Í gær fór ég fyrr úr vinnunni til að fara í blóðprufu á Landspítalanum og sækja krabbameinslyfin mín. Hitti indælis stöðumælaverði þar sem ég stóð og reyndi að skrá bílinn minn í stæði við spítalann, þeir bentu mér á hvar ég gæti lagt án þess að borga í stöðumæli. Fín ábending fyrir konu sem á enn eftir nokkrar ófarnar ferðir á sama stað.
Fór í góðann, langann göngutúr í dag. Einhvers staðar á leiðinni fann ég að ég var hætt að finna fyrir 3 tám á vinstri fæti. Jú, það var kalt í dag. Mér var engu að síður hlýtt á rösklegri göngunni, þ.e.a.s. fyrir utan nef og kinnar. Já og áður umræddar tær á vinstri fæti. Heimkomin gaf ég kisunum af fisknum sem ég sauð kvöldinu áður, þau kröfðust þess bæði, í alvöru talað. Ákvað að fara út með ruslið áður en ég færi úr skónum og Birta ákvað að fylgja mér, Bjössi matmaður hélt sig við fiskinn. Þar sem við Birta komum gangandi til baka sáum við mann munda myndavél og enn stærri linsu að ungri konu upp við húsvegginn á blokkinni, við fætur konunnar stillti sér upp enginn annar en svarti og hvíti kötturinn hann Bjössi. Við Birta sprungum úr hlátri. Ég reyndi að kalla á Bjössa en hann hélt sinni módel pósu og lét sem hann sæi mig ekki. Ljósmyndarinn sneri sér að mér og kallaði; þessi köttur er æði!
Búin að fá mér Negroni og sit núna og hlusta á plötu með David Bowie sem ég keypti eitt sinn í Safnarabúðinni forðum daga. Er enn með hroll eftir göngutúrinn áðan. Krabbameinslæknirinn sagði mér að einn af fylgifiskum lyfjameðferðar væri að finna til kuldar, innvortis hrolli og kuldadofnum fingrum og tám. Með mínar þröngu háræðar hef ég aldeilis fengið að finna fyrir dofnum fingrum og tám allt mitt líf, ef þetta verða einu aukaverkanirnar þá er ég sátt.
Bjössi hins vegar lætur ekki sjá sig, hann er kannski kominn langleiðina á sýningarpallana í Mílano með sín fyrirsætugen. Kannski kona sjái hann bara næst á forsíðu Parísar Vogue. Ja, ég legg bara ekki meira á ykkur að sinni.