föstudagur, 31. október 2008

Haló

Búin að skipta yfir í halóskanið.
Unnur María þykist vera duglegri að komenta í solleiðis.
Hvað er annars íslenska orðið yfir koment?

Músa-mál

Fundum músina í gær. Ég hafði undanfarna daga fundið svo mikinn músafnyk í kringum eldavélina, og sér í lagi á meðan ég brúkaði hana til eldamennsku. Síðast þegar ég hafði fundið jafn þrálátann fnyk af henni, án þess þó að vita það væri mús, þá var ég búin að staðsetja fnykinn við ísskápinn, þar sem foreldrar mínir komust síðar að að væri fylgsni hennar – þá. Ég bað því stærra gæludýrið mitt að draga eldavélina fram í gærkveldi og viti menn; við okkur blasti músartrýni sem reigði sig hnusandi upp á móti okkur. Mér varð svo hvelft við að ég hörfaði að eldhúsdyrunum. Bölvaður kötturinn hörfaði fram á gang.
Músin er sem sagt búin að hreiðra um sig í eldavélinni og hefur jafn vel fengið veður af krepputali, hún var búin að hamstra stórann bing af kattamat. Já; músin lifir á kattamat. Kötturinn deilir mat með mús.

Kærastinn kom músagildru fyrir í ofnskúffunni. Hún var því miður tóm í morgun. Bölvaður kötturinn setur sig enn í veiðistellingar fyrir framan ísskápinn. Músin væntanlega löngu búin að átta sig á honum og hingað til séð við honum.
Ég býst við að næsta skref hljóti að vera meindýraeyðir.

fimmtudagur, 30. október 2008

Ástríður Paestoa

Myndarlegi maðurinn færði mér þessa bók að gjöf í gærTæpar 500 bls fullar af fróðleik um Ítalíu, hráefni, matarhefðir og uppskriftir. Ég virkaði svöl á yfirborðinu en tísti af gleði inní mér. Get ekki beðið eftir að skoða hana betur og prófa uppskriftirnar. Fyrir svo utan hvað það er endalaust svalt hún skuli vera P-P-P.
Ég fékk líka gamlann magnara, aðstoð við eldamennskuna, drakk Líbanskt hvítvín og faðmaði mjúka ístru.

Í dag reyni ég að ákveða hvort ég eigi að skipta um komenta-kerfi. Mér finnst halóskanið með skemmtilegra umhverfi, en við breytinguna týni ég þeim komentum sem þegar eru komin.

Já, krepputímar eru erfiðir...

Jól 2008

Mér skilst að þetta sé jóla-myndin í ár

miðvikudagur, 29. október 2008

Kaffi-mál

Fyrir 2 sumrum síðan vann kjaftfor stubbur hér á skrifstofunni hjá mér. Hann fékk mig æði oft til að hlæja mig máttlausa með ótrúlegum talandanum, en það var þessi sami bölvaði talandi sem fékk því áorkað, að gömlu góðu kaffivélinni var skipt út fyrir sýróps-vél. Ég var sú eina sem mótmælti komu vélarinnar af fenginni reynslu frá öðrum vinnustað, og mun aldrei heiðra þetta sýróps-sull með því góða nafni kaffi. Rökin sem allir fóru á sveif með voru að það væri svo gott að hafa aðgengi að heitu “kaffi” á hvaða tíma sólarhrings sem er, bara að ýta á einn takka. Mín rök voru - og eru - sú að ég vil frekar 1 góðann kaffibolla á dag en marga vonda. Fyrst eftir að vélin kom, og öll þægindin sem henni fylgdu, var ég kölluð sérvitringur fyrir að koma með pressukönnuna mína í vinnuna og drekka mitt eigið kaffi yfir daginn. Fljótlega fór þó að þynnast hljóðið í mönnum og einn af öðrum að segja það upphátt, það væri vart hægt að kalla þetta “kaffi”. Nokk reglulega er kaffi-málið til umræðu á kaffi-stofunni. Strákskrattinn (nýlegi rekstrarstjórinn) tók sig því til, lét fjarlægja sýrópið í gær og er búinn að skipta yfir í stærðarinnar uppáhellingarvél með raunverulegu kaffi.

Ég er ekki frá því það hafi verið léttara yfir mönnum í morgun. Nema það sé snjórinn.

föstudagur, 24. október 2008

oink - oink

Er það bara ég, eða lítur maðurinn út eins og svín?Myndinni fylgdi reyndar sú frétt að mormónar í Bandaríkjunum sjái Prop 8 fyrir 77% af fjármögnun þeirra. Já, klárlega svín!

fimmtudagur, 23. október 2008

Ástand

Undanfarna daga hefur pissustand átt sér stað á heimilinu. Reyndar ekki á mér, en ég hef víða fundið miður geðfellt kattahland um þessa 47 fermetra sem ég kalla heimili mitt. Ég hef ekki haft tíma til að dást að því hvað kettir geta greinilega migið hátt upp um veggi, þar sem ég hef vart haft undan að vinda tuskuna, og er nú í fyrsta sinn síðan ég flutti, búin að handskúra alla þessa 47 fermetra. Ég hef orðið vör við ýmsa mismunandi ketti á sveimi við íbúðina mína, og komið að tveimur bláókunnugum köttum á eldhúsgólfinu hjá mér. Ég hef því ekki haft hugmynd um hvort hlandið komi frá mínum eigin ketti eða annarra köttum, en þó dregið þá ályktun að hugsanlega gæti Dagurinn minn verið að míga út um allt, til að verjast ágangi annarra katta. Eitt er þó á hreinu; ég held ég hafi sjaldan átt jafn miklar samræður við annað fólk um kattarlufsuna, og hugsanleg úrræði til að koma í veg fyrir stöðuga kattahlandsfýlu, sem satt best að segja er langt frá því að jafnast á við góðan bökunarilm þegar maður kemur inn úr dyrunum.

Ég fékk foreldra mína í heimsókn sl. helgi. Það var reglulega gaman að hitta þau, ekki bara af því mamma eldaði góðann mat handa okkur og við drukkum doldið af góðu rauðvíni, það var bara gott að hitta þau. Við ræddum að sjálfsögðu ástandið á heimilinu og ég kvartaði sárann yfir lykt í eldhúsinu sem ég botnaði ekkert í, og virtist ekki með neinu móti geta komið í veg fyrir, þrátt fyrir ítrekaðar þrif-tilraunir.


Á mánudagsmorgun hringdi pabbi í mig til að láta mig vita hann væri farinn á músaveiðar. Þau hjónakornin hefðu í hægindum sínum ákveðið að færa til ísskápinn hjá mér, þar sem mömmu sýndist grunsamleg korn vera þar undir. Þau voru sem sagt búin að komast að því að fnykurinn í eldhúsinu mínu stafaði af uppsöfnuðum músasaur, og það töluverðum. Um kvöldið fórum við pabbi eins ítarlega og við gátum yfir ísskápinn, en fundum enga mús né líklegann felustað fyrir mús. Töldum þó vissara að skilja eins og tvær músagildrur eftir með smotterís ostbita í.

Þriðjudagskvöldið greip ég kattar-skömmina glóðvolga þar sem hann sprændi lengst upp á fataskáp, var skammaður undir drep og hefur í kjölfarið ekki migið á fleiri staði. Músafnykurinn í eldhúsinu var ferskur sem fyrr, en ég var þó ánægð að engin frekari um-merki um mús var að finna.

Í gærkveldi var ég enn og glaðari; músafnykurinn horfinn með öllu og enginn um-merki. Ég var ekki glöð er ég uppgvötaði síðar um kvöldið að ísskápurinn virtist látinn. Kæró-lumman var kölluð út, ekki þó á músa-veiðar heldur til músa-viðgerðar. Ísskápurinn komst í samt lag eftir að laghenti ístru-Pésinn minn hafði tengt saman sundurnagaða víra. Eftir ítarlegar skoðanir á ísskápnum, bakvið eldavélina, inní skápa og öll hugsanleg skúmaskot, var niðurstaðan sú sama; einu um-merkin eftir mús eru undir ísskápnum. Hvar henni tekst að halda til er enn á huldu.

Eymingjans kattalufsan, sem ég hirti hálfstálpaðann úr fjósi fyrir um 9 árum síðan, er nú innilokaður og neyðist til að míga í appelsínugult þvottafat. Hann er undir gríðarlegum þrýsting frá eiganda sínum um að reynast nú klókari en músarfjandinn, og koma henni í eitt skipti fyrir öll, fyrir kattarnef. Vandræða-Pési er nafnið sem hann heyrir orðið oftar en sitt eigið.

Það eru spennandi tímar. Ég hélt það væri þægilegra að eiga kött fyrir gæludýr en hund. En það er klárlega kæró-lumman sem er þægilegasta gæludýrið.

mánudagur, 20. október 2008

SBAN

Á mínum vinnustað gengur síðasti geirfuglinn laus, með hálfa skúringafötu á höfðinu, latex-hanska á höndum og fulla vasa af skrúflyklum.

Suma daga smyr ég þykkara lagi af Camparí-sultu á ristaða brauðið mitt með kaffinu.

föstudagur, 17. október 2008

fés-bar

Fékk fés-póst frá gaur sem ég þekkti þarna einhverntímann í fyrndinni, er við vorum saman í Undirheimanefnd. Hann líkir fésinu og öllum “vinskapnum” þar við það að fara á barinn. Mér finnst það fyndið og jafnvel nokkuð til í því hjá honum. Nema hvað maður er oftar edrú á fésinu heldur en á barnum.

fimmtudagur, 16. október 2008

Don Pedro

skrifaði þennann pistil í gær.
Mér finnst hann skemmtilegur.

Áhyggjur

Til að fyrirbyggja allann misskilning, þá er kæró-lumman hvorki of seig undir tönn né orðinn verulega þreytandi. Ég var með áhyggjur af því að kjéllingin í kæró-lummunni myndi taka öll völd. Ég sá það fyrir mér hún myndi skellihlægja og klappa saman lófunum yfir öllum kreppu-áhyggjunum sem hann nú gæti velt sér upp úr. En kæró-lumman hefur það bara fínt. Fyrir utan heilbrigðu og vel gefnu afkvæmin sem hann á, fékk hann happdrættisvinning sem skiptir nokkrum þúsund-köllum í svo gott sem ónýtri krónu, á fulla skápa af dósamat, myndarlegann forða í líki ístru, svo ekki sé nú minnst á hann á jú mig sem kærustu.

Ég er því hætt að hafa áhyggjur af því hann hafi áhyggjur. Sem er ágætt, ég var ekki að nenna því hvort eð er.

þriðjudagur, 14. október 2008

Grá-sleppa

Í gær var ég ánægð sem fyrr með það væri kominn mánudagur. Parísardaman kíkti við hjá mér og sagði: Sko! Það er alveg til jákvætt fólk á Íslandi. Ég vissi það. En hugsanlega var það nú líka vegna þess ég sagðist hlakka til fleiri daga, en svo virðist sem afar fáum hlakki yfirhöfuð til þessa dagana.

Í fyrra skiptið sem ég bjó gal-ein upplifði ég fjárhagslega krísu, sem varð til þess ég fékk ógeð af endalausu pasta með smjöri, en var um leið hin ágætasta peninga-lexía, sér í lagi þegar krísunni var lokið. Ég hef aldrei verið há-launamanneskja eða átt sjóð af neinu peningalegu tagi. Ég hef engu að síður plumað mig alveg hreint ágætlega, ekki síst fyrir það að ég hef lært og tekst oftar en áður að temja skap mitt, og tamið mér að líta frekar í átt til já-kvæðni en nei-kvæðni. Þess fyrir utan er ég afskaplega einföld sála. Þrátt fyrir það ófremdarástand sem nú ríkir, geri ég passlega ráð fyrir að halda áfram að draga andann. Nú, og ef ekki, þá er ég væntanlega bara dauð.


Ég er líka að gera svo skemmtilega hluti, t.d. að læra söng og knúsa gamlann ístrubelg. Glætan að ég ætli að eyða tíma mínum í svartsýni, sér í lagi á þessum síðustu og verstu. Ef ég þarf að borða pasta með smjöri aftur, þá bara andskotans borða ég pasta með smjöri aftur – punktur - .


En takk fyrir komentið Parísardama, mér þykir vænt um það.

Ég

Það var svo fallegt að labba í vinnuna; dimman var svo notaleg, prjónapeysan frá mömmu var svo hlý, stöku hálkusvæði til að renna til í, Gonna Sing You My Lovesong & Move On í eyrunum, og búið að kveikja aftur á ljósunum í trénu í Barmahlíðinni sem lýstu svo fallega allann síðasta vetur. Nú sit ég með afganginn af kuldaroðanum í kinnum og á nefinu og hugsa bara; ah!

En jæja, best að hella upp á kaffi.

mánudagur, 13. október 2008

Kjarklaus kjáni

Í morgun var í fyrsta skipti þennann vetur sem ég labbaði í vinnuna í myrkri. Mér fannst það notalegt.
Í dag bíð ég eftir því að kjána-hrollur helgarinnar hverfi. Svo þykir mér líka gaman að mánudögum; gaman að hefja nýja viku sem bíður upp á tilhlökkun til fleiri vikudaga, rólegra kvölda og annarrar helgar.

fimmtudagur, 9. október 2008

Lú-sug

Njúkuð gráðaosta- og spínatbaka frá í gær er ekki góð.
Seta á Boston fram yfir miðnætti á virkum degi er ekki góð hugmynd, þrátt fyrir góðann félagsskap.
Í ofanálag hef ég svo áhyggjur af kæró-lummunni.

Detti mér allar dauðar lýs úr höfði.

þriðjudagur, 7. október 2008

Gling-gling-gló, dill-i-dó

Þegar ég var við það að byrja í Söngskóla Reykjavíkur, sagði bróðir minn mér að söngtími væri á við þerapíu. Ég er honum hjartanlega sammála. Ekki gott að útskýra það, maður er bara einhvað svo glaður eftir smá áreynslu á þindina og raddböndin.

Ég finn enga eirð í mér til að hafa áhyggjur af kreppunni. Mæli bara með söng.

föstudagur, 3. október 2008

Verði snjór

Í gær beið ég spennt eftir snjókomu.
Í dag bíð ég spennt eftir góðum breytingum í efnahagslífinu.

Ætli ég þurfi að slá saman hælunum um leið...

fimmtudagur, 2. október 2008

Konungur

Sá Norðurljós í gærkveldi er ég skondraðist á milli í Norðurmýrinni. Stór og björt í rokinu og reglulega falleg. Glöddu mitt litla hjarta ásamt kuldanum í bollu-kinnunum mínum. Þrátt fyrir mér leiðist stöðugt kaldir puttar og tær, þá finnst mér veturinn skemmtilegur.

Ég býð spennt eftir snjókomu.

miðvikudagur, 1. október 2008

Kæri -

Kæró er farinn að færa sig upp á skaftið.
Kaupti sér flunku-nýjann tannbursta og skildi hann eftir í ponkuskonsu íbúðinni minni.

Er alvarlega að íhuga að lækka hann aftur í hjásvæfu-tign.