sunnudagur, 1. mars 2020

Helgarþrenna

Þegar þrjár miðaldra vinkonur koma saman til að belgja sig út af humri, kampavíni og hvítvíni þá er næsta víst að þá verði gaman. Sú varð líka raunin s.l. föstudagskvöld er tvær góðar vinkonur mínar sóttu mig heim. Hér í borðkróknum í nýju íbúðinni minni var mikið spjallað, töluvert etið og þó nokkuð drukkið. Stóðum úti í snjónum á veröndinni minni og skipulögðum hvítvínsstundir á komandi sumri. Hver hljómplatan af annarri snerist á fóninum, dönsuðum og sungum á stofuparketinu. Hlógum dátt og innilega. Þegar vinkonur þínar koma með ítalskt gúrmei lóðbeint frá Ítalíu (og nei, þá er ég ekki að tala um einhvern vírus heldur krydd og olíu og pestó og svoleiðis), krem, kertastjaka og gegnsæjar blúndunærbuxur í innflutningsgjöf þá veistu að þú átt góðar vinkonur.

Get ekki neitað því að hafa vaknað örlítið rykug í gær en reif mig engu að síður á lappir og mætti galvösk í "babyshower" hjá henni Janis minni. Þar fyrir hitti ég hana Viktoríu mína en þeim tveim kynntist ég í Melabúðinni, sumsé, samstarfskonur og vinkonur. Ég reyndist vera Íslendingurinn í hópnum, fyrir utan kannski bumbubúann sem á filipeyska móður og pólskann föður, Viktoría er svo frá Búlgaríu og restin af barnasturtusamsætinu reyndist portúgalskur. Frábært kombó að kona tali ekki um veisluhlaðborðið sem verðandi móðir var búin að reiða fram, harrí á himnum, hvílík sæla. Aftur sumsé belgdi ég mig út af mat, hló og spjallaði og gladdist innilega fyrir það tækifæri að fá að vera með, og kynnast, frábærum konum. Það er ekki lítið.

Í gærkveldi var ég enn pakksödd en vann engu að síður í afgöngum kvöldsins áður; kaldur humarinn fór í kettina, kalt Moëtið fór í mig


Nonna's garden

Vaknaði hress í morgun, las, drakk könnu af kaffi, klappaði kisunum mínum og fékk mér ristað brauð. S.l. klukkutíma, eða svo, er ég búin að hlaupa um íbúðina með prik í hendi, sveifla því frá hægri til vinstri, kippa því upp og aftur niður. Systkinin samrýndu eru búin að hlaupa með mér um alla íbúðina, sveigja trýnin frá hægri til vinstri, hoppa upp og niður. Hámarki leiks var náð er Bjössi stökk upp og greip svo fast um músina, sem hékk í spotta föstum við prikið sem ég hélt um, að spottinn losnaði frá prikinu. Bjössi virtist hæst ánægður, tók músina í kjaftinn og hljóp í burtu með hana. Við Birta stóðum eftir og hugsuðum kannski það sama; bölvaður bjáninn, veit hann ekki að þetta er ekki alvöru mús?

Er enn í náttfötunum og býst hreint ekki við að fara úr þeim í dag, nema kannski rétt á meðan ég bregð mér undir sturtuna. Legg ekki meira á ykkur, elsku vinir.

Engin ummæli: