föstudagur, 6. mars 2020

Kona með andlit

Ég tek henni Sólveigu minni, gæðablóði og gáfukvendi, iðulega fagnandi en, í vikunni þegar hún kom, tók ég þrjú hamingjuhopp (í huganum) áður en ég færði henni kaffi. Töluðum um rithöfunda og bækur og bækur og rithöfunda og svo var kaffið bara búið og Sóla var á hraðferð.

Í gær hringdi ég á leigubíl. Eftir örskamma stund fékk ég sms um að bíllinn væri kominn svo ég snaraði mér í skó og rauðu eightís-kápuna hennar mömmu. Í lyftunni fékk ég annað sms um að bíllinn væri kominn, svo ég dreif mig út, en þar var enginn bíll. Rölti af stað og hugsaði með mér að hann hefði kannski stoppað í götunni fyrir ofan. Þar sem ég gekk í snjóbörðum vindgangi hringdi gemsinn, leigubílstjórinn tilkynnti mér að hann biði á Vesturgötu. Þar sem ég bý í Veghúsum sagðist bílstjórinn hringja aftur uppá stöð og biðja um annann bíl, svo ég labbaði aftur til baka. Stóð niðri í stigagangi og sótti strætó-appið. Var rétt búin að setja inn kortaupplýsingar er síminn hringdi í annað sinn, annar leigubílstjóri sagði; Vesturhús, eru þau til? Einhverra hluta vegna vildi stelpan á stöðinni senda sína bílstjóra í vestur en mér tókst að fá þennann í hús og síðan í bryggju þar sem Sigrún vinkona beið. 

Á Spænska barnum fengum við stöllur okkur rauðvínsglas og tapaz áður en við klufum veður niður götuna á Petersen svítuna, þar sem við vinkonur höfðum hugsað okkur að hlýða á frönskuskotinn jazzsöng, en hittum fyrir finnska vini mína sem höfðu komið til landsins um morguninn. Sátum því á sófum í andyrinu og töluðum ensku ásamt því að steypa í okkur kokteilum. Tókum síðasta vagninn heim. Þ.e.a.s. strætisvagninn.

Í kvöld komum við Birta okkur fyrir á sófanum og hugsuðum hlýtt til okkar Sólu

Engin ummæli: