miðvikudagur, 25. mars 2020

Kettir, taska og bréfpoki

Í gærmorgun greip ég systkinin traustataki og tróð þeim ofan í tösku. Reyndist minna basl en ég átti von á. Það var ekki fyrr en í aftursætinu á tíkinni, á bílastæðinu fyrir framan Dagfinn dýralækni, sem baslið við að troða systkinunum aftur ofan í tösku hófst. Dæsti armæðulega og hugsaði með mér að svona væri líf fráskilinnar konu með tvo ketti, setti svo undir mig hausinn og járnviljann og þrjóskuna og oní tösku fóru þau svo ég gæti trítlað með þau örfá skref inn til dýralæknisins. Þar inni tóku tvær enskumælandi og indælar stúlkukindur á móti mér. Bjössi varð fyrri til að vera þuklaður og hlustaður og sprautaður, hann reyndi að streitast á móti ormapillunni en gaf svo eftir í 3ju tilraun. Birta tók þuklinu og hlustuninni og sprautunni með stóískri ró en er kom að ormapillunni kom þvermóðskan upp á yfirborðið. Á endanum gafst dýralæknirinn upp og Birta fékk því aðra sprautu til varnar ormum. Um kvöldið fengu þau systkin svo að sjálfsögðu soðningu.

Töskuna góðu eignaðist ég á níunda áratugnum (sem ég myndi persónulega vilja kalla þann áttunda, en, alltílæ), hún er mjúk og stór, með 2 rennilásum eftir henni endilangri og 2 renndum hólfum á hvorum enda, pastel fjólublá með vatnsbláum röndum. Bróðir minn fékk alveg eins tösku bara í annari eydísar litasamsetningu, líklega var þetta gjöf frá foreldrum okkar. Töskuna góðu hef ég margnotað, ef ekki fjölnotað, í gegnum árin og áratugina, ef út í það er farið. Hún hefur ferðast með mér milli landshluta, farið í ótal útilegur og bústaðaferðir, hjálpað mér við flutninga og nú síðast, hjálpað mér að koma tveimur köttum til dýralæknis. Spurning hvort bróðir minn eigi sína tösku enn.

Í morgun, í fyrsta skipti síðan við Birta og Bjössi hófum sambúð hér í Veghúsum, lágu þau bæði sofandi í rúminu hjá mér er ég vaknaði við vekjarann. Snúsaði oft og lengi. Að auki gladdi Sólveig vinkona mín mig með bréfpoka sem innihélt bókasexu og heimalagað góðgæti 

Það sem ein kona er lukkuleg með vini. Legg ekki meira á ykkur.

Engin ummæli: