Hrökk upp með andfælum og vissi um leið að ég hafði sofið yfir mig og ætti að vera mætt til vinnu, alveg þar til ég áttaði mig á því að ég hafði farið heim 2 tímum fyrr og lagt mig á sófanum. Eftir mánaðarlangt veikindafrí átti ég ekki von á að þurfa að leggja mig á föstudegi eftir 3 vinnudaga en raunin varð engu að síður sú.
Fyrir margt löngu sá ég konu hrynja niður stigann á skemmtistaðnum Boston, eftir veltuna stóð konan upp og labbaði burt eins og ekkert hefði í skorist. Konan var töluvert ölvuð. Ef ég hefði verið ölvuð s.l. mánudagskvöld þá hefði kannski ekki verið svona vont að detta af stól, allavega ekki fyrr en daginn eftir. Marblettir á öxl, baki og mjöðm hafa bæst í flóruna en kinnin sloppið, sem betur fer, eins og það sé nú ekki nóg að ég treysti örfáum, útvöldum vinum hér fyrir óförum frúarinnar þó hún þyrfti ekki að auki að útskýra marblett á kinn fyrir alþjóð.
Systir mín á sextugsaldri hló að mér og sagði mér að ég væri orðin óttalega miðaldra. Hin systir mín á sextugsaldri hringdi til að segja mér að hún hefði líka dottið þennann sama dag, í hálku. Faðir minn hringdi og spurði hvers vegna ég hefði ekki notað tröppuna sem hann keypti handa mér þegar ég flutti hingað inn? Pabbi, ég hafði engann tíma til að fara inn í þvottahús að sækja tröppuna. Af hverju ekki? spurði pabbi. Ég var að flýta mér. Já, þú átt það nú til að vera fljótfær og framkvæma á undan huganum sagði pabbi. Hvað meinaru pabbi, ég varð að drífa mig að þagga niður þetta skerandi píp! Af hverju? Hvað hefði svo sem getað gerst? spurði pabbi. Nú, það hefði einhver getað hringt á slökkviliðið! Leyfðu þeim þá bara að gera það svaraði pabbi, viltu lofa mér því Katla mín að næst þegar reykskynjarinn fer í gang að taka því rólega og sækja tröppuna í þvottahúsið.
Í kvöld mýkti ég skalottlauk í ólafíuolíu, bætti skorinni vanillustöng útí og slatta af hvítvíni sem sauð niður áður en ég hellti rjóma í samsætið. Steikti rósakál í smjöri og fleygði nokkrum chilliflögum yfir. Bakaði silungsflak í ofninum og setti soldið smjör útí sósuna. Hafði engar áhyggjur af reykskynjaranum, hann liggur enn brotinn á skenknum.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli