föstudagur, 26. ágúst 2016

Fengum loksins...

sjúkdómsgreiningu á posavandanum á kassa eitt í dag og að sjálfsögðu vippuðum við Frikki Melabróðir okkur strax í aðgerð "skipta um snúru". Dugði ekkert minna en okkur tvö til verksins. Vorum þarna saman að gaufast og gera þegar ung kona vindur sér að mér og segir; fyrirgefðu, ég veit að þú ert ekkert að vinna hérna en værir þú til í að rétta mér 85% súkkulaðið þarna fyrir aftan þig svo ég geti farið með það á hinn kassann. Í fyrsta skipti á minni stuttu ævi var ég sumsé tekin fyrir forritara. Ég skelli skuldinni alfarið á snúruna.

Eftir þetta vorum við Frikki orðin svo náin að þegar ég síðar um daginn hljóp upp um hálsinn á sölumanninum okkar frá Freyju og rak honum rembingskoss hljóp Frikki til og gerði slíkt hið sama. Munurinn er þó sá að ég hafði fengið fullann poka af lakkrís að gjöf, Frikki fékk ekki neitt.



Eftir vinnu tók ég strikið beint á Café Haiti þar sem ég hitti fyrir hana Eldu sem veit upp á hár hvað gleður okkur Pétur. Gekk síðan rösklega í átt að Hörpu og áfram meðfram sjónum, yfir ljósin til móts við Höfða og heim. Með ylvolgar baunir í bakpokanum.

fimmtudagur, 25. ágúst 2016

Kom heim með fangið fullt...

af útrúnnu Melabúðargóssi. Karlinn stóð með uppbrettar skyrtuermar við vaskinn, á kafi í uppvaski og hugleiðingum um mat. Sjálf dembdi ég mér í regngalla og dró fákinn út úr skúrnum. Steig pedalana til móts við Höfða, renndi mér meðfram sjónum að Hörpu, hjólaði Lækjargötuna, þeystist upp gömlu Hringbrautina, geystist gegnum Norðurmýrina með ánægjuglott í munnvikum alla leiðina heim. Heima beið mín fullt hús af matarlykt og skemmtilegu fólki.
Síðan ég dró fákinn síðast út úr skúrnum hef ég;

  1. legið á lapþunnri dýnu í hrikalega skemmtilegu hverfi í Berlín sem hugsanlega hefur orsakað stífleika í frúnni (dýnan sumsé, ekki Prenzlauer Berg)
  2. farið í saumavélabúð í útlöndum og hlustað á betri helminginn tala um saumavélastöff á þýzku
  3. heimsótt fangelsi og fangabúðir
  4. farið með pabba minn að borða afríkanskan mat, tyrkneskan mat, asískan og ítalskan
  5. farið á ættarmót og hitt hvorki fleirri né færri en tvær Kötlur
  6. farið í klippingu með mömmu minni, geri aðrir betur
  7. farið á skrall með systurdætrum mínum og farið á barinn á stöðum sem ég vissi ekki að væru til
  8. lesið svakalega bók um konu í Berlín í vegaferð í Pólandi
  9. látið mig dreyma
Tók mig allt of mörg ár að komast að því að mér finnst gaman að hjóla. Gleypti ekki eina einustu flugu í þessari hjólaferð heldur, sem betur fer, en varð kalt á eyrunum. Naut þess samt að stíga pedalana í rigningarúða. Fiktaði meira að segja í gírunum fyrir kallinn. Held það nú.

þriðjudagur, 23. ágúst 2016

Skakklappaðist...

fram úr í morgun, skökk og skæld, pinnstíf í hálsi og herðablöðum með verk niður í bak og vinstri handlegg. Eftir aðeins 1 vinnudag eftir langt og gott frí á ég bágt með að skella skuldinni þar, hef því ákveðið að sökin liggi hjá lapþunnri dýnunni sem við lágum á í Berlín í rúmar 2 vikur. Það og að hugsanlega hafi ég sofið skökk í sumarbústaðarfleti í Skagafirði eða skæld í svefnsófanum í sjónvarpsherberginu. 

Ákvað að skella mér í sund eftir vinnu (að sjálfsögðu búin að væla út þó nokkra vorkunn frá þeim myndarlega og loforð um nudd um kvöldið) í þeirri góðu trú að létt ganga í Laugardalslaugina og góður sundsprettur myndi bara liðka mig til. Gafst upp á verknum frá hálsinum niður í bak eftir 2 ferðir fram og til baka.  Eyddi góðum tíma í næst heitari pottinum áður en ég rölti aftur heim í brakandi rjómasólarblíðunni á skyrtunni. Sit núna við eldhúsborðið og sötra hvítvín sem hugsanlega hefur liðkað eitthvað, reyndar enn með verki en svei mér þá, ekki alveg jafn pinnstíf og í morgun.

Talandi um sund og áfengi þá rifjast upp fyrir mér starfsmannaferð sem ég fór í fyrir einhverju síðan (lesist hugsanlega í áratugum), var búin að hanga heima með brotið bringubein eftir bílslys, skökk og skæld með verki um allan skrokk. Vinnufélagarnir linntu ekki látum fyrr en ég sló til að halda með þeim í félagsheimili útá landi yfir heila helgi. Nema hvað, kverkarnar voru í ágætu standi og tóku við ágætis magni af áfengum vökva sem aftur lagðist svo endemis vel í mig að ég stóð sjálfa mig að því að vera orðin verkjalaus að mestu, nema kannski þarna fyrir bringubeinið. Lék á alls oddi og ákvað að skella mér í sundlaugina með starfsfélögunum, synti eins og hvalur og ærslaðist fram á nótt enda mikil gleði í mannskapnum. Svaka gaman. Alveg þar til ég vaknaði daginn eftir. Þynnkan var ekki svo afleit, það voru verkirnir í kroppnum sem áminntu mig rækilega á að þessi sundhugmynd hefði verið slæm hugmynd. 

Nú þegar konan er orðin svona sigld fer hún að sjálfsögðu fyrst í sund áður en hún leggst í hvítvínið. Núna finnst henni góð hugmynd að fá þann myndarlega til að efna gefið loforð um gott (vont) nudd. Legg ekki meira á ykkur að sinni.

sunnudagur, 21. ágúst 2016

Þakklæti er góð tilfinning

Skrúfaði Rondó uppí hæstu hæðir og skellti mér því næst í gulu uppþvottahanskana. Já hlustendur góðir, konan hlustar á Rondó. Oft. Dillandi mér í takt við dunandi jass dembdi ég mér í uppvaskið frá matarboði fimmtudagsins. Vaskaði og þurrkaði á víxl. Kampavínsglös með gamaldags mynstri (hér fær ýmyndunarafl lesenda að leika lausum hala). Matardiskar með bleikum rósum. Vínglös með gylltri rönd. Vatnsglös á gylltum fæti. Konjaksglös ósköp plein. Rautt staup, blátt staup, gult staup…já, það var sumsé eitthvað drukkið. Hentist niður í kjallara með dynjandi kvikmyndatónlist með dramatík í yfirsnúningi með tómar vínflöskur. Henti í þvottavél fyrst ég var komin niður. Svona getur kona látið þegar hún er ein í kotinu. 

Undir undurfögrum klassískum tónum hugsaði ég um það hvað ein kona hefur það gott, þakklát fyrir dót og drasl sem þarf að vaska upp þrátt fyrir að eiga uppþvottavél. Þakklát fyrir hina þvottavélina í kjallaranum (að kona tali ekki um þurrkarann líka). Þakklát fyrir góða norska vini sem nenna að leggja sig við það að skilja blandskandinavískuna mína með enska ívafinu yfir mat og drykk. Þakklát fyrir salatið sem vex í garðinum mínum eins og arfi. Þakklát fyrir fasta vinnu sem gerir mér kleift að gera heljarinnar allskonar. Þakklát fyrir að deila öllu þessu og sitthverju fleiru með eiginmanni sem rétt í þessu er að hafa til kvöldmatinn milli þess sem hann þrífur ísskápinn.


Á morgun mæti ég aftur til vinnu. Sumpart er það kvíðvænlegt að mæta aftur eftir langt og gott frí, dásamlega gott frí. Ætla samt ekkert að hugsa meira um það, ekki fyrr en á morgun. Núna ætla ég að borða upphitaða afganga frá fimmtudagsveislu og njóta þess sem eftir er af fríinu. Legg ekki meira á ykkur.