þriðjudagur, 23. ágúst 2016

Skakklappaðist...

fram úr í morgun, skökk og skæld, pinnstíf í hálsi og herðablöðum með verk niður í bak og vinstri handlegg. Eftir aðeins 1 vinnudag eftir langt og gott frí á ég bágt með að skella skuldinni þar, hef því ákveðið að sökin liggi hjá lapþunnri dýnunni sem við lágum á í Berlín í rúmar 2 vikur. Það og að hugsanlega hafi ég sofið skökk í sumarbústaðarfleti í Skagafirði eða skæld í svefnsófanum í sjónvarpsherberginu. 

Ákvað að skella mér í sund eftir vinnu (að sjálfsögðu búin að væla út þó nokkra vorkunn frá þeim myndarlega og loforð um nudd um kvöldið) í þeirri góðu trú að létt ganga í Laugardalslaugina og góður sundsprettur myndi bara liðka mig til. Gafst upp á verknum frá hálsinum niður í bak eftir 2 ferðir fram og til baka.  Eyddi góðum tíma í næst heitari pottinum áður en ég rölti aftur heim í brakandi rjómasólarblíðunni á skyrtunni. Sit núna við eldhúsborðið og sötra hvítvín sem hugsanlega hefur liðkað eitthvað, reyndar enn með verki en svei mér þá, ekki alveg jafn pinnstíf og í morgun.

Talandi um sund og áfengi þá rifjast upp fyrir mér starfsmannaferð sem ég fór í fyrir einhverju síðan (lesist hugsanlega í áratugum), var búin að hanga heima með brotið bringubein eftir bílslys, skökk og skæld með verki um allan skrokk. Vinnufélagarnir linntu ekki látum fyrr en ég sló til að halda með þeim í félagsheimili útá landi yfir heila helgi. Nema hvað, kverkarnar voru í ágætu standi og tóku við ágætis magni af áfengum vökva sem aftur lagðist svo endemis vel í mig að ég stóð sjálfa mig að því að vera orðin verkjalaus að mestu, nema kannski þarna fyrir bringubeinið. Lék á alls oddi og ákvað að skella mér í sundlaugina með starfsfélögunum, synti eins og hvalur og ærslaðist fram á nótt enda mikil gleði í mannskapnum. Svaka gaman. Alveg þar til ég vaknaði daginn eftir. Þynnkan var ekki svo afleit, það voru verkirnir í kroppnum sem áminntu mig rækilega á að þessi sundhugmynd hefði verið slæm hugmynd. 

Nú þegar konan er orðin svona sigld fer hún að sjálfsögðu fyrst í sund áður en hún leggst í hvítvínið. Núna finnst henni góð hugmynd að fá þann myndarlega til að efna gefið loforð um gott (vont) nudd. Legg ekki meira á ykkur að sinni.

Engin ummæli: