Við eldamennsku gærkvöldsins stóð reykjarstrókurinn ekki bara uppúr hausnum á mér heldur matnum líka, svo duglega að reykskynjarinn á ganginum tók við sér. Ég rauk að sjálfsögðu af stað með einn eldhússtólinn til að stöðva skerandi pípið. Í því sem ég sný reykskynjarann af tekst mér um leið að snúa sjálfri mér af stólnum og af því að ég geri allt með stæl þá lá ég kylliflöt á gólfinu á eftir.
Ég sem hafði hugsað mér að mæta aftur til vinnu í morgun eftir mánaðarlangt veikindafrí hætti að reyna að troða mér í skóinn, hugsaði með mér að einn dagur til eða frá skipti kannski ekki öllu máli. Stóra táin er óbrotin, það þykist ég vita af fenginni tábrotareynslu, engu að síður hef ég haltrað hér innanhúss í allan dag. Þumallinn er líka óbrotinn en helvíti aumur, ekki ólíklegt að ég finni meira fyrir þeim eymslum þar sem um hægri þumal er að ræða. Já, að sjálfsögðu er ég rétthent, ef ég væri örvhent þá hefði það verið vinstri þumallinn, segir sig sjálft. Mér er líka illt í únliðnum og kinninni en sem betur fer eru bara marblettir á handleggnum og lærinu.
Ég nenni ekki að gúggla það en gerast ekki flest slys innan heimilisins? Ég tók allavega engann sjéns í kvöld, át kalt kúskúsið frá eldamennsku gærkvöldsins. Reykskynjarinn liggur ómarinn en brotinn á skenknum. Þar hafið þið það.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli