Ég hefi nefnilega ekki þrifið íbúðina mína síðan áður en ég fór út. Ég hef verið upptekin við brúðkaup, Fiskidaginn, sem maki á Vegagerðarfundi, fjölskyldumót í Vestmannaeyjum og svona almennt að hanga utan í hjásvæfunni, sem virðist óþreytandi á að bjóða mér í mat kvöld eftir kvöld. Gærkvöldið var þar engin undantekning nema að því leiti, að þrif-samviskubitið var við það að setja Frú Sigurbjörgu á hliðina, enda er ég vön því að þrífa samviskusamlega í hverri viku ásamt því almennt að ganga vel um heimili mitt. Ég ákvað því að setja fótinn niður og tilkynnti hjásvæfunni nú yrðu þrifin í forgang í mínu lífi, ég kæmi ekki í mat fyrr en þeim væri lokið.
Mér leið líka mun betur að verki loknu og með hreingerningarlyktina í nösunum íhugaði ég það í heila sek. að njóta þess bara að vera heima hjá mér, meira að segja kattarskömminn heiðraði heimilið með nærveru sinni. En – sem ég svo sem vissi – hjásvæfan mín er bara ómótstæðileg.


Mér þykir annars að setja fótinn niður skondið.

mánudagur, 25. ágúst 2008

laugardagur, 23. ágúst 2008

Sultu-tau

Hjásvæfan fól mér ábyrgðarmikið hlutverk eitt kvöldið í nýliðinni viku. Fyrr um daginn hafði hann beðið drengina um að tína rifsberin úr garðinum. Hann stóð svo sjálfur yfir pottunum og mallaði sultu. Mér setti hann fyrir að skrifa: rifs 2008 á nokkra límmiða. Ég tók ágætlega í það en komst hins vegar fljótt að því, það er bara ekki vinnandi vegur að skrifa mikið rifs 2008 vegna einskærra leiðinda og ótilbreytingar. Ég axlaði þó rúmlega hálfa ábyrgð og skrifaði á límmiða fyrir allar sultukrukkurnar með réttri árgerð.
Ég var afskaplega glöð þegar mér tókst að tala indæla manninn á að búa til eins og eina krukku af Campari-sultu. Mig hlakkar líka afskaplega til að smakka hana, má maður ekki annars alveg borða Campari-sultu í morgunmat? Eða þýðir þetta rómantískan málsverð við kertaljós sem samanstendur af ristuðu brauði með osti, campari-sultu og rauðvín með...


Mér þykir annars sultu-tau afskaplega fallegt orð.


föstudagur, 22. ágúst 2008

Brósi

Litli bróðir minn á afmæli í dag. Hann er svo sem ekkert lítill lengur, mun hávaxnari en ég og kominn með nokkur grá hár. Þar sem hann er ekki nema rétt rúmu ári yngri en ég deildum við herbergi saman mesta barnæsku okkar, og vorum ósjaldan klædd í föt í stíl. Þegar litli bróðir minn byrjaði í skólanum harðneitaði hann að læra að lesa því; Katla systir les fyrir mig. Ef e-r vogaði sér að stríða bróður mínum varð sá hinn sami að heygja orrustu við mig og slást undir húsvegg á skólalóðinni. Ég gat heldur ekki unað nokkurri stelpuskjátu að bjóða honum upp í dans í dansskólanum og í eina skiptið sem það tókst, hrinti ég skjátunni harkalega í gólfið.

Ég hef blessunarlega látið af þessari eigingirni en held þó áfram að þykja afskaplega vænt um hann. Hann er nebbla alveg ágætur.



fimmtudagur, 21. ágúst 2008

Basilíka

Ég hef aldrei verið blómamanneskja. Afskorin blóm gleðja mig reyndar, en þeim get ég líka hent án nokkurar samvisku þegar ljóminn er af þeim farinn. Eina blómið sem mér hefur nokkurri sinni tekist að viðhalda lífi í, var Jukka sem kom frá ömmu minni. Veit það núna að ástæðan er einfaldlega sú maður þarf ekkert mikið að vökva hana. Það fer mér ekkert sérstaklega vel að verða að sinna e-u af skyldurækni, eins og td. að vökva blóm, umpotta og stússast í að halda því við. Það hentar mér td. afskaplega vel að eiga kött en ekki hund, þó mér þyki reyndar jafn gaman af báðum dýrum.
Ég hef þó haft gaman af því að vökva og sturta basilíkuna mína í sumar. Þegar ég loks kom heim frá ferðalagi mínu til útlanda og helgarferð norður í land, var aumingjans eyðimerkurbasilíkan mín ekki bara jafn aumingjaleg og áður en ég fór, blöðin voru líka mörg hver orðin svört af vanrækslu. Ég ákvað þó að fleygja henni ekki heldur hugsa hlýlega til hennar, ásamt því að sjálfsögðu að vökva – ég er langt í frá e-r galdrakerling sem nægir að hugsa bara um hlutina. Ég veit ekki alveg af hverju hún braggast svona ágætlega hjá mér, en ég skammast mín ekkert fyrir að blogga það upphátt að mér þykir bara doldið vænt um hana. Ástæðan fyrir væntumþykjunni gæti þó verið sú að basilíka er uppáhalds kryddjurtin mín; ilmar yndislega, bragðast yndislega og tekur sig bara nokkuð vel út í eldhúsinu mínu.



miðvikudagur, 20. ágúst 2008

þriðjudagur, 19. ágúst 2008

Parmigiano-Reggiano

Í París kaupti ég mér tvenn parmeson-osta-stykki. Ég pakkaði þeim vandlega inn, stakk þeim ofan í ferðatöskuna mína og smyglaði þeim svo til landsins án þess að blikna. Þeir byrjuðu dvöl sína á Íslandi í ísskápnum hjá hjásvæfunni. Þaðan fóru þeir nokkrum dögum seinna í ísskápinn í vinnunni minni. Einhverjum dögum þar á eftir kom ég þeim loks í ísskápinn heima hjá mér.
Í gær bauð besta vinkona mín mér í heimsókn. Hún bauð upp á ristað brauð og spagettí – ég bauð upp á pestó og ákvað að tími væri kominn til að smakka ostana góðu. Ég passaði mig vel á að muna eftir ostunum þegar ég kvaddi hana rétt fyrir miðnættið, en á leið minni yfir túnið í átt að Skaftahlíðinni tók ég vinstrihandarsnú-beygju í átt að Samtúninu
.
Indæla hjásvæfan mín var svo elskulegur að minna mig á ostana í morgun þegar hann kyssti mig bless á efri hæðinni. Á neðri hæðinni var ég löngu búin að gleyma tilvist þeirra í ísskápnum. Er svo líka að uppgvöta mér til hálfgerðrar fegins-skelfingar að ég er ekki enn farin að fá mér fyrsta kaffibolla dagsins.

Það er eiginlega sérdeilis svakalegt þegar parmeson-ostar setja veröld manns á hliðina.

mánudagur, 18. ágúst 2008

Heimaey

Komst að því í Vestmannaeyjum um helgina að ég get enn hoppað úr rólu, þó ég sé komin á mikinn hraða. Datt að vísu í fyrsta hoppinu, en eina sem gerðist var að ég fékk þessa líka fagurgrænu grasgrænku á hnéin, sem fór mér bara doldið vel. Var í góðum félagsskap hjásvæfunnar, foreldra minna, systra og fylgifiska þeirra. Mamma Vestmannaeyingur var með heitt á könnunni alla helgina ásamt ógrynni af heimabökuðum skonsum og flatkökum. Frú Sigríður hefði reyndar getað haldið mannskapnum uppi á mat ef út í það er farið. Mér þykir alltaf gaman að fara til Eyja og þessi ferð var engin undantekning; siglingin skemmtileg, ræningjaflöt á sínum stað, sundlaugin í hæfilega stuttu göngufæri frá tjaldsvæðinu, hefðbundið al-íslenskt rok til að ýfa á manni hárið og ánægjuleg samvera með fjölskyldu-limum á öllum aldri.

Eftir þó nokkuð af útilegum í sumar vorum við kæró búin að ákveða að þessi yrði sú síðasta – í sumar þ.e.a.s. Mér varð þó um og ó er ég uppgvötaði í gærkveldi að ekki bara er enn doldið eftir af sumrinu, ég er líka komin með heljar-ábyrgðarstöðu í tjaldferlinu sem ég þyrfti jafnvel að æfa aðeins betur – ég stakk því upp á að tjalda út í garði um næstu helgi og enda tjaldævintýri ársins þannig. Það væri allavega stutt á kósettið.

miðvikudagur, 13. ágúst 2008

Trú

Naut þeirrar skemmtilegu stundar að vera viðstödd brúðkaup vina minna sl. föstudag í Freyvangi. Ég var doldið spennt þar sem athöfnin var að ásatrúasið, en fram að því hafði ég einungis verið viðstödd hin hefðbundnu kirkjubrúðkaup innan þjóðkirkjunnar. Athöfnin var indæl, stutt, hnitmiðuð og laus við alla helgislepju. Mér þótti sérstaklega gaman að brúðhjónin þurftu, hvort fyrir sig, að lýsa því yfir að þau gerðu sér fulla grein fyrir þeirri ábyrgð sem hjónabandi fylgir.

Þó ég sjálf standi utan trúfélaga og haldi mig við þá ákvörðun að gifta mig aldrei, hef ég fulla trú á þessum flónakornum.

fimmtudagur, 7. ágúst 2008

París

Mér þykir gaman að spóka mig um í kjól á heitum degi, án þess að þurfa að taka lúffurnar með mér og hafa áhyggjur af því mér verði kalt. Mér þykir gaman að skoða fallegar byggingar og rölta í rólegheitum í stórborg með afslöppuðu andrúmslofti. Mér þykir gaman að drekka morgunkaffið utandyra í góðum félagsskap. Mér þykir gaman að fara í bakarí og sjá gamla konu setjast niður að hvíla sig, og hina viðskiptavinina sjá til þess, að hún sé afgreidd þegar röðin er komin að henni. Mér þykir gaman að drekka gott rauðvín og borða góða osta með. Mér þykir gaman að róla mér þó ég þori ekki lengur að hoppa þegar ég er komin á mikinn hraða. Mér þykir gaman að lenda í úrhellisrigningu sem er notaleg. Mér þykir gaman að babla á tungumáli sem ég varla kann.

Mér þykir gott að vera í fylgd með foreldrum sem hugsa fyrir nánast öllu. Mér þykir gott að vera minnt á það að þrátt fyrir við Íslendingar séum svo frábærir, þá mættum við oft vera mun kurteisari hvort við annað í daglega lífinu. Mér þykir gott að eiga indæla hjásvæfu til að sakna þegar ég er í útlöndum. Mér þykir gott að eiga góða vini sem hugsa til mín meðan ég er í burtu. Mér þykir gott að koma heim eftir gott ferðalag.

Er annars stokkin norður með myndarlega manninum.