sunnudagur, 21. júní 2020

Ósjálfráð kaup eða fljótfærni?

Stökk fram úr rúminu í gær (rólegann mysing krakkar, auðvitað var ég búin að fá mér kaffi og lesa áður) og setti 3 egg í pott, 2 linsoðin í morgunmat og 1 harðsoðið á majónessinnepssmurða samloku ásamt salati og agúrku. Það var kominn tími til að rífa sig upp af rassgatinu í þessu fríi. 

Kom við í vínbúðinni í Mosfellssveit á leið minni út úr bænum, hugsaði með mér að það yrði dágott að eiga hvítvín með laxinum um kvöldið. Fyrsta skipti sem ég kem inní ríkið í Mosfellsbæ, prýðilegt úrval, fann öll uppáhalds hvítvínin mín en þar sem augun reikuðu um hvítvínsrekkann námu þau staðar við 
Ég hef oft valið mér vín útaf fallegum miða svo ég lét bara vaða, greip flöskuna, vatt mér að kassanum og greiddi með bros á vör.

Flaskan lúrði í aftursætinu á bílnum meðan frúin arkaði Glymhringinn, síðast þegar ég fór var ekki þverfótað fyrir túrhestum og meira að segja löng röð við drumbinn yfir ána. Vissulega var fólk á göngu en í þetta skipti gekk ég leiðina að mestu ein. Var reyndar svo ljónheppin að labba fram á hjón þarna uppi við Botnsá sem buðu mér að vera samferða yfir. Einhversstaðar fyrir miðri á grínaðist maðurinn með hvort það fengist einhver veiði í áni, ég var fljót að benda honum á að hann hefði þegar veitt vel, vaðandi yfir ánna með flottar dömur á báða arma.

Heimkomin henti ég flöskunni inní ísskáp áður en ég byrjaði að tína af mér gönguspjarirnar, setti klakavélina í gang himinlifandi með að hafa rifið sjálfa mig upp af rassgatinu. Hughrifin af fegurð dagsins steikti ég laxbita á pönnu, útbjó salat með gönguþreytu í sælum kroppi. Um það bil að fara að borða dembdi ég nokkrum klökum í hvítvínsglas, reif flöskuna úr ísskápnum, opnaði og hellti. Snarstoppaði er ég áttaði mig á því að vökvinn sem rann í glasið var rauður en ekki hvítur.

Ef ég hefði lesið á miðann, en ekki bara látið glepjast af útliti hans, hefði ég kannski séð Pinot Noir sem stóð þar neðst. Kannski. Legg ekki meira á ykkur.

Engin ummæli: