Finnska pennavinkona mín sendi mér skilaboð á föstudeginum um að þau, hjónapörin þrjú, hefðu ákveðið að fara finnsku leiðina kvöldið eftir (þeirra eigin orð), þau væru búin að byrgja sig upp af víni og vildu endilega að ég kæmi í drykkjusamsætið til þeirra og kíkti svo með þeim í bæinn. Það var og. Get ekki sagt, óljúgandi, að ég hefði verið sérlega spennt fyrir þessu tilboði en vissulega langaði mig að hitta pennavinkonu mína aftur enda skemmtileg stelpa og við búnar að skrifast á í rúma tvo áratugi, auk þess sem ég hef tvisvar sótt hana og manninn hennar heim. Ekkert út á félagsskapinn að setja, það var þetta með drykkjuna og djammið sem dróg úr mér.
Á laugardagskvöldinu er ég rembdist við að hrista af mér heimaværðinni og gíra mig upp í djammgírinn hringdi besta vinkona mín í mig. Við vinkonurnar fórum létt með að kjafta okkur í gegnum rúma 3 klukkutíma og er símtalinu lauk sá ég að pennavinkona mín var búin að senda mér skilaboð allann tímann um hvar þau væru, hvort ég væri ekki að koma og svo að síðustu; að þau væru farin uppá hótel að sofa, flug í fyrra fallinu daginn eftir. Þannig fór það.
Á sunndeginum umpottaði ég blóm í fyrsta skipti á ævinni, Flamingóinn minn var orðinn svo lúpulegur og búin að fella öll rauðu blómin svo ég tók sjénsinn, þvert á kunnáttu og getuleysi í þessum efnum. Hann sperrir sig enn og gerir vonandi áfram. Sólin sperrti sig líka í gær og lokkaði mig út í göngutúr.
Að auki tók ég mér 5 klukkutíma í matseld. Legg ekki meira á ykkur að sinni.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli