Muna hlustendur góðir eftir hinum heimsfræga (allavega á Íslandi) pöbb sem bar heitið Dubliners? Í vikunni sem leið ákvað ég að rifja upp liðna tíð og skellti mér á staðinn sem í dag ber heitið
Tres Locos. Tilefnið að þessu sinni var sumsé ekki að belgja kviðinn með góðum Guinnes af krana heldur kýla vömbina af mexíkóskum mat. Var vísað til borðs á efri hæðinni. Brosti í kampinn er ég þræddi stigann upp, stigann sem ég hef hreinlega ekki tölu á hversu oft ég steig upp, og niður, í misjöfnu ástandi, þ.e.a.s. allt frá næstum því edrú, tipsý, vel tipsý, vel í því og jafnvel peðölvuð. Komst þó ávalt klakklaust upp stigann og niður aftur. Sömu sögu var að segja þetta kvöld þrátt fyrir að hafa fengið mér einn rjúkandi Pisco Sour eftir matinn. Fyndið að sjá Dubliners skrýddum mexíkóskum myndum, mexíkóskum munum og óma af mexíkanskri tónlist. Nei, enginn trúbador í boði, allavega ekki á þriðjudagskveldi.
Þau voru ófá skiptin sem ég rölti úr Túnum í Hörpu tónlistarhús með mínum fyrrverandi til að hlusta á jazz. Múlinn á enn sinn miðvikudagssess svo ég ákvað að tími væri kominn til að endurnýja kynnin. Er ég arkaði í átt að stiganum sá ég starfsstúlku Hörpu í miðasölunni, af hálfgerðri rælni bauð ég henni góða kvöldið og spurði hvort Múlinn væri ekki enn á sama stað, á 3ju hæðinni? Sem betur fer því svo reyndist alls ekki vera, búið að færa jazzinn í allt annann sal.
Ulrik Bisgaard Quintet sveik aldeilis ekki með ljúfum tónum og Suður amerískri sveiflu í bland. Tveir saxófónar, píanó, bassi, trommur og dönskuskotin enska í kynningum á milli laga.
Á fimmtudeginum fór ég svo á Food and fun með systur minni og dóttur hennar. Gúffuðum í okkur Gullsporða, bleikju- og humarsushi, lúðuchevise, andabringum og ostaköku svo fátt eitt sé nefnt. Töluðum einhver ósköp og stóðum svo á blístri á eftir.
Samt var einhvernveginn öðruvísi að vera þarna. Það eru ekki bara hlutir og staðir sem ýmist haldast óbreyttir eða breytast. Kona breytist nefninlega líka.