Í morgun tók ég strætó frá Barónsstíg í Glæsibæ. Hef ekki nýtt mér íslenskar samgöngur í háa herrans tíð. Förin var að mestu tíðindalítil og þokkalega ánægjuleg með góða tónlist í eyrunum á leiðinni. Þó þykir mér farið heldur dýrt.
Í Glæsibæ átti ég tíma í sjónmælingu. Hef alla tíð haft mjög góða sjón en stuttu áður en ég flutti til Parísar neyddist ég þó til að gera mér ferð í Tiger og kaupa mín fyrstu lesgleraugu. Þau gleraugu nota ég enn en hugsaði þó með mér að það væri besta mál að láta mæla sjónina og fá almennilega úr því skorið hver staðan á henni væri, hvort Tiger gleraugu á styrk 1 væri málið. Eftir ítarlega skoðun, mismunandi stafaspjöld og svíðandi augndropa er niðurstaðan sú að ég á að halda mig við Tiger, 100% sjón á vinstri auga, 80% sjón á því hægra. Var tjáð að ég hefði verið með ofursjón áður en ellin skarst í leikinn og hugsanlega kæmist ég mest upp í styrk 1,75 í Tiger gleraugum með hækkandi aldri.
Með þessa niðurstöðu í farteskinu ákvað ég að labba til baka á sjúkrahótelið. Rölti í gegnum Laugardalinn, fór göngubrúna yfir í túnin, gekk götuna sem ég bjó við. Staldraði við húsið sem ég flutti inn í vegna þess að ég elskaði mann svo heitt. Leiddi hugann að ástinni sem teymdi mig þangað, hamingjunni sem hélt mér þar, erfiðleikunum og vonbrigðunum sem teymdu mig þaðan út ríflega áratug síðar.
Fyrr á gönguferðinni sá ég annað hús sem ég tengdi við námsefni tímans sem ég er að bíða eftir að hefjist hvað úr hverju. Kannski segi ég ykkur frá því síðar. Eitt get ég þó sagt ykkur með nokkurri vissu; það fæst ekki allt séð með sjón.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli