laugardagur, 18. maí 2019

Systur, mæður og mæðgur

Sunna systurdóttir mín liggur frammi í sófa með headphone á hausnum, hún segist ætla að hlusta á eina "plötu" áður en hún skríður uppí til mömmu sinnar. Mamma hennar liggur inní rúmi og les. Mamma mín liggur inní rúmi með Boggu systur, þær sögðust vera farnar að sofa en kjaftavaðallinn í þeim ómar fram í miðrými bústaðarins. Hallveig systir mín les fyrir svefninn rétt eins og Magga systir mín. Sjálf sagðist ég ætla að pakka inn gjöfum fyrir pakkaleik morgundagsins en sit svo hér í mínu rúmi og pikka þessi orð, rétt greini útlínur trjánna fyrir utan, lágt stilltur djass ómar úr símanum mínum, nógu lágt til að ég heyri fugla og rigningadropa syngja fyrir utan. 

Fésbókin uppástendur að fyrir 5 árum síðan hafi við mæðgur líka verið í bústað, otar meira að segja þessari mynd að mér sem móðir mín tók af okkur systrum
Magga, Katla, Bogga og Hallveig

þær prjóna, ég les. 

Systurdæturnar voru fleiri í þessari ferð ef ég man rétt, í stórum hópi geta ekki alltaf allir mætt. Það geta heldur ekki allir prjónað þó ferðin sé upphaflega hugsuð sem slík. Ég fæ væntanlega að fljóta með vegna þess að ég er svo óhemju skemmtileg þrátt fyrir prjónahelsið. 

Þarna vorum við staddar í Borgarfirði. Núna erum við aftur komnar í bústað sem við höfum áður verið í, þó ekki í Borgarfirði. Mæðgurnar eru í hjónarúmum, við Hallveig erum í neðri kojum í sitthvoru herberginu. 

Ætli sé ekki best ég fari að pakka inn gjöfum.

Engin ummæli: