laugardagur, 29. október 2011

Sjónvarp & kaka?

Það rifjaðist upp fyrir mér þegar maður kom í Melabúðina í gær og spurði hvort þar fengist sjónvarpskaka, hvað það væri orðið hrikalega langt síðan ég hafði fengið sjónvarpsköku. Ég íhugaði að hringja í Hallveigu systur mína og biðja hana um að baka eina slíka, en fannst heldur langt að fara í kaffi alla leið til Ólafsvíkur. Ég fór því á netstúfana og fann þessa uppskrift. Ég átti nefninlega sjálf von á kaffigestum


Fyrsti sjónvarpskökubaksturinn myndast að minnsta kosti vel og ekki kvörtuðu Gulla og Brói, enda sómafólk mikið


Í dag keypti Gulla sér sinn árlega jólasvein sem bætist í myndarlegt safn af sveinkum. Þennan keypti hún handa mér



Ég ætla að láta Gullu litlu standa á kommóðunni í forstofunni svo hún geti tekið á móti gestum með mér, hún er svo skemmtileg og prakkaraleg á svipinn, soldið eins og Gulla stóra.

Við erum því væntanlega formlega byrjuð að skreyta fyrir jólin hérna í Túninu.

Mikið sem það er annars dáyndislegt að þekkja skemmtilegt fólk.

sunnudagur, 23. október 2011

Gulrætur & ananas

Þrátt fyrir að hafa á afar klaufalegan hátt tekist að þeyta öllum kurlaða ananasinum út í loftið er ég hristi safann frá í sigti, var gulrótarkaka dagsins stórfín. Já, það er ananas í þessari gulrótarköku



Blandið saman 5 dl af hveiti, 2 tsk af lyftidufti, 1,5 tsk af matarsóda, 1 tsk af salti, 2 tsk af kanil, 1 tsk af múskati og 5 dl af sykri. Rífið 5 dl af gulrótum og grófsaxið 2,5 dl af hnetum. Hrærið 4 egg og 2 dl af matarolíu saman og blandið við þurrefnin ásamt lítilli dós af kurluðum ananas (safinn ekki notaður), gulrótum og hnetum. Setjið deigið í smurt form og bakið neðarlega í ofni í u.þ.b. klstund.

Í kreminu er 150 gr af rjómaosti, 250 gr af flórsykri og sítrónusafi eftir smekk, hrært af myndugleik.

Úr Af bestu lyst 1 frá 1993.

laugardagur, 22. október 2011

Ítalskt ragú

Nautagúllas, hveiti, pipar, salt, ólífuolía, laukar, gulrætur, hvítvín, saxaðir tómatar, lárviðarlauf og bútur af gamalli sleif



Hollt og gott fyrir stækkandi stráka og stelpu með stæla.

fimmtudagur, 20. október 2011

miðvikudagur, 19. október 2011

Var Nonni manni?

"En ástæðan var þessi: Mamma hafði sagt, að ég væri allt of lítill til þess að geta veitt silung.
Þessi orð höfðu mér gramizt. Mér fannst hún gera allt of lítið úr mér. Ég var fullur af ákafa að geta sýnt mömmu, að ég væri strákur,en ekki stelpa, og gæti gert eitthvað, sem gagn væri að, þó að ég væri ekki eldri en þetta."

Á Skipalóni eftir Jón Sveinsson.

þriðjudagur, 18. október 2011

Stórundarlegasnarskrýtið

Fannst skrýtið að standa í matvörubúð rétt um níu að kvöldi að kaupa mjólk. Fannst líka skrýtið að vera afgreidd á kassa af stútungskarlmanni. Næstum jafn skrýtið og hvað lagið sem ég heyrði á leiðinni heim frá þessum skrýtnu uppákomum þeytti huga mínum aftur til FB. FB sem ég hugsa næstum aldrei um og tilheyrir e-m tíma sem ég kannast næstum ekki lengur við.

Til að gera skrýtna atrennu stórskrýtnari sá ég Sigurbjörgu Kötlu á Facebook þegar ég var svo komin heim. Og það var ekki ég. Ég er bara Katla þar. Síðast þegar ég fletti Sigurbjörgu Kötlu upp hjá Hagstofunni fékk ég sem fyrr að vita að ég væri sú eina. Þó er þessi nýja fædd 1996. Stórundarlega snarskrýtið en skemmtilegt og ég þarf að lesa 199 bls. af Nonna og Manna áður en ég fer að sofa fyrir krossapróf á morgun. Þrátt fyrir að fjarlægjast ansi margt er greinilegt að sumt breytist seint. Eða jafnvel aldrei.

Mætti halda ég væri enn í Fjölbraut í Breiðholti. Ef ekki væri fyrir fjarlægðina.

föstudagur, 14. október 2011

Plokkfiskur með slátri

Plokkfiskur gærdagsins rann ljúflega ofan í kallinn sem borðar ekki plokkfisk, og drengi tvo sem borða misvel og mikið, enda bragðbættur með hvítlauk, karrí, osti og sinnepi



Mér þykir hann þó langbestur eins og amma gerði, einfaldur hveitijafningur og slatti af lauk og pipar.

Vorum enn þjóðlegri í matseldinni í kvöld og skófluðum í okkur slátri. Melabúðin selur slátur með 40% afslætti þessa dagana, haustslátrun. Það þykir mér góður díll. Mun betri en díllinn um að hafa uppstúf og karteflur í stað rófustöppu. Hvílík endemis arkansansans vitleysa. Tók ekki einu sinni mynd af því.

þriðjudagur, 11. október 2011

Í morgunhúminu

gat ég ekki varist þeirri tilfinningu að með mér væri fylgst. Hélt þó ótrauð áfram að sýsla við uppáhellinguna og tautaði við sjálfa mig að láta myrkan morguninn ekki hlaupa með mig í gönur.


Svo sá ég hann



Hann virtist skelkaðri en ég af þessu eina auga að dæma. Eða hvað...


Kallinn í borðinu hlýtur að hafa fylgst með lengi. Ætli hann hafi vitað það sem aðrir ekki áttuðu sig á? Ætli hann horfist alltaf í einu auga á það sem aðrir forðast að sjá? Þýðir þetta að lúna, ljóta borðið er allt í einu komið með karakter? Og hvað er eiginlega málið með það að allt geti e-n haft karakter, svo gott sem sama hvað það er? Er rosalegur karakter í manninum?


Og hvenær í ósköpunum ætli ég hætti að vakna á Tyrklandstíma?

mánudagur, 10. október 2011

S-ól-ars-æla

Eftir 2 vikur í tómri sælu og Tyrklandssól var ekki mikið mál að mæta aftur til vinnu. Fékk þær dásamlegu fréttir í morgunsárið að ég hefði eignast splunkunýja frænku í gær og ég gleðst yfir því að kvennaveldið í fjölskyldunni er á geysigóðu róli. Skítt með það þó klukkan hjá okkur hafi verið þrjú um nótt er við komum heim í gær um íslenska miðnættið, vinnustundirnar átta á þessum sólríka en kalda mánudegi flugu hjá. Skríkti líka af gleði við að taka upp úr töskunum eftir vinnu.
Jæja, ég hálflýg því nú, ég skríkti aðallega af gleði þegar nýju skópörin sem sá myndarlegi keypti handa mér í útlandinu gægðust upp úr töskunni. 


Er hreint hissa á að ég skuli ekki einfaldlega springa af hamingjunni sem gutlar og geysist inni í mér. Út af þeim myndarlega sko. 
Sú ást hefur ekkert með skó að gera. Onei.