mánudagur, 29. júní 2020

Frískil

Í morgun sagði vekjaraklukkan mín skilið við tveggja vikna sumarfrí sem einkenndist af leti. Fyrsta sumarfrí eftir skilnað og ekki hægt að fara til útlanda. Tók mig nokkra stund að átta mig á að ég mátti gera hvað svo sem ég vildi í mínu eigin fríi, þ.m.t. ekki neitt. Eyddi því miklum og góðum tíma á veröndinni minni, sem að stórum hluta seldi mér þessa úthverfaíbúð í fyrra, og stóð sannarlega fyrir sínu. Hristi í glás af kokteilum, las töluvert af bókum, hlustaði á mökk af tónlist, knúsaði Birtu og Bjössa við hvert tækifæri, eldaði góðan mat, snuddaði við hversdagsleg heimilisstörf, fór í frábæra Glymgöngu með sjálfri mér, keypti pottablóm á veröndina, kaus Guðna til forseta, keypti óvart rauðvín í stað hvítvíns, fór í góðan göngutúr um hverfið mitt, fékk vinkonu í næturgistingu og fór með henni út að borða, skipti mér af vinnunni, fór í matarboð, hjólaði niður í bæ, drattaðist loks í Grafarvogslaugina í þar, þar næstu götu við mig, nostraði við intróvertinn í sjálfri mér og hugsaði heilan haug. Eyddi síðustu frídögunum umvafin fjölskyldu.

Að auki raðaði ég plötusafninu mínu í stafrófsröð. Þrettán ár síðan ég afrekaði það. Nú legg ég aldeilis ekki meira á ykkur.

sunnudagur, 28. júní 2020

Svefnpokahjal

Fínasta fjölskylduútilega að Hlöðum í Hvalfirði að baki, prýðilegasta mæting og veður með besta móti; smávegis rok og síðan meira rok en sluppum að mestu við rigningu.

Svo einkennilega vill til að hin árlega fjölskylduútilega er jafngömul sambandi okkar Péturs, þ.e.a.s. þar til núna. Ég hafði oft á orði við Pétur að í flestum tilvikum stæði fjölskyldan við bakið á manni, ekki síst vegna blóðtengsla og sögu sem slíku fylgir. Það sama á hins vegar ekki við um maka; maka þarf að styðja, vökva og hlúa að ef þú vilt að makinn dvelji. 

Flest fórum við í sundlaugina á staðnum, sum oftar en einu sinni, örfá okkar gengu á Þyril, sumar prjónuðu, krakkarnir léku sér og ærsluðust líka. Öll átum við grillmat og flestir grillaða sykurpúða á eftir. Spjall og spaug, grín og glens, hlátur og alvara, samheldni og virðing, ást og þakklæti.

Að auki get ég sagt ykkur að það var fínt að sofa ein í svefnpoka.

sunnudagur, 21. júní 2020

Ósjálfráð kaup eða fljótfærni?

Stökk fram úr rúminu í gær (rólegann mysing krakkar, auðvitað var ég búin að fá mér kaffi og lesa áður) og setti 3 egg í pott, 2 linsoðin í morgunmat og 1 harðsoðið á majónessinnepssmurða samloku ásamt salati og agúrku. Það var kominn tími til að rífa sig upp af rassgatinu í þessu fríi. 

Kom við í vínbúðinni í Mosfellssveit á leið minni út úr bænum, hugsaði með mér að það yrði dágott að eiga hvítvín með laxinum um kvöldið. Fyrsta skipti sem ég kem inní ríkið í Mosfellsbæ, prýðilegt úrval, fann öll uppáhalds hvítvínin mín en þar sem augun reikuðu um hvítvínsrekkann námu þau staðar við 
Ég hef oft valið mér vín útaf fallegum miða svo ég lét bara vaða, greip flöskuna, vatt mér að kassanum og greiddi með bros á vör.

Flaskan lúrði í aftursætinu á bílnum meðan frúin arkaði Glymhringinn, síðast þegar ég fór var ekki þverfótað fyrir túrhestum og meira að segja löng röð við drumbinn yfir ána. Vissulega var fólk á göngu en í þetta skipti gekk ég leiðina að mestu ein. Var reyndar svo ljónheppin að labba fram á hjón þarna uppi við Botnsá sem buðu mér að vera samferða yfir. Einhversstaðar fyrir miðri á grínaðist maðurinn með hvort það fengist einhver veiði í áni, ég var fljót að benda honum á að hann hefði þegar veitt vel, vaðandi yfir ánna með flottar dömur á báða arma.

Heimkomin henti ég flöskunni inní ísskáp áður en ég byrjaði að tína af mér gönguspjarirnar, setti klakavélina í gang himinlifandi með að hafa rifið sjálfa mig upp af rassgatinu. Hughrifin af fegurð dagsins steikti ég laxbita á pönnu, útbjó salat með gönguþreytu í sælum kroppi. Um það bil að fara að borða dembdi ég nokkrum klökum í hvítvínsglas, reif flöskuna úr ísskápnum, opnaði og hellti. Snarstoppaði er ég áttaði mig á því að vökvinn sem rann í glasið var rauður en ekki hvítur.

Ef ég hefði lesið á miðann, en ekki bara látið glepjast af útliti hans, hefði ég kannski séð Pinot Noir sem stóð þar neðst. Kannski. Legg ekki meira á ykkur.

fimmtudagur, 18. júní 2020

Hjólað í frí

Hjólaði úr Veghúsum á Reykjavíkurflugvöll í dag með vindinn í fanginu allann tímann. Hressandi, vægast sagt. Samt betri kostur en að vakna fyrir allar aldir til að skutla næturgestinum í flug, kona er jú í sumarfríi og veit fátt betra en að sofa út. Gesturinn fékk því bara bíllyklana afhenta fyrir háttinn í gær.

Það sem af er sumarfríi er ég ekki búin að gera rassgat. Ég get vel viðurkennt að mér finnst eins og ég eigi að vera að gera eitthvað voða sumarfríslegt eitthvað en ég er jafn fljót að minna sjálfa mig á að ég má hafa mitt frí eins og mér einni langar til að hafa það. Og hana nú. Að frátöldum þrifum gærdagsins er ég því búin að hamast við að sofa út, dunda mér við lestur og dóla mér við matseld. 

Það er gott að gera ekki neitt í sumarfríi, mæli með því.

miðvikudagur, 17. júní 2020

Hæ hó, jó jó jó!

Hvað getur verið þjóðlegra en að ryksuga og skúra á sjálfan 17.júní? Jú, kannski að klæðast peysufötum langömmu á meðan en, æ, ég nenni bara ekki að flétta á mér hárið. Allar almennilegar húsmæður væru kannski búnar að þrífa heimilið fyrir Þjóðhátíðardaginn en, æ, ég nenni heldur ekki að vera almennileg húsmóðir. 

Síðdegis síðasta sunnudag tók ég strætó til að sækja tíkina mína. Fór út við Smáralind og gekk hægum skrefum gegnum undirgöngin sem ég hljóp of oft í veikri von um að ná strætó eftir lokun í Zöru forðum daga. Missti oft af strætó sem gekk á klukkutímafresti en það er önnur saga. Ég var á leiðinni í Sunnusmára en nýtti að sjálfsögðu ferðina og kaus utankjörstaðar í Smáralind. Sníkti kaffibolla hjá systur minni og mági, sem sýndi snilldar tilþrif í kokteilhristingu kvöldinu á undan, og var svo ljónheppin að enda í upphituðum afgöngum frá matarboðinu kvöldinu áður.

Í gær brunaði ég niður í Hafnarstræti 15 til að sækja mynd sem ég hafði pantað hjá Lóuboratoríum. Fékk stæði á príma stað og lagði með Leggja-appinu. Gekk upp tröppur á þriðju hæð til að sækja eina mynd. Gekk niður sömu tröppur með tvær myndir undir handleggnum. Var búin að dást að nýju myndunum mínum í þó nokkra stund hérna heima þegar ég mundi eftir því að afleggja bílnum í Leggja-appinu. 

Ég treysti vissulega á hina hefðbundnu 17.júnírigningu til að koma mér í gegnum þrif dagsins en auðvitað lætur hún ekki sjá sig þegar fjöldatakmarkanir á samkomum er í gildi, ég meina, 500 manns á Arnarhóli? Tekur því ekki að skella skúr á slíkt. Þess vegna sit ég útá verönd rétt í þessu og hnoða saman pistil enda búin að ryksuga, aldrei að vita nema ég skúri líka.

Eitt get ég þó sagt ykkur öllum í trúnaði, að þrífa klósett í sambúð með karlmanni er verknaður sem ég sakna EKKI. Legg ekki meira á ykkur á sjálfan Þjóðhátíðardaginn.

miðvikudagur, 10. júní 2020

Suma daga,

er ég kem heim úr vinnu, byrja ég á að kveikja á klakavélinni. Flesta aðra daga ríf ég mig úr brjóstahaldaranum og losa mig við skartið áður en ég leiði hugann að þeirri sömu vél. Í dag, er ég kom heim úr vinnu, reif ég mig úr öllu (brjóstahaldara og skarti þar með talið) og steypti yfir mig Marokkókjólnum góða sem ég klæddist alla dagana í Sahara eyðimörkinni þarna um árið. Var búin með hálft glas af frönsku hvítvíni og nokkuð margar blaðsíður af norskri skáldsögu er ég mundi eftir vélinni. Hentist að sjálfsögðu inní eldhús og stakk svartri snúrunni í samband, ýtti því næst á Power takkann. Meðan ég kláraði glasið af franska víninu og drakk í mig fleirri blaðsíður af norsku skáldsögunni heyrði ég klakana hrynja niður í vélina, alla leið útá verönd.

Sem betur fer. Ég beið nefninlega ekki eftir því að yfirmaður minn skipaði mér heim í kokteil á veröndinni í þetta sólskinssinnið heldur stökk ég sjálf uppúr vinnustólnum og kvaddi með þeim orðum að Cosmoinn biði mín. 

Svo Cosmo varð það að vera 

Nei nei, það þarf engann klaka í glasið sjálft , hann fer allur í kokteilhristarann ásamt vodka (sítrusvodka segir uppskriftin en ég nota að sjálfsögðu einungis Kötluvodka), Cointreau, trönuberjasafa og limesafa. Kokteilglasið þarf reyndar að vera kælt. 

Fyrir nánari sýnikennslu og smakk er ykkur velkomið að hafa samband við undirritaða í tölvupósti, síma eða kommentakerfi hér að neðan. Öllum fyrirspurnum verður svarað 

miðvikudagur, 3. júní 2020

Svampkenndir órar

Var komin heim rétt um miðjan dag eftir helgardvölina góðu með mömmu og systrum mínum. Veður var með ágætasta móti svo ég afréð að láta loks verða af því að hreinsa beðin í agnarsmáu garðspildunni sem ég hef hér til umráða í Veghúsum (takið eftir fleirtölu orðinu beðin krakkar, ekki beðið). Í ríflega áratuga sambúð var það alfarið á höndum þess fyrrverandi að sjá um almenna garðhirðu enda lítið farið fyrir garðáhuga frúarinnar. Nema, ég vissi að ég ætti að vera löngu búin að þessu svo ég smellti á mig blómaskreyttum garðhönskum, sem brökuðu af nýjabrumi, setti undir mig hausinn og dembdi mér í beðiIN undir vökulu auga Bjössa sem stökk til og frá, eltist við dauðar greinar sem ég fleygði í grasið, rótaði í gömlum laufum og gerði nokkrar atlögur að blómaskreyttum garðhanskaklæddum höndum frúarinnar. Gott að annað okkar skemmti sér.

Eftir vinnu í dag kom ég við í Húsasmiðjunni til að kaupa mér gluggasköfu. Endaði í Blómavalshluta hússins þar sem gluggahreinsunarsköfurnar leynast og spjallaði við páfagaukinn góða stund, fyrst ég var á annað borð komin alla þá leið. Honum lá ýmislegt á hjarta og milli þess sem hann skrækti og flautaði og blimskakkaði á mig einu hliðarauga í einu vældi hann eins og köttur, ég get svo svarið það. Nema, ég hefði getað verið löngu búin að hreinsa gluggana hjá mér en veðrið var með besta móti svo ég lét sjóðandi vatn renna í bland við Stonewall Kitchen uppþvottalög í rauðu skúringafötuna mína, greip lítinn svamp sem mamma skildi eftir hérna í Veghúsum og smellti á mig gúmmíhanskana. Birta fylgdist áhugasöm með þrifgjörningi frúarinnar, úr hæfilegri fjarlægð. Þegar gluggarnir voru orðnir sápuþvegnir og sköfustroknir lá beinast við að hreinsa gluggakarmana líka ásamt kattalúgunni. 

EF ég aðeins hefði gert hvorutveggja áður, þegar ég vissi að ég ætti að gera þessa hluti, þá hefði ég getað hlíft aumum úlnlið. Get fullvissað ykkur, kæru vinir, að það er ekki hlaupið að því að hreinsa beð með aumann úlnlið og enn síður að beita gluggahreinsunarsköfu með þeim sama úlnlið. Verð þó að játa að úlnliðurinn hefur það betur en svampurinn, hann liggur í ruslatunnunni, gjörsamlega búinn.

Legg ekki meira á ykkur að sinni.

mánudagur, 1. júní 2020

Af afmælishelgi og úlnlið

Fyrir sléttri viku lá ég flöt á gangstéttinni fyrir framan vinnustaðinn minn. Datt nógu kyrfilega til að krambúlera vel á mér vinstri handlegg og fótlegg. Hvað hægri hliðina snertir slapp ég nánast ósködduð fyrir utan úlnliðinn á mér sem var tiltölulega fljótur að blása út. Ekki að ég léti það neitt á mig fá, setti bara undir mig hausinn og æddi af stað í vinnudaginn, þáði bólgueyðandi töflur hjá prívat apótekaranum mínum og lét sem ekkert væri. Það var ekki fyrr en að vinnudegi loknum að rödd skynseminnar hóf rökræður við þrákelkni stelputuðrunnar sem lét sér að endingu segjast og brunaði niður á Bráðamóttöku með bók í veskinu. 

Eyddi langri helginni í Kolbeinsstaðarhreppi með systrum mínum og móður okkar sem fagnaði enn einu ári. Ein af þremur systrum mínum hafði beðið mig um að hrista í kokteila á komandi afmælishelgi, ég sá glöð um hráefnin í kokteila en umrædd systir neyddist til að sjá um hristinginn. Ekki að við gerðum neitt annað en að drekka kokteila alla helgina, seiseinei, átum glás af ostum og berjum og rjómatertu, þær prjónuðu einhver ósköp og ég fór í göngutúr, eitthvað töluðum við víst líka og hlógum eins og híenur að hinu og þessu, horfðum á Flashdance og létum okkur dreyma um legghlífar og svitabönd, það held ég nú.

Mér sumsé tókst ekki að brjóta á mér hendina, sem betur fer. Þetta er eins og brot en er bara ekki brot sagði læknirinn við mig. Gott og vel. Engu að síður eru ofur hversdagslegir hlutir eins og að ræsa bifreiðina, opna útidyrahurðina, skrifa innkaupalista, skeina sér, hrista kokteila, klæða sig í sokka, hamra á lyklaborð og svo mætti lengi telja ekki jafn þægilegir og áður. Merkilegt hvað ein mannvera getur notað einn úlnlið.

Ég legg bara ekki meira á ykkur, elsku vinir, verandi rétthend.