föstudagur, 31. október 2008

Músa-mál

Fundum músina í gær. Ég hafði undanfarna daga fundið svo mikinn músafnyk í kringum eldavélina, og sér í lagi á meðan ég brúkaði hana til eldamennsku. Síðast þegar ég hafði fundið jafn þrálátann fnyk af henni, án þess þó að vita það væri mús, þá var ég búin að staðsetja fnykinn við ísskápinn, þar sem foreldrar mínir komust síðar að að væri fylgsni hennar – þá. Ég bað því stærra gæludýrið mitt að draga eldavélina fram í gærkveldi og viti menn; við okkur blasti músartrýni sem reigði sig hnusandi upp á móti okkur. Mér varð svo hvelft við að ég hörfaði að eldhúsdyrunum. Bölvaður kötturinn hörfaði fram á gang.
Músin er sem sagt búin að hreiðra um sig í eldavélinni og hefur jafn vel fengið veður af krepputali, hún var búin að hamstra stórann bing af kattamat. Já; músin lifir á kattamat. Kötturinn deilir mat með mús.

Kærastinn kom músagildru fyrir í ofnskúffunni. Hún var því miður tóm í morgun. Bölvaður kötturinn setur sig enn í veiðistellingar fyrir framan ísskápinn. Músin væntanlega löngu búin að átta sig á honum og hingað til séð við honum.
Ég býst við að næsta skref hljóti að vera meindýraeyðir.

Engin ummæli: