Í sundi fyrr í dag bað stúlka mig um að leiðbeina sér í klefanum. Hún talaði ensku með frönskum hreim og var á að giska áratug yngri en ég. Hún sagðist aldrei hafa farið í svona sund áður. Eftir að hafa sýnt henni skápana, hvernig hún ætti að læsa og opna, bent henni í átt að sturtunum og sagt henni hvar hún ætti að geyma handklæðið spurði hún mig hvort það væri rétt að hún ætti að fara úr öllum fötunum og þvo sér í sturtunni. Þegar ég jánkað því var næsta spurning; hvar á ég að fara úr öllum fötunum. Hér sagði ég og svo setur þú öll fötin í skápinn. Þessu næst byrjaði ég að týna af mér spjarirnar og stúlkan gerði slíkt hið sama. Þegar nærbuxur og bolur voru eftir spyr stúlkan mig hvort ég sé alveg viss um að hún eigi að fara úr öllu þarna, hvort hún eigi ekki að fara úr restinni nær sturtunum. Ég fullvissaði hana um að hún skyldi úr hverri spjör og í sturtunum væru ekkert nema berar konur í öllum stærðum og gerðum. Úr fór hún og trítlaði svo á eftir mér í átt að sturtunum, gjóandi feimnum augum að nektinni sem okkur mætti. Í sturtunni vorum við svo umkringdar hóp af konum sem töluðu þýsku og ekki á þeim að sjá að þeim þætti vitund óþægilegt að standa berar í sturtunni innan um kynsystur sínar, þ.e.a.s. fyrir utan eina sem kaus að baða sig í lokuðum sturtubás.
Í sumar sem leið fór ég í sund á Vík. Í sundlauginni á Vík eru ekki margar sturtur og aðeins 1 klósett. Þegar ég fór upp úr voru sturturnar uppteknar af íslenskum konum sem að sjálfsögðu böðuðu sig kviknaktar enda ekki vanar öðru. Á meðan biðu 15 breskar unglingsstúlkur sem áttu eftir að baða sig í sundfötunum og skiptast á að fara ein í einu inn á þetta eina klósett til að klæða sig úr til að þurrka sér til að geta klætt sig. Ég man ég hugsaði að ef til vill sæu þessar unglingsstúlkur aldrei allar breiddir, stærðir og gerðir kvennlíkamans, hversu sorglegt það væri ef eina nektin, fyrir utan þeirra eigin, væri nektin sem prýðir klámsíður eða stórstjörnur með sýndarþörf, einsleit nekt þar sem öll brjóst eru stinn, allar geirvörtur litlar, allir magar mjóir og allir rassar þrýstnir. Hvað gerist þegar unglingsstúlka uppgvötar að hennar vöxtur er ekki eins og sá einsleiti vöxtur? Unglingsstúlka sem er feimin við eigin vöxt, hvernig líður henni sem fullvaxta konu?
Einsleitur og oft á tíðum photosjoppaður, og þar af leiðandi óraunverulegur, vöxtur byggir varla upp sjáfsöryggi hjá neinum. Að umgangast eðlilega nekt og fá þá vissu að við erum ekki meitlaðar í einn og sama steininn, þurfum ekki og eigum ekki að vera það, hlýtur að gera þig meðvitaðari um að þinn líkami er þinn og þinn til að vera stolt af.