fimmtudagur, 16. desember 2021

Afhending færeyska jólatrésins

Var að koma inn úr göngutúr. Með tónlist í eyrunum leyfði ég hárinu að dansa slegnu í vindinum. Gekk góðan hring með góðar hugsanir á sveimi í huganum. Slapp við vætu og að detta í hálku sem leyndist á stöku stað. Kisusystkynin tóku mér fagnandi (VÍST GERÐU ÞAU ÞAÐ!) og ég var hýr sem kýr eftir hressandi blásturinn. Get sumsé staðfest, fyrir einhver ykkar, að það er rok þarna úti.

Settist við tölvuna og las um milljón dollara rannsókn frá Amríku um ávæning þess að fara í 30 mínútna göngutúr á hverjum degi. Miðað við veðráttuna hérlendis er spurning hvort korter dugi til en meðal þess sem tiltekið er í umræddri grein þá dregur hálftíma göngutúr daglega úr líkunum á ristilkrabba. Um svipað leyti í fyrra kom pabbi í heimsókn til mín þar sem ég lá í spítalarúmi á Landspítalanum og saug vatnsósa bleikann svamp af áfergju til að svala þorstanum eftir svæfingu og aðgerð.

Heilt ár, upp á dag, liðið síðan ég tók minn fyrsta veikindadag í Melabúðinni eftir tæplega 10 ára starf þar til að gangast undir aðgerð þar sem 25 cm voru skornir burt úr mínum ristli til að fjarlægja illkynja krabbamein. Sá alls ekki fyrir kúvendinguna sem líf mitt átti enn eftir að kollsteypast um en í tilefni dagsins fór ég og keypti mér jólatré. Konan hjá Flugbjörgunarsveitinni sagði að tréið væri danskt en ef eitthvað er að marka hana Túrhillu Johansen, sem ég hálfpartinn ólst upp með, er krækiberjalyngið líklegast færeyskt. 

Eitt er á tæru, hríslan var keypt hér í Reykjavík

sunnudagur, 10. október 2021

Súpu-gott

Á nýliðnu föstudagskveldi fletti ég af mér hamnum, íklædd náttfötum, og sagði bestu vinkonu minni upp og ofan af öllu því góða og öllu því ekki eins góða sem hringsnýst í lífi mínu þessa dagana. Töluðum um liðna atburði í bland við drauma sem enn eiga eftir að rætast, vonir og þrár. Nostruðum við sameiginlegt áhugamál (Camparidrykkju), fífluðumst og hlógum, hlustuðum á hverja hljómpötuna á fætur annarri og hikuðum ekki við að taka sporið á stofugólfinu ef slíkt lag bar undir.

Nú þegar frúin er aftur komin í efri byggðir kemur sér vel að vera með aukaherbergi fyrir góðar vinkonur að gista í. Langt fram eftir laugardegi héldum við áfram að tala, drukkum appelsínusafa og sötruðum kaffi með ristuðu brauði með afgöngum af ostum frá kvöldinu áður. Skeyttum engu um tímann sem flaug hjá enda tíminn aukaatriði hvort sem hann er í sekúndum, mínútum, dögum eða árum þegar sannir vinir eru annars vegar.

Eftir tíð og ströng verkefnaskil ásamt prófi er langþráð lotufrí hafið í skólanum, engu að síður var ég ákveðin í að einbeita mér að aðferðafræðinni í dag. Vaknaði fyrir allar aldir (ekki skipulagt), hámaði Myrkrið á milli stjarnanna eftir Hildi Knútsdóttur í mig ásamt því að drekka ófáa kaffibolla í bælinu. Rauk því næst á lappir og dembdi mér út í göngutúr í algjörri stillu og sólin skein svo blítt, engu að síður var göngutúrinn fremur svalur. Kom heim og fór beinustu leið í náttfötin aftur. Reif því næst í mig Launsátur Jónínu Leósdóttur. 

Skemmst er frá því að segja að ég hef engu námi sinnt í dag. Samviskulaus lestur á skáldsögum hinsvegar hefur veitt mér mikla ánægju. Að auki mallar kjötsúpa á eldavélinni hjá mér. Þrátt fyrir að lambakjötið sé íslenskt er súpan sögð írsk, skv. uppskriftinni. Hef enda aldrei eldað kjötsúpu áður, hvorki íslenska né írska. Legg ekki meira á ykkur.

laugardagur, 25. september 2021

Kosningasnatt

Í fyrsta skipti síðan ég fékk kosningarétt klæddi ég mig ekki uppá áður en ég fór á kjörstað, setti ekki á mig maskara og fór ekki einu sinni í brjóstahaldara. Ég ákvað að ganga á kjörstað og því klæddi ég mig eftir veðri. 

Ég var í fyrra fallinu í morgun og fáir á kjörstað, kjörstað sem ég hef aldrei kosið áður á. Skilaði mínu atkvæði fljótt og örugglega og hélt svo áfram mína leið með svarta bakpokann á bakinu. Átti líka erindi í búð, á degi sem þessum þarf líka að sinna því hversdagslega eins og að kaupa mjólk og brauð og ostrusósu.

Í síðustu kosningum kaus ég Vinstri Græna ekki síst fyrir það að Katrín Jakobsdóttir var efst á lista í mínu kjördæmi. Síðan þá hefur mér liðið eins og ég hafi óvart sett X-ið við D-ið og því kemur ekki til greina af minni hálfu að kjósa Vinstri Græna aftur. Enn í sama kjördæmi, þó í öðru hverfi sé, kaus ég ákveðinn flokk í fyrsta skipti enda nýr flokkur. Ég er ekki endilega hrifin af öllum sem skipað hafa verið í sósíalistasæti en ég treysti flokknum til að valda usla, þó ekki sé annað, og er þá gott betur en ég treysti öðrum á öðrum listum til að framkvæma yfir höfuð. 

Hvort sem Katrín er á sporslu hjá Basset eða Marc Jakobs, finnst lakkrís góður eða kjóllinn bara svona skæslegur, þá er víst að hún er á margra vörum í dag fyrir vikið. 

Sjálf er ég búin að fara út með ruslið og því líklega best að halda áfram með ritgerðasmíð um lýðhyggju

föstudagur, 17. september 2021

Í rúlluðu máli

Snemma á síðasta ári keyptu foreldra mínir, óumbeðin, eldhúsrúllur í Costco handa mér. Ég held að í hverri magnpakkningu af Costco pappír séu einar 10 rúllur og hvert blað er c.a. fermeter svo ég bað mömmu um að taka megnið af eldhúsrúllunum með sér þegar þau færu. Jájá, sagði mamma og skildi þær svo allar eftir, veitir heldur ekkert af fyrir konu sem er ein í heimili. 

Þau gerðu sér lítið fyrir og keyptu líka klósettpappír handa stelpunni. Jú, þið giskuðuð rétt, í Costco. Í gær var ég loksins komin á seinustu rúlluna af skeinirnum. Ég þurfti aðeins að snattast fyrir föðurbróður minn eftir vinnu og fleygja nauðsynjavörum í vinkonu í sóttkví, þegar ég loks brunaði heim á leið var mér orðið frekar mikið mál að míga. Íhugaði í 23 sekúndur að bruna bara beint heim en varð þá hugsað til mömmu æskuvinkonu minnar en hún gleymdi stundum (oft) að kaupa klósettpappír og því var oftar en ekki skeint sér á kaffipoka á því heimilinu. Nú vill reyndar svo til að ég á kaffipoka en ég afréð samt að koma við í búð á heimleiðinni, var hálft í hvoru búin að láta mér hlakka soldið til að velja mér sjálf skeinipappír, en staldraði þó ekki lengi við valið þar sem ég var jú í spreng.

Fleygði af mér jakkanum en gaf mér ekki tíma til að fara úr skónum (ég var í alvörunni í spreng krakkar). Þar sem ég sat á stellinu og sprændi blasti við mér glæný pakkning af.....jú, þið giskuðuð rétt, klósettpappír úr Costco. 

Hringdi í mömmu og spurði hvort hún og pabbi hefðu verið í bænum. "Já, æ, við vöknuðum svo snemma og vorum bara í stuði og brunuðum í bæinn, sáum einmitt að þú varst á síðustu rúllunni svo við splæstum bara í meiri pappír handa þér elskan." Uh, já, takk mamma mín, ég kom einmitt við í búð á leiðinni heim og keypti skeinir. "Ég spurði pabba þinn hvort við ættum ekki að hringja í þig fyrst og hann sagði neinei, við kaupum bara klósettpappír handa stelpunni!"

Einhvern tímann á næsta ári, þegar ég þarf aftur að kaupa klósettpappír, er eins gott að ég muni að hringja í foreldra mína til að athuga hvort ég sé ekki örugglega á seinustu rúllunni. Ætla rétt að vona að þau lesi ekki þessa færslu, ég er nefninlega líka á seinustu eldhúspappírsrúllunni.

mánudagur, 12. júlí 2021

Sól, sól skín á mig, lúsmý burt með þig!

Sólbruni á enni, nefi, höku, bringu, handleggjum, læri og hnjám. 32 lúsmýsbit. *Stundum bítur lífið konu í rassgatið. Þá er ekkert annað að gera en að bretta upp ermar og rísa upp yfir erfiðleikana, hverjir svo sem þeir gætu reynst vera. 

Fínt að sofa ein í tjaldi á Kleppjárnsreykjum (fyrir utan lúsmýið reyndar) með A-hýsi foreldra minna á vinstri hönd og tjald Harðardætra á hægri hönd. Fjölskylduútilegan í ár var góð eins og flest önnur ár á undan, fjölskyldan og enda sallafín. Systurnar Sunna og Daney tjölduðu fyrir mig á meðan ég át eðalborgara í boði Björns mágs. Hallveig litla systir mín hljóp yfir tjaldsvæðið til að fljúga upp um hálsinn á Kötlu stóru systur (þrátt fyrir að ég er yngsta stelpan í mínum systkinahópi, ((ég veit, þetta er flókið)). Mamma og pabbi héldu óslitnum kaffiflaumi gangandi ofan í liðið að vanda. Sátum í blíðviðrinu í gær og hlógum og töluðum. Sum okkar brunnu, önnur voru skynsöm og báru á sig sólarvörn. Apótek Magga mágs var opið með Lavanderspreyji til varnar bitum og smyrslum til að slá á kláða eftir bit.

Eftir sólríkan dag snöggkólnaði um kvöldið og úlpur, lopapeysur, húfur og jafnvel teppi birtust. Hálfkalt rauðvín drukkið úr plastglösum á fæti. Íslensk útilega í hnotskurn? Já, er það ekki bara.

Spilaði Kubb í fyrsta skipti á ævinni. Lygi náttúrulega, rámar í að hafa spilað þetta áður í einhverri fjölskylduútilegunni þar sem spilafélagarnir (ekki ég sko) hafi verið töluvert ölvaðir en engu að síður gengið nokkuð vel, allavega mikil stemming (á eftir að fá þetta staðfest). Endaði á að spila 3 leiki og sló svo Kónginn niður með slíkum tilþrifum að hálf fjölskyldan grenjaði af hlátri, hinn helmingurinn pissaði á sig af hlátri.  

Í kjölfar veikinda getur ýmislegt gerst, það veit frúin núna. Á slíkum stundum er fátt betra en að eiga góða fjölskyldu að sem styður við bakið á konu þrátt fyrir aldur og fyrri störf. 


*Hafandi sagt það vil ég taka skýrt fram að engin bit fundust á hvorugri rasskinn frúarinnar.

laugardagur, 30. janúar 2021

Uppstilling

Í gær fór ég fyrr úr vinnunni til að fara í blóðprufu á Landspítalanum og sækja krabbameinslyfin mín. Hitti indælis stöðumælaverði þar sem ég stóð og reyndi að skrá bílinn minn í stæði við spítalann, þeir bentu mér á hvar ég gæti lagt án þess að borga í stöðumæli. Fín ábending fyrir konu sem á enn eftir nokkrar ófarnar ferðir á sama stað.

Fór í góðann, langann göngutúr í dag. Einhvers staðar á leiðinni fann ég að ég var hætt að finna fyrir 3 tám á vinstri fæti. Jú, það var kalt í dag. Mér var engu að síður hlýtt á rösklegri göngunni, þ.e.a.s. fyrir utan nef og kinnar. Já og áður umræddar tær á vinstri fæti. Heimkomin gaf ég kisunum af fisknum sem ég sauð kvöldinu áður, þau kröfðust þess bæði, í alvöru talað. Ákvað að fara út með ruslið áður en ég færi úr skónum og Birta ákvað að fylgja mér, Bjössi matmaður hélt sig við fiskinn. Þar sem við Birta komum gangandi til baka sáum við mann munda myndavél og enn stærri linsu að ungri konu upp við húsvegginn á blokkinni, við fætur konunnar stillti sér upp enginn annar en svarti og hvíti kötturinn hann Bjössi. Við Birta sprungum úr hlátri. Ég reyndi að kalla á Bjössa en hann hélt sinni módel pósu og lét sem hann sæi mig ekki. Ljósmyndarinn sneri sér að mér og kallaði; þessi köttur er æði!

Búin að fá mér Negroni og sit núna og hlusta á plötu með David Bowie sem ég keypti eitt sinn í Safnarabúðinni forðum daga. Er enn með hroll eftir göngutúrinn áðan. Krabbameinslæknirinn sagði mér að einn af fylgifiskum lyfjameðferðar væri að finna til kuldar, innvortis hrolli og kuldadofnum fingrum og tám. Með mínar þröngu háræðar hef ég aldeilis fengið að finna fyrir dofnum fingrum og tám allt mitt líf, ef þetta verða einu aukaverkanirnar þá er ég sátt. 

Bjössi hins vegar lætur ekki sjá sig, hann er kannski kominn langleiðina á sýningarpallana í Mílano með sín fyrirsætugen. Kannski kona sjái hann bara næst á forsíðu Parísar Vogue. Ja, ég legg bara ekki meira á ykkur að sinni.

föstudagur, 22. janúar 2021

Reyk skynjun síðari

Hrökk upp með andfælum og vissi um leið að ég hafði sofið yfir mig og ætti að vera mætt til vinnu, alveg þar til ég áttaði mig á því að ég hafði farið heim 2 tímum fyrr og lagt mig á sófanum. Eftir mánaðarlangt veikindafrí átti ég ekki von á að þurfa að leggja mig á föstudegi eftir 3 vinnudaga en raunin varð engu að síður sú.

Fyrir margt löngu sá ég konu hrynja niður stigann á skemmtistaðnum Boston, eftir veltuna stóð konan upp og labbaði burt eins og ekkert hefði í skorist. Konan var töluvert ölvuð. Ef ég hefði verið ölvuð s.l. mánudagskvöld þá hefði kannski ekki verið svona vont að detta af stól, allavega ekki fyrr en daginn eftir. Marblettir á öxl, baki og mjöðm hafa bæst í flóruna en kinnin sloppið, sem betur fer, eins og það sé nú ekki nóg að ég treysti örfáum, útvöldum vinum hér fyrir óförum frúarinnar þó hún þyrfti ekki að auki að útskýra marblett á kinn fyrir alþjóð.

Systir mín á sextugsaldri hló að mér og sagði mér að ég væri orðin óttalega miðaldra. Hin systir mín á sextugsaldri hringdi til að segja mér að hún hefði líka dottið þennann sama dag, í hálku. Faðir minn hringdi og spurði hvers vegna ég hefði ekki notað tröppuna sem hann keypti handa mér þegar ég flutti hingað inn? Pabbi, ég hafði engann tíma til að fara inn í þvottahús að sækja tröppuna. Af hverju ekki? spurði pabbi. Ég var að flýta mér. Já, þú átt það nú til að vera fljótfær og framkvæma á undan huganum sagði pabbi. Hvað meinaru pabbi, ég varð að drífa mig að þagga niður þetta skerandi píp! Af hverju? Hvað hefði svo sem getað gerst? spurði pabbi. Nú, það hefði einhver getað hringt á slökkviliðið! Leyfðu þeim þá bara að gera það svaraði pabbi, viltu lofa mér því Katla mín að næst þegar reykskynjarinn fer í gang að taka því rólega og sækja tröppuna í þvottahúsið.

Í kvöld mýkti ég skalottlauk í ólafíuolíu, bætti skorinni vanillustöng útí og slatta af hvítvíni sem sauð niður áður en ég hellti rjóma í samsætið. Steikti rósakál í smjöri og fleygði nokkrum chilliflögum yfir. Bakaði silungsflak í ofninum og setti soldið smjör útí sósuna. Hafði engar áhyggjur af reykskynjaranum, hann liggur enn brotinn á skenknum.

þriðjudagur, 19. janúar 2021

Óbrotið mar

Við eldamennsku gærkvöldsins stóð reykjarstrókurinn ekki bara uppúr hausnum á mér heldur matnum líka, svo duglega að reykskynjarinn á ganginum tók við sér. Ég rauk að sjálfsögðu af stað með einn eldhússtólinn til að stöðva skerandi pípið. Í því sem ég sný reykskynjarann af tekst mér um leið að snúa sjálfri mér af stólnum og af því að ég geri allt með stæl þá lá ég kylliflöt á gólfinu á eftir. 

Ég sem hafði hugsað mér að mæta aftur til vinnu í morgun eftir mánaðarlangt veikindafrí hætti að reyna að troða mér í skóinn, hugsaði með mér að einn dagur til eða frá skipti kannski ekki öllu máli. Stóra táin er óbrotin, það þykist ég vita af fenginni tábrotareynslu, engu að síður hef ég haltrað hér innanhúss í allan dag. Þumallinn er líka óbrotinn en helvíti aumur, ekki ólíklegt að ég finni meira fyrir þeim eymslum þar sem um hægri þumal er að ræða. Já, að sjálfsögðu er ég rétthent, ef ég væri örvhent þá hefði það verið vinstri þumallinn, segir sig sjálft. Mér er líka illt í únliðnum og kinninni en sem betur fer eru bara marblettir á handleggnum og lærinu.

Ég nenni ekki að gúggla það en gerast ekki flest slys innan heimilisins? Ég tók allavega engann sjéns í kvöld, át kalt kúskúsið frá eldamennsku gærkvöldsins. Reykskynjarinn liggur ómarinn en brotinn á skenknum. Þar hafið þið það.