laugardagur, 8. október 2016

Í gær, kl.16:58,

fékk ég sms frá betri helmingnum svo hljóðandi;

Keypti "óvart" mikið af kantarellu sveppum. Kannski finna uppskrift fyrir morgundaginn?

Að sjálfsögðu brást ég vel við og hóf strax að gúggla uppskriftir enda ekki á hverjum degi sem eiginmaðurinn kemur heim að utan með kantarellusveppi. Sem betur fer var ég nokkuð iðin við kolann og fann þó nokkrar girnilegar uppskriftir til að moða úr, sá myndarlegi er komin frá Stokkhólmi með 1,5 kg af kantarellum! Er rétt í þessu að sýna af mér aðdáunarverða þolinmæði við rísottógerð, læt sem vind um eyru þjóta allar athugasemdir þess myndarlega um að klukkan sé þetta og hitt hjá honum (á sænska vísu). Held risottóreglu Margrétar systur að sjálfsögðu í heiðri - bara eitt glas af hvítvíni í pottinn, restin í kokkinn. Með Double Fantasy á fóninum má karlinn alveg kvarta yfir svengd fyrir mér.

þriðjudagur, 4. október 2016

Sá myndarlegi fór í ræktina eftir vinnu.

Það þýddi að eldamennskan var á minni könnu. Allt gott og blessað með það. Fátt betra en góð hlutverkaskipting hjóna á milli, eða hvað?

Nema hvað, eldri sonur eiginmannsins hefur ákveðið að vera grænmetisæta. Allt gott og blessað með það. Sjálf reyni ég að elda grænmetisrétti reglulega og þykir verulega gott að borða grænmetisrétti. Svo ég fór að gúggla. Grænmetisrétti að sjálfsögðu. Endaði slefandi í vinnunni á síðunni hjá henni Kate sem á þennan líka sjúklega sæta hund sem virðist líka vera grænmetisæta. Ojæja, allt gott og blessað með það. Fletti í gegnum uppskrift eftir upskrift af svo girnilegum mat að ég átti í mestu vandræðum með að velja eina úr. Fyrir valinu varð þó að lokum þessi, líklega vegna þess að ég elska blómkál. Og túrmerik. Og karrí. Og engifer. Og spínat. Og og og.......

Hvort sem þú ert grænmetisæta, veganæta, kjötæta, brauðæta, snakkæta eða bara almenn alæta þá mæli ég með því að þú kíkir á hana Kate. Aðallega samt af því að Cookie er svo sæt.