Hvað getur einn eftirlaunaþegi í vesturbæ Reykjavíkur upplýst mörg morðmál? var spurning sem ég þeytti út í svefnherbergisloftið í Samtúni þegar ég kláraði lestur á þar síðustu Eddubók Jónínar. Fékk þá veður af því frá eiginmanninum, sem þá lá í hjónasæng með mér, að það væri alls ekki víst að þær yrðu margar í viðbót. Nú vil ég taka það skýrt fram að ég hef notið hverrar einustu Eddubókar (og fyrst ég er byrjuð þá hef ég eingöngu lesið skemmtilegar og góðar bækur eftir Jónínu Leósdóttur) en ég gladdist engu að síður innilega yfir því að Edda leysti hreint ekki málið í síðustu bók, að sjálfsögðu var hún full af afskiptasemi og forvitni og öllu því sem gerir Eddu Frímannsdóttur að Eddu Frímannsdóttur, en mér finnst afar smart hjá Jónínu að breyta aðeins til. Ef þetta reynist síðasta Eddumálið þá kveð ég hana sátt í sinni en ég vona samt ógurlega að þær verði fleiri, textinn hennar Jónínu er svo lipur en líka þéttur og fleytifullur af öllu sem mannlegt er. Það á reyndar líka við um aðrar bækur sem ég hef lesið eftir hana.
Kvefið á tímum Covid19 yrði líklega bókatitillinn hjá mér ef ég settist niður og reyndi að skrapa saman orðum í skáldsögu, hvað ætti svo sem nýfráskilin kona að segja um ást? 6 vikna kvefið mitt er ekkert nema kvef en að vera með venjulegt kvef á þessum óvenjulegu tímum er auðvitað ekkert venjulegt, eiginlega bara hallærislegt. Geri mitt besta til að kæfa hósta ef ég er stödd annarsstaðar en heima hjá mér og hnerri, herregúd. Er orðin þaulæfð í að bregða fyrir mér olnbogabótinni nema í þetta eina skipti sem ég renndi inn í innri hring á hringtorginu við Háskólann á leið minni til vinnu um daginn, óþægindi við að hnerra undir stýri náði hæstu hæðum á þeim tímapunkti. Rétt náði að setja stefnuljósið á og beygja á réttum stað út úr hringtorginu eftir tvo hnerra. Er annars lífræðilega hægt að hnerra með opin augu?
Legg ekki meira á ykkur elskurnar enda ætla ég að demba mér í Jarðarför Landsmóðurinnar Gömlu.
1 ummæli:
Takk fyrir enn einn pistilinn, vona að kvefið fari að yfirgefa þig svo þú vereðir vel undirbúin að fá þessa alvöru-pest sem allt snýst um núna. ég hef verið að hugsa um hvert ég á að fara til að næla mér í pestina svo ég geti notað tímann sem allir eru í sjálfskipaðri einangrun. Þá væri ég alveg tilbúin til að taka þátt í lífinu þegar allir meiga gera allt.
Skrifa ummæli