Var komin heim rétt um miðjan dag eftir helgardvölina góðu með mömmu og systrum mínum. Veður var með ágætasta móti svo ég afréð að láta loks verða af því að hreinsa beðin í agnarsmáu garðspildunni sem ég hef hér til umráða í Veghúsum (takið eftir fleirtölu orðinu beðin krakkar, ekki beðið). Í ríflega áratuga sambúð var það alfarið á höndum þess fyrrverandi að sjá um almenna garðhirðu enda lítið farið fyrir garðáhuga frúarinnar. Nema, ég vissi að ég ætti að vera löngu búin að þessu svo ég smellti á mig blómaskreyttum garðhönskum, sem brökuðu af nýjabrumi, setti undir mig hausinn og dembdi mér í beðiIN undir vökulu auga Bjössa sem stökk til og frá, eltist við dauðar greinar sem ég fleygði í grasið, rótaði í gömlum laufum og gerði nokkrar atlögur að blómaskreyttum garðhanskaklæddum höndum frúarinnar. Gott að annað okkar skemmti sér.
Eftir vinnu í dag kom ég við í Húsasmiðjunni til að kaupa mér gluggasköfu. Endaði í Blómavalshluta hússins þar sem gluggahreinsunarsköfurnar leynast og spjallaði við páfagaukinn góða stund, fyrst ég var á annað borð komin alla þá leið. Honum lá ýmislegt á hjarta og milli þess sem hann skrækti og flautaði og blimskakkaði á mig einu hliðarauga í einu vældi hann eins og köttur, ég get svo svarið það. Nema, ég hefði getað verið löngu búin að hreinsa gluggana hjá mér en veðrið var með besta móti svo ég lét sjóðandi vatn renna í bland við Stonewall Kitchen uppþvottalög í rauðu skúringafötuna mína, greip lítinn svamp sem mamma skildi eftir hérna í Veghúsum og smellti á mig gúmmíhanskana. Birta fylgdist áhugasöm með þrifgjörningi frúarinnar, úr hæfilegri fjarlægð. Þegar gluggarnir voru orðnir sápuþvegnir og sköfustroknir lá beinast við að hreinsa gluggakarmana líka ásamt kattalúgunni.
EF ég aðeins hefði gert hvorutveggja áður, þegar ég vissi að ég ætti að gera þessa hluti, þá hefði ég getað hlíft aumum úlnlið. Get fullvissað ykkur, kæru vinir, að það er ekki hlaupið að því að hreinsa beð með aumann úlnlið og enn síður að beita gluggahreinsunarsköfu með þeim sama úlnlið. Verð þó að játa að úlnliðurinn hefur það betur en svampurinn, hann liggur í ruslatunnunni, gjörsamlega búinn.
Legg ekki meira á ykkur að sinni.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli