Sátum hljóð í bílnum í gær, örlítið ryðguð í augum og yfirfull af ónennu. Sátum og störðum útum framrúðuna þar til karlinn tók á sig rögg; fyrst við erum nú komin hingað sagði hann. Jú, ætli það ekki dæsti ég og reif upp bílhurðina. Með húfur og vettlinga örkuðum við útí blásandi rokið. Förum nú allavega að þessum steini þarna sagði annað okkar. Tökum næstu hæð fyrst við erum búin með eina sagði hitt. Eigum við að snúa við spurði ég er hvínandi hávaðinn í rokinu tók á móti okkur á toppnum. Eigum við ekki að finna þetta vatn fyrst svaraði sá myndarlegi.
Svona klöngruðumst við skötuhjúin á Búrfell í Grímsnesi morguninn eftir árshátíð Vegagerðarinnar sem haldin var á Hótel Örk. Gísli skessa var veislustjóri og magar hristust ákaft undir borðum; mikill hlátur, gleði og glaumur. Magar kættust einnig við góðum mat og drykk. Síðan var dansað. Og dansað. Sungið og dansað. Var búin að gleyma því hvað mér finnst gaman að dansa við manninn minn.
Í morgun skein sólin og ég hjólaði í vinnuna. Og heim aftur, mikil ósköp. Meira hvað það er gaman að hjóla
Engin ummæli:
Skrifa ummæli