sunnudagur, 7. maí 2023

Milli þess sem sólin brýst út

dembast úrhellis skúrir af Parísar skýjum ofan. Í gærkvöld lét ég svalahurðina standa opna er ég fór að sofa, lét rigningardembuna bía mér í svefn. Í morgun fór ég í þunna regnjakkann utan yfir stuttermabolinn er ég arkaði í bakaríið. Kom ekki einungis regnvot til baka heldur löðursveitt að auki, hitamollan eins og hnausþykk lopapeysa þarna úti í dembunni.

Daney systurdóttir mín er í heimsókn hjá mér en svo skemmtilega vill til að okkar fyrsta ferð til Parísar var einmitt í félagsskap hvor annarar og reyndar systur minnar líka, mágs míns og systur Daneyjar, Daney og enda 11 ára þá. Vorum einmitt að rifja upp hitaskúrinn sem við upplifðum í ferðinni góðu, hvorug okkar hefur gleymt því þegar hellidemba steyptist yfir okkur snemma kvölds en merkilegt nokk, rigningin var bæði frískandi og hlý, engin þörf á regnjakka og kjólarnir fljótir að þorna.

Síðan hafa liðið þó nokkur ár og nú ferðast Daney með Evrustjörnulestinni til að heimsækja aldraða móðursystur sína í París, sjálf búsett í Lundúnum. Svona breytist sumt og annað ekki.