miðvikudagur, 25. mars 2020

Kettir, taska og bréfpoki

Í gærmorgun greip ég systkinin traustataki og tróð þeim ofan í tösku. Reyndist minna basl en ég átti von á. Það var ekki fyrr en í aftursætinu á tíkinni, á bílastæðinu fyrir framan Dagfinn dýralækni, sem baslið við að troða systkinunum aftur ofan í tösku hófst. Dæsti armæðulega og hugsaði með mér að svona væri líf fráskilinnar konu með tvo ketti, setti svo undir mig hausinn og járnviljann og þrjóskuna og oní tösku fóru þau svo ég gæti trítlað með þau örfá skref inn til dýralæknisins. Þar inni tóku tvær enskumælandi og indælar stúlkukindur á móti mér. Bjössi varð fyrri til að vera þuklaður og hlustaður og sprautaður, hann reyndi að streitast á móti ormapillunni en gaf svo eftir í 3ju tilraun. Birta tók þuklinu og hlustuninni og sprautunni með stóískri ró en er kom að ormapillunni kom þvermóðskan upp á yfirborðið. Á endanum gafst dýralæknirinn upp og Birta fékk því aðra sprautu til varnar ormum. Um kvöldið fengu þau systkin svo að sjálfsögðu soðningu.

Töskuna góðu eignaðist ég á níunda áratugnum (sem ég myndi persónulega vilja kalla þann áttunda, en, alltílæ), hún er mjúk og stór, með 2 rennilásum eftir henni endilangri og 2 renndum hólfum á hvorum enda, pastel fjólublá með vatnsbláum röndum. Bróðir minn fékk alveg eins tösku bara í annari eydísar litasamsetningu, líklega var þetta gjöf frá foreldrum okkar. Töskuna góðu hef ég margnotað, ef ekki fjölnotað, í gegnum árin og áratugina, ef út í það er farið. Hún hefur ferðast með mér milli landshluta, farið í ótal útilegur og bústaðaferðir, hjálpað mér við flutninga og nú síðast, hjálpað mér að koma tveimur köttum til dýralæknis. Spurning hvort bróðir minn eigi sína tösku enn.

Í morgun, í fyrsta skipti síðan við Birta og Bjössi hófum sambúð hér í Veghúsum, lágu þau bæði sofandi í rúminu hjá mér er ég vaknaði við vekjarann. Snúsaði oft og lengi. Að auki gladdi Sólveig vinkona mín mig með bréfpoka sem innihélt bókasexu og heimalagað góðgæti 

Það sem ein kona er lukkuleg með vini. Legg ekki meira á ykkur.

mánudagur, 23. mars 2020

Hnitmiðaður orðaforði skrifstofustúlku

Þrátt fyrir að sýsla daglega með uppgjör tókst mér í morgun að demba öllu klinkinu úr einum kassanum á skrifborðið mitt í staðinn fyrir bankapokann. Einungis ein smámynt náði að skoppa niður á gólf en að sjálfsögðu rúllaði hún undir skúffuskápinn undir skrifborðinu mínu. Svo frúin skellti sér á hnén, sveigði andlitið í átt að gólfi og rýndi undir skúffuskápinn. Mér til ómældrar ánægju sá ég 5 krónurnar liggja við hliðina á týnda eyrnalokknum. Lán i óláni er sumsé í alvörunni til. Ég sem var búin að gefa lokkinn upp á bátinn, kona ætti líklega að drífa í því að láta gera við armbandið.

Eins og þetta sé ekki nóg af góðum fréttum dagsins þá átti Birna afmæli í gær og kom því færandi hendi í vinnuna í dag, frosin marengsterta og peruterta með morgunkaffinu. Þar á eftir ofangreindur atburður. Mánudagur til mæðu? Aldeilis ekki.

Var að klára að lesa Hnitmiðaða kínversk-enska orðabók fyrir elskendur í annað sinn. Þegar vel gefin kona, sem aukin heldur er þér velviljuð, lánar þér bók og segir þér að lesa hana tvisvar þá hlýðir þú að sjálfsögðu. Orðabókin átti lestrana vel skilið og gott betur.

Á þessum degi, fyrir ári síðan, var ég ekki bara stödd í París heldur gekk ég Jean Paul Gaultier nánast niður. JEAN PAUL GAULTIER krakkar! Af því tilefni finnst mér vel við hæfi að birta þetta brot úr Orðabókinni góðu

Hnitmiðuð kínversk-ensk orðabók fyrir elskendur eftir Xiaolu Guo í þýðingu Urðar systur, Ingunni Snædal.

laugardagur, 21. mars 2020

Bara við tvö

Hráslagi gærdagsins og grámóða rigningu og roks níztu mig inn að beini, mér var kalt og ég var þreytt. Snjófegurð dagsins og kitlandi sólskin yljuðu mitt litla hjarta. Eftir lestur og kaffi og kisuknús og meiri lestur og ristað brauð dreif ég mig út í góðann göngutúr, kaldur á köflum já en mér var hlýtt af gleði. Er alveg bit á fólki sem finnst að kominn sé tími á vor og aðrir djarfari farnir að vonast eftir sumri, síðan hvenær hefur mars verið nokkuð annað en vetrarmánuður? Og hvað með páskahretið? Þigg birtuna af snjófegurð alla vetrarmánuðina umfram grámyglu rigningargrámans. Þið megið mótmæla mér af krafti en ég tek ekkert mark á ykkur.

Í sárabót er hér lag sem mér finnst alltaf gaman að heyra, vona að það dilli ykkur líka

miðvikudagur, 18. mars 2020

Think about things

Það á ekki af íslensku þjóðinni að ganga. Loksins þegar öruggur sigur Íslendinga í evróvision er í höfn, eftir 36 ára streð og strit, gleði og brostnar vonir, þá er keppnin blásin af. Hvers á þjóðin að gjalda? Að kona tali nú ekki um hann Daða Frey og allt hans gagnamagn? Hópurinn kom, sá og tapaði í fyrstu atrennu og nú þegar þau vinna þá þarf ekkert minna en heimsfaraldur til að koma í veg fyrir að Daði Freyr taki keppnina með trompi þarna ytra. Margir yrðu nú sárir af minna tilefni en þessu, get ég sagt ykkur.

Komst ógrátandi í gegnum sjónvarpsgláp í kvöld. Datt inn í sænska þætti um ljóshærða, miðaldra konu sem á 3 börn og fyrrverandi menn og rekur veisluþjónustu og höndlar ekki alveg að sinn fyrrverandi er kominn með nýja og er að rembast við að fara á stefnumót og svona, soldið eins og ég. Nema ég er náttúrulega dökkhærð , á engin börn og vinn í verslun og er reyndar ekki á Tinder og langar ekki rassgat á stefnumót en, þið sjáið samt alveg líkindin, er það ekki?

Birta var að hendast inn um kattalúguna. Bjössi liggur úrvinda við fætur mér hér á bleika sófanum, hann elti kústinn um alla íbúð og háði djarfar orustur við sópinn allt þar til ég burstaði samtíningnum í fægiskóflu og gekk svo frá kústinum inn í þvottahús. Blessaður karlinn hefur legið í fastasvefni á sófanum síðan. Ég skil hann vel. 

Ætli sé ekki best að hleypa eins og einum stefnumótaþætti af stað fyrir háttinn, maður hefur víst ekkert upp úr því að láta sér hlakka til Eurovision hvort eð er.

þriðjudagur, 17. mars 2020

50,000,000 Elvis aðdáendum getur ekki skjöplast

Í okkar fyrstu ferð til Parísar, við endann á einum af mörgum stigum Montmartre, á leið okkar frá Sacre Coeur, álpuðumst við inn í pínulitla búð og rákumst þar á aðra af tvíburasystrunum sem eiga og reka búðina, sem þrátt fyrir að vera lítil er sneisafull af skarti sem önnur systirin býr til og listaverkum sem hin systirin gerir. Leiddumst út, hönd í hönd, frúin með nýtt hálsmen um hálsinn. Í næstu ferð völdum við armband í stíl. Þar með var heimsókn í bútíkina okkar orðin að hefð og síðan þá höfum við bætt eyrnalokkum í safnið, afmælisgjöf handa mömmu og afmælisgjöf handa Daney systurdóttur. Í síðustu ferð okkar til Parísar keyptum við loks verk af hinni systurinni, sprúðlandi af passjón og festívri gleði, að kona tali ekki um rómans í flöktandi kertaloga
 
Hvarflaði ekki að mér að ferðin sú yrði okkar síðasta til Parísar, saman.

Stuttu fyrir skilnaðinn slitnaði armbandið. Á enn eftir að láta gera við það. Í gær, er ég kom heim eftir vinnu og byrjaði á því að rífa af mér skartið, áttaði ég mig á því að ég var bara með eyrnalokk í vinstra eyranu, hvenær lokkurinn flaug úr því hægra er ekki gott að segja. 

Af öðrum stórmerkilegum tíðindum gærdagsins þá kveikti ég á sjónvarpinu eftir matinn, líklega í 4ja skiptið síðan ég flutti hingað. Dembdi mér beint í Vod-ið og skoðaði hvort áhugaverðir þættir væru í boði. Þaðan tók ég stefnuna á DR1. Á hraðri yfirferð á I-inu, þá gerðist það, alls óforvendis. Skilnaðarsársaukinn hvefldist yfir mig, sár og óvæginn. Hvort það var bölvaður eyrnalokkurinn eða allir þættirnir sem við Pétur vorum vön að horfa á saman sem kom því öllu af stað er ekki gott að segja, en þar sem ég sat í bleikum sófa og barðist við tárin þá ákvað ég að leyfa mér það, leyfa mér að gráta, leyfa mér að sakna græns sófa og tánudds, leyfa mér að hugsa hlýtt til manns með fallegt bros og skakkar tennur, minnast bliks í auga og vonar sem átti aldrei von.

Í kvöld sauð ég fisk handa kisunum mínum og setti í vél. Í staðinn fyrir að kveikja á sjónvarpinu kveikti ég á plötuspilaranum. Undir ærandi diskóplötu frá 1977 hengdi ég upp þvott. 

Legg ekki meira á ykkur smáfuglar fagrir og aðrir vinir.

laugardagur, 14. mars 2020

Kötlumal

Hvað getur einn eftirlaunaþegi í vesturbæ Reykjavíkur upplýst mörg morðmál? var spurning sem ég þeytti út í svefnherbergisloftið í Samtúni þegar ég kláraði lestur á þar síðustu Eddubók Jónínar. Fékk þá veður af því frá eiginmanninum, sem þá lá í hjónasæng með mér, að það væri alls ekki víst að þær yrðu margar í viðbót. Nú vil ég taka það skýrt fram að ég hef notið hverrar einustu Eddubókar (og fyrst ég er byrjuð þá hef ég eingöngu lesið skemmtilegar og góðar bækur eftir Jónínu Leósdóttur) en ég gladdist engu að síður innilega yfir því að Edda leysti hreint ekki málið í síðustu bók, að sjálfsögðu var hún full af afskiptasemi og forvitni og öllu því sem gerir Eddu Frímannsdóttur að Eddu Frímannsdóttur, en mér finnst afar smart hjá Jónínu að breyta aðeins til. Ef þetta reynist síðasta Eddumálið þá kveð ég hana sátt í sinni en ég vona samt ógurlega að þær verði fleiri, textinn hennar Jónínu er svo lipur en líka þéttur og fleytifullur af öllu sem mannlegt er. Það á reyndar líka við um aðrar bækur sem ég hef lesið eftir hana. 

Kvefið á tímum Covid19 yrði líklega bókatitillinn hjá mér ef ég settist niður og reyndi að skrapa saman orðum í skáldsögu, hvað ætti svo sem nýfráskilin kona að segja um ást? 6 vikna kvefið mitt er ekkert nema kvef en að vera með venjulegt kvef á þessum óvenjulegu tímum er auðvitað ekkert venjulegt, eiginlega bara hallærislegt. Geri mitt besta til að kæfa hósta ef ég er stödd annarsstaðar en heima hjá mér og hnerri, herregúd. Er orðin þaulæfð í að bregða fyrir mér olnbogabótinni nema í þetta eina skipti sem ég renndi inn í innri hring á hringtorginu við Háskólann á leið minni til vinnu um daginn, óþægindi við að hnerra undir stýri náði hæstu hæðum á þeim tímapunkti. Rétt náði að setja stefnuljósið á og beygja á réttum stað út úr hringtorginu eftir tvo hnerra. Er annars lífræðilega hægt að hnerra með opin augu?

Legg ekki meira á ykkur elskurnar enda ætla ég að demba mér í Jarðarför Landsmóðurinnar Gömlu.

fimmtudagur, 12. mars 2020

Rækjur með fetaosti

Ef eitthvað er að marka Gestgjafann þá er matargerð Kýpurbúa grísk-tyrknesk og á stundum með líbönsku ívafi. Sjálf hef ég ekki komið til Kýpur, og enn síður kynnt mér matarmenningu þeirra, en Garides me fetta er víst ótvírætt grískur að uppruna. Yfirleitt borinn fram sem forréttur eða á smáréttahlaðborði. Léttur aðalréttur já en ég helmingaði nú samt uppskriftina. Ætlaði að kippa með mér baguettu úr Melabúðinni til að hafa með en gleymdi því svo. Á samt helminginn eftir af helmings matreiðslunni. 

Frúin er sumsé ekki bara með nefið ofan í skáldsögum, ég er líka lúsiðin við að blaða í gegnum uppskriftir. Áhuginn, og ánægjan, af matseld hefur ekki yfirgefið mig þrátt fyrir að vera aftur orðin ein í heimili. Þessa dagana er ég á kafi í Miðjarðarhafsblaði Gestgjafans frá árinu 2006. Það árið gerðist ég áskrifandi að Gestgjafanum í 1 ár. Á því ári bjó ég hjá foreldrum mínum eftir slit á 7 ára sambúð, tók heila meðgöngu í að finna mér íbúð sem urðu mín fyrstu íbúðarkaup, og sankaði að mér Gestgjafanum á meðan. Blöðin fóru með mér úr 111 í 105, frá hlíðum í tún, og eru nú í blússandi notkun í húsum í 112. 

Rétt eins og þá nýt ég þess að kveikja á kertum, nostra við matseldina, legg á borð fyrir sjálfa mig og nýt svo afrakstursins

Franskur jazz í bakgrunni. 
Þorri Hringsson mælti með þessu víni með matnum
Fyrsta glasið fór í sjálfan réttinn, tvö glös farin í mig. 

Legg ekki meira á ykkur kæru vinir enda þarf ég að huga að matseld helgarinnar.

þriðjudagur, 10. mars 2020

Af vekjara og bókum

Vekjarinn minn í morgunn sagði góðan daginn elskan mín, ertu vöknuð? Þessum gæða vekjara fylgdi ekki snús. Forsaga málsins er sú að við Pési æddum af stað úr Melabúðinni til að ná fyrir lokun í bílaumboð Pésa, þar sem bíllinn hans beið hans eftir viðgerð. Áttaði mig á því á leiðinni að ég hafði gleymt símanum mínum í vinnunni í æðibunuganginum í okkur. Komin alla leið í eitthvert Kauptún í öðru bæjarfélagi þá datt mér ekki til hugar að renna aftur vestur í bæ fyrir einn símagarm. Brunaði bara heim til mín og hóf leit að vekjaraklukkunni sem ég keypti í Ikea fyrir einum tveimur árum eða svo. Klukkuna fann ég þó hvergi og því voru góð ráð dýr. Nú vill svo til að ég er með heimasíma, ekki síst fyrir þá staðreynd að hann er galókeypis í þeim símapakka sem ég er með, nema mér varð hugsað til þess að einu sinni var hægt að panta hringingu til að láta vekja sig (já krakkar, auðvitað var það löngu á undan gsm) og það var þá sem ég áttaði mig á því að hringja í traustasta fólkið mitt. Mamma tók vel í að hringja í stelpuna sína klukkan sjö morguninn eftir. Það var svo pabbi sem vakti mig með þessum hlýju orðum í morgunsárið. 

Niðri í andyrinu, í blokkinni sem ég bý í, sá ég stafla af bókum til gefins. Án þess að hika hélt ég beint í bílakjallarann, tautaði með sjálfri mér að ég ætti nóg af bókum, huggaði sjálfa mig með því að ég myndi leyfa mér að skoða það sem eftir yrði er ég kæmi heim úr vinnu. Í vinnunni í dag birtist svo Sólveig vinkona mín og gæðablóð með bók fyrir mig að lesa og nokkur eintök af the New Yorker. Ég var því kampakát er ég hélt heim á leið og mér til ósvikinnar gleði (eða ógleði) var bókastaflinn í andyrinu óhreyfður. Ég "neyddist" því til að staldra við hann og jú, þið giskuðuð rétt, ég tók að mér nokkrar bækur, eða öllu heldur, ég skildi nokkrar bækur eftir í andyrinu. 

Ein af mínum uppáhaldsbókum er Hundrað ára einsemd eftir Gabriel García Márquez. Í gærkveldi horfði ég á Ástin á tímum kólerunnar. Velti því fyrir mér af hverju í ósköpunum ég hef ekki lesið fleiri bækur eftir manninn. Ein af bókunum sem ég tók með mér í lyftuna áðan er Af Jarðarför Landsmóðurinnar Gömlu.

Nú legg ég aldeilis ekki meira á ykkur að sinni, elsku vinir.

mánudagur, 9. mars 2020

Finnskur flamíngó?

Finnska pennavinkona mín sendi mér skilaboð á föstudeginum um að þau, hjónapörin þrjú, hefðu ákveðið að fara finnsku leiðina kvöldið eftir (þeirra eigin orð), þau væru búin að byrgja sig upp af víni og vildu endilega að ég kæmi í drykkjusamsætið til þeirra og kíkti svo með þeim í bæinn. Það var og. Get ekki sagt, óljúgandi, að ég hefði verið sérlega spennt fyrir þessu tilboði en vissulega langaði mig að hitta pennavinkonu mína aftur enda skemmtileg stelpa og við búnar að skrifast á í rúma tvo áratugi, auk þess sem ég hef tvisvar sótt hana og manninn hennar heim. Ekkert út á félagsskapinn að setja, það var þetta með drykkjuna og djammið sem dróg úr mér. 

Á laugardagskvöldinu er ég rembdist við að hrista af mér heimaværðinni og gíra mig upp í djammgírinn hringdi besta vinkona mín í mig. Við vinkonurnar fórum létt með að kjafta okkur í gegnum rúma 3 klukkutíma og er símtalinu lauk sá ég að pennavinkona mín var búin að senda mér skilaboð allann tímann um hvar þau væru, hvort ég væri ekki að koma og svo að síðustu; að þau væru farin uppá hótel að sofa, flug í fyrra fallinu daginn eftir. Þannig fór það.

Á sunndeginum umpottaði ég blóm í fyrsta skipti á ævinni, Flamingóinn minn var orðinn svo lúpulegur og búin að fella öll rauðu blómin svo ég tók sjénsinn, þvert á kunnáttu og getuleysi í þessum efnum. Hann sperrir sig enn og gerir vonandi áfram. Sólin sperrti sig líka í gær og lokkaði mig út í göngutúr. 

Að auki tók ég mér 5 klukkutíma í matseld. Legg ekki meira á ykkur að sinni.

föstudagur, 6. mars 2020

Kona með andlit

Ég tek henni Sólveigu minni, gæðablóði og gáfukvendi, iðulega fagnandi en, í vikunni þegar hún kom, tók ég þrjú hamingjuhopp (í huganum) áður en ég færði henni kaffi. Töluðum um rithöfunda og bækur og bækur og rithöfunda og svo var kaffið bara búið og Sóla var á hraðferð.

Í gær hringdi ég á leigubíl. Eftir örskamma stund fékk ég sms um að bíllinn væri kominn svo ég snaraði mér í skó og rauðu eightís-kápuna hennar mömmu. Í lyftunni fékk ég annað sms um að bíllinn væri kominn, svo ég dreif mig út, en þar var enginn bíll. Rölti af stað og hugsaði með mér að hann hefði kannski stoppað í götunni fyrir ofan. Þar sem ég gekk í snjóbörðum vindgangi hringdi gemsinn, leigubílstjórinn tilkynnti mér að hann biði á Vesturgötu. Þar sem ég bý í Veghúsum sagðist bílstjórinn hringja aftur uppá stöð og biðja um annann bíl, svo ég labbaði aftur til baka. Stóð niðri í stigagangi og sótti strætó-appið. Var rétt búin að setja inn kortaupplýsingar er síminn hringdi í annað sinn, annar leigubílstjóri sagði; Vesturhús, eru þau til? Einhverra hluta vegna vildi stelpan á stöðinni senda sína bílstjóra í vestur en mér tókst að fá þennann í hús og síðan í bryggju þar sem Sigrún vinkona beið. 

Á Spænska barnum fengum við stöllur okkur rauðvínsglas og tapaz áður en við klufum veður niður götuna á Petersen svítuna, þar sem við vinkonur höfðum hugsað okkur að hlýða á frönskuskotinn jazzsöng, en hittum fyrir finnska vini mína sem höfðu komið til landsins um morguninn. Sátum því á sófum í andyrinu og töluðum ensku ásamt því að steypa í okkur kokteilum. Tókum síðasta vagninn heim. Þ.e.a.s. strætisvagninn.

Í kvöld komum við Birta okkur fyrir á sófanum og hugsuðum hlýtt til okkar Sólu

mánudagur, 2. mars 2020

Talandi um bækur...

...þá kláraði ég Jussa fyrir helgina. Þrátt fyrir það er ég ekki búin að verða mér úti um næsta Eddu-mál. Síðast er ég kláraði bók eftir Jussa (eða þar síðast kannski þar sem ég er búin með þessa) hugsaði ég; njah, þú þarft að gera betur næst minn kæri. Að sjálfsögðu brást Jussi ekki væntingum mínum, fléttan var þétt og spennuþrungin fyrir svo og utan að fá loksins að kafa undir yfirborð Assads. Príma lestur.

Fyrir fleiri árum en ég kæri mig um að muna þá stóð ég frammi fyrir því að skrifa um ljóðskáld í íslenskutíma sem ég var í í Fjölbraut í Breiðholti. Ég hef aldrei verið sérstaklega ljóðhneigð og alls ekki þarna en mér til mikillar gleði þekkti ég eitt nafn á listanum, þó ekki vegna skáldskapar heldur fyrir bassaplokk. Ég hef alltaf verið mikill aðdáandi Sykurmolanna, og er enn, og því var það engin spurning að Bragi Ólafsson yrði fyrir valinu. Ég fór á bókasafnið í Gerðubergi og varð mér úti um nokkrar ljóðabækur og eitt smásöguhefti. Ég hafði sumsé aldrei lesið staf eftir manninn en átti allar Sykurmolaplöturnar, og á enn. Nennti samt ekki að skrifa ritgerð, ákvað í staðinn að taka bara viðtal við Braga. 

Þetta var sumsé fyrir daga internetsins og fátt í boði fyrir unga snót annað en að taka upp símaskránna og fletta undir B. Þar var vissulega enginn Bragi Ólafsson, Sykurmoli, skráður en ég gerði mér nú lítið fyrir og hringdi, úr heimasímanum uppí svefnherbergi foreldra minna, í þá Braga Ólafssyni sem þar fyrirfundust. Já, góðan daginn, Bragi Ólafsson? Já, svaraði iðullega karlmannsröddinn. Ert þú Sykurmoli? Nei, var ávalt svarið sem ég fékk. Nema frá einum Braga Ólafssyni, bankastarfsmanni, sem svaraði aldrei í símann. 

Ég var ekki á því að gefast upp, eins og ég sagði, ég nennti alls ekki að skrifa ritgerð. Nýtti mér samband við mág minn en bróðir hans þekkti til innann tónlistarinnviða Íslands. Fékk númerið hjá einhverjum Ásgeiri sem ég útskýrði fyrir ástæðu mína fyrir að komast í samband við Braga Ólafsson. Ásgeir sá sagðist aðeins þurfa að skoða málið. Örfáum dögum seinna hringdi heimasíminn og ég var kölluð að tækinu. Á hinum enda línunnar reyndist vera Bragi nokkur Ólafsson, Sykurmoli. Nei, ég meina, ljóðskáld! Á þessum tíma starfaði hann á auglýsingastofu og virtist bara nokkuð impóneraður yfir því að einhver Fjölbrautarskjáta vildi taka við hann viðtal. Bauð mér að koma og hitta sig á auglýsingastofunni daginn eftir sem ég að sjálfsögðu þáði. 

Ætla ekki einu sinni að reyna að neita því að ég var í meðallagi mikið nervös að eiga "stefnumót" við Sykurmola ljóðskáld með gamalt upptökutæki að vopni. En, ég lét mig hafa það. Bragi virkaði hlédrægur og feiminn en líka afar viðkunnanlegur. Viðtalið, eins og ég man það, reyndist fínt. Ég fékk allavega þrusugóða einkunn fyrir, eina manneskjan sem skilaði ekki ritgerð. 

Kennarinn minn skilaði svo aldrei spólunni, þrátt fyrir að ég reyndi nokkrum sinnum að heimta hana til baka. Ég get því eingöngu stutt mig við minni, hversu áreiðanlegt (eða óáreiðanlegt) það svo sem er.

Legg ekki meira á ykkur að sinni elsku vinir, nóg komið af Bragaháttum.

sunnudagur, 1. mars 2020

Helgarþrenna

Þegar þrjár miðaldra vinkonur koma saman til að belgja sig út af humri, kampavíni og hvítvíni þá er næsta víst að þá verði gaman. Sú varð líka raunin s.l. föstudagskvöld er tvær góðar vinkonur mínar sóttu mig heim. Hér í borðkróknum í nýju íbúðinni minni var mikið spjallað, töluvert etið og þó nokkuð drukkið. Stóðum úti í snjónum á veröndinni minni og skipulögðum hvítvínsstundir á komandi sumri. Hver hljómplatan af annarri snerist á fóninum, dönsuðum og sungum á stofuparketinu. Hlógum dátt og innilega. Þegar vinkonur þínar koma með ítalskt gúrmei lóðbeint frá Ítalíu (og nei, þá er ég ekki að tala um einhvern vírus heldur krydd og olíu og pestó og svoleiðis), krem, kertastjaka og gegnsæjar blúndunærbuxur í innflutningsgjöf þá veistu að þú átt góðar vinkonur.

Get ekki neitað því að hafa vaknað örlítið rykug í gær en reif mig engu að síður á lappir og mætti galvösk í "babyshower" hjá henni Janis minni. Þar fyrir hitti ég hana Viktoríu mína en þeim tveim kynntist ég í Melabúðinni, sumsé, samstarfskonur og vinkonur. Ég reyndist vera Íslendingurinn í hópnum, fyrir utan kannski bumbubúann sem á filipeyska móður og pólskann föður, Viktoría er svo frá Búlgaríu og restin af barnasturtusamsætinu reyndist portúgalskur. Frábært kombó að kona tali ekki um veisluhlaðborðið sem verðandi móðir var búin að reiða fram, harrí á himnum, hvílík sæla. Aftur sumsé belgdi ég mig út af mat, hló og spjallaði og gladdist innilega fyrir það tækifæri að fá að vera með, og kynnast, frábærum konum. Það er ekki lítið.

Í gærkveldi var ég enn pakksödd en vann engu að síður í afgöngum kvöldsins áður; kaldur humarinn fór í kettina, kalt Moëtið fór í mig


Nonna's garden

Vaknaði hress í morgun, las, drakk könnu af kaffi, klappaði kisunum mínum og fékk mér ristað brauð. S.l. klukkutíma, eða svo, er ég búin að hlaupa um íbúðina með prik í hendi, sveifla því frá hægri til vinstri, kippa því upp og aftur niður. Systkinin samrýndu eru búin að hlaupa með mér um alla íbúðina, sveigja trýnin frá hægri til vinstri, hoppa upp og niður. Hámarki leiks var náð er Bjössi stökk upp og greip svo fast um músina, sem hékk í spotta föstum við prikið sem ég hélt um, að spottinn losnaði frá prikinu. Bjössi virtist hæst ánægður, tók músina í kjaftinn og hljóp í burtu með hana. Við Birta stóðum eftir og hugsuðum kannski það sama; bölvaður bjáninn, veit hann ekki að þetta er ekki alvöru mús?

Er enn í náttfötunum og býst hreint ekki við að fara úr þeim í dag, nema kannski rétt á meðan ég bregð mér undir sturtuna. Legg ekki meira á ykkur, elsku vinir.