Fyrir 44 árum giftu foreldrar mínir sig. Dagurinn var ansi stormasamur. Það fyrirfórst að hugsa um brúðarvönd fyrir brúðina. Rúna systir mömmu bjargaði því, en einu blómin sem fengust þann daginn voru túlipanar. Húddið á bílnum hans afa Lárusar fauk af er þau voru á leið í kirkjuna. Það var víst skilið eftir og hirt upp á leiðinni heim. Pabbi gleymdi pappírunum heima svo Matti, frændi mömmu, rauk af stað úr kirkjunni heim til þeirra, að sækja tilskylda snepla. Eftir athöfnina fauk svo mamma niður kirkjutröppurnar í öllu rokinu, bambólétt af Boggu systur sem er nr. 2 í röðinni og fædd í apríl. Hjónabandið heldur enn.
Vafalítið væri við hæfi að birta eins og eina brúðarmynd, en mér hefur alltaf fundist þessa gamla, upplýsta mynd af foreldrum mínum krúttaraleg
5. febrúar er líka afmælisdagurinn hans afa Lárusar. Afi hafði mikið dálæti á bókum og var sílesandi, enda vissi afi hreinlega allt. Til er skemmtileg saga af afa að festa vask heima hjá honum og ömmu, með Boggu systur sitjandi í vaskinum á meðan. Afi var alltaf rólegur og yfirvegaður, sama hversu mikið við systkynin héngum í honum. Afi sagði okkur sögur af víkingum, Maríu Stúart, Napóleon og fór með ljóð fyrir okkur. Afi var góður maður með góða nærveru. Ég sakna hans enn.
Bókmenntaáhugi afa fór svo gott sem ósnertur framhjá syni hans, en fimmfaldaðist í okkur systkynunum öllum. Á þessari gömlu og heldur óskýru mynd, má sjá að ég hef frá unga aldri verið haldin forpokuðu bókmenntasnobbi