miðvikudagur, 29. maí 2019

Sálarheill í skruddu

Meiri blíðan, dag eftir dag *djúpt sældardæs* Hlunkast niður í sama stólinn á veröndinni eftir hvern unninn dag og gleypi í mig orð. Sá myndarlegi fer á námskeið og í ræktina og hvað eina en ég læt það ekkert trufla mig, spæni í mig bækur af bestu lyst. Sólbrann á fyrsta degi yfir frönskum krimma. Óð sólarvarnalaus yfir í íslenskan Kalmann. Aloe Vera borin stökk ég á aðra Kalmann skruddu og hitti fyrir sömu persónur úr hinni bókinni, nema seinni bókin sem ég las kom víst út á undan hinni. 

Búin að hjóla í og úr vinnu eins og kostur gefst, meira hvað það er gaman að hjóla *enn dýpra sældardæs* Svei mér þá, það er eins og það gerist eitthvað í sálartetrinu við að stíga pedalana, hamingjuhula virðist sveipast yfir frúnna eins og hjálmur, líka þó hann blási köldu með öllu sólskininu eins og í dag, eftir vinnu, með mótvind í fangi og hallærislegan hjólahjálm á höfði, þá dillaði hamingjan sér í sálartetrinu alla leið. 

Hlunkaðist svo í stólinn á veröndinni með bók sem við myndarlegi gripum á bókamarkaði og var satt að segja enn í plastinu. Bók útgefin ári áður en við myndarlegi kynntumst. Bók skrifuð af konu sem sá myndarlegi vann með fyrir þrjátíuogþremur árum. Bók sem hitti mig í hjartastað. 

Sól hnígur til viðar en þessi bók ætti að vera á allra náttborðum

Eða vörum. Legg ekki meira á ykkur.

sunnudagur, 26. maí 2019

Lífið er ekki bara leikur

Er að verða búin með heila dós af engiferöli og ætla því að leyfa mér að segja að mér finnst engiferöl ekki gott. Hef setið á svölunum mestmegnið af deginum að undanskilinni sturtuferðinni. Sturtuferðin var stutt og frískandi en sólin nær ekki að teygja sig inn um baðherbergisgluggann. 

Eiginmaðurinn vakti mig í nótt (að mér fannst) við að síminn minn glumdi. Klukkan var víst að verða sjö og allt útlit fyrir að mágkona þess myndarlega hafi verið að hringja frá Ástralíu. Nema mig var að dreyma og gat ekki vaknað til að svara í síma, ekki einu sinni minn eiginn.

Meðan sólin gleypti mig gleypti ég bók eftir Kalmann og reytti manninn minn til reiði.

Svona er nú lífið hverfult. Þess vegna getur verið erfitt að vera manneskja og af sömu ástæðu svo fjári gaman að lifa.

föstudagur, 24. maí 2019

Eftir Júróvisjón kom pakkaleikur

Þetta skrifaði ég nú bara af því að mig langar svo að birta þessa mynd 

þarna gefur að líta konurnar í mínu lífi; mamma mín og systur. Sunna slæðir sér með já en margar fleiri systurdætur á ég, allt frábærar konur, sterkar, vel gefnar og góðhjartaðar.                                                                Meðan Hatari háði keppni og barðist fyrir mannréttindum eyddi ég helgi með þessum konum, konur sem ég veit að myndu berjast fyrir mér ef ég þyrfti á að halda.
Slík er gæfa einnar konu.

laugardagur, 18. maí 2019

Systur, mæður og mæðgur

Sunna systurdóttir mín liggur frammi í sófa með headphone á hausnum, hún segist ætla að hlusta á eina "plötu" áður en hún skríður uppí til mömmu sinnar. Mamma hennar liggur inní rúmi og les. Mamma mín liggur inní rúmi með Boggu systur, þær sögðust vera farnar að sofa en kjaftavaðallinn í þeim ómar fram í miðrými bústaðarins. Hallveig systir mín les fyrir svefninn rétt eins og Magga systir mín. Sjálf sagðist ég ætla að pakka inn gjöfum fyrir pakkaleik morgundagsins en sit svo hér í mínu rúmi og pikka þessi orð, rétt greini útlínur trjánna fyrir utan, lágt stilltur djass ómar úr símanum mínum, nógu lágt til að ég heyri fugla og rigningadropa syngja fyrir utan. 

Fésbókin uppástendur að fyrir 5 árum síðan hafi við mæðgur líka verið í bústað, otar meira að segja þessari mynd að mér sem móðir mín tók af okkur systrum
Magga, Katla, Bogga og Hallveig

þær prjóna, ég les. 

Systurdæturnar voru fleiri í þessari ferð ef ég man rétt, í stórum hópi geta ekki alltaf allir mætt. Það geta heldur ekki allir prjónað þó ferðin sé upphaflega hugsuð sem slík. Ég fæ væntanlega að fljóta með vegna þess að ég er svo óhemju skemmtileg þrátt fyrir prjónahelsið. 

Þarna vorum við staddar í Borgarfirði. Núna erum við aftur komnar í bústað sem við höfum áður verið í, þó ekki í Borgarfirði. Mæðgurnar eru í hjónarúmum, við Hallveig erum í neðri kojum í sitthvoru herberginu. 

Ætli sé ekki best ég fari að pakka inn gjöfum.

miðvikudagur, 15. maí 2019

Kom rassblaut heim

Hnakkurinn á hjólinu mínu var blautur eftir að hafa staðið úti í allan dag. Komst að því í dag að rauði regnkápujakkinn minn er of síður fyrir hjólreiðar, frekar hallærislegt að stoppa á ljósum eða við gangbraut og komast ekki af hjólinu af því að jakkinn er búinn að krækja sig yfir hnakkinn.

Hjólaði sjávarleiðina heim í léttum úða. Ekki bara er rauði jakkinn óhentugur til hjólreiða, hann er líka alsettur drulluslettum sem og bakpokinn sem ég var með. 

Heima fyrir voru það moldarlituð kattaloppuför sem tóku á móti mér á parketinu, borðstofuborðinu og gluggakistunni. 

mánudagur, 13. maí 2019

Á mánudegi er þetta helst

Sátum hljóð í bílnum í gær, örlítið ryðguð í augum og yfirfull af ónennu. Sátum og störðum útum framrúðuna þar til karlinn tók á sig rögg; fyrst við erum nú komin hingað sagði hann. Jú, ætli það ekki dæsti ég og reif upp bílhurðina. Með húfur og vettlinga örkuðum við útí blásandi rokið. Förum nú allavega að þessum steini þarna sagði annað okkar. Tökum næstu hæð fyrst við erum búin með eina sagði hitt. Eigum við að snúa við spurði ég er hvínandi hávaðinn í rokinu tók á móti okkur á toppnum. Eigum við ekki að finna þetta vatn fyrst svaraði sá myndarlegi. 

Svona klöngruðumst við skötuhjúin á Búrfell í Grímsnesi morguninn eftir árshátíð Vegagerðarinnar sem haldin var á Hótel Örk. Gísli skessa var veislustjóri og magar hristust ákaft undir borðum; mikill hlátur, gleði og glaumur. Magar kættust einnig við góðum mat og drykk. Síðan var dansað. Og dansað. Sungið og dansað. Var búin að gleyma því hvað mér finnst gaman að dansa við manninn minn. 

Í morgun skein sólin og ég hjólaði í vinnuna. Og heim aftur, mikil ósköp. Meira hvað það er gaman að hjóla

miðvikudagur, 8. maí 2019

Pétur ekki heima?

spurði Tobbi er ég bað hann um bita af laxi yfir kjötborðið í Melabúðinni áðan. Þar sem ég stóð og útskýrði fyrir honum að Pétur væri jú á landinu en ætlaði út að borða með eldri syni sínum fannst mér eins og hálf búðin væri að hlusta, það væri ekki bara þriðjungur starfsfólks sem fylgdist með því hvort frúin keypti lax heldur viðskiptavinir líka! 

Í kvöld ákvað ég því að breyta til. Fann óopnaða krukku af ananasshrirachasultutaui frá Stonewall Kitchen í ísskápnum, sem ég makaði yfir laxinn, og tók þá djörfu ákvörðun að láta Köd&grill-kryddið eiga sig. Reif Manchego ost, sem ég keypti eitthvert skiptið fyrir rétt sem ég gerði aldrei, yfir herlegheitin og henti inní ofn, EKKI undir grillið, ótrúlegt en satt (ok, ég viðurkenni að ég stillti á grillið allra síðustu mínúturnar).

Sætsterkt bragðlaukapartýið kom skemmtilega út. Til hvers líka að vera á breytingaskeiðinu og breyta svo aldrei til?

Jú, mikið rétt, húmorinn hefur ávalt verið mér hliðhollur.

fimmtudagur, 2. maí 2019

La vie à Samtún

Heyri hundgá í fjarska. Sé lögreglubíl í næstu götu, stopp útá miðri götu í næstu götu. Var að horfa á belgískan lögregluþátt. Ekki viss um að neitt af þessu þrennu tengist á neinn hátt.

Akkúrat núna stendur nágrannakonan í næstu götu (já, þar sem lögreglubílinn er) fyrir framan ruslatunnurnar og reykir. Blái bolurinn hennar er í stíl við bláu tunnuna. Konan er ljóshærð og húsið er hvítt.

Belgíska lögregluþáttinn byrjuðum við myndarlegi að horfa á á Netflix. Eftir 2 þætti gafst ég upp og ekkert óvanalegt við það svo sem. Sá myndarlegi er staðfastari og horfði til enda sem er ágætt fyrir mig, ég spyr hann bara hvað hafi gerst og svona nema í gær tilkynnti hann mér að ég yrði bara að horfa á 3 síðustu þættina, það væri svo magnað tvist. Já, en, er ekki xxxx morðinginn spurði ég. Þú verður bara að horfa svaraði hann. Svo í gær horfði ég á 2 þætti og kláraði síðasta þáttinn rétt í þessu. Viti menn, xxxx er morðinginn.

Lögreglubílinn er farinn, hundgáin heldur áfram og það er önnur sería af belgíska lögregluþættinum.

Legg ekki meira á ykkur.

miðvikudagur, 1. maí 2019

Öl er böl,

það hef ég reynt. Oftar en einu sinni, oftar en tvisvar. Síðast í gær.

Góður vinur er gulls ígildi. Að vera sinn eiginn vinur er víst þyngdar sinnar virði í gulli. Sel það ekki dýrara en ég keypti það.

Að auki vil ég hrópa þetta: LIFI VERKALÝÐURINN!