mánudagur, 29. júní 2020

Frískil

Í morgun sagði vekjaraklukkan mín skilið við tveggja vikna sumarfrí sem einkenndist af leti. Fyrsta sumarfrí eftir skilnað og ekki hægt að fara til útlanda. Tók mig nokkra stund að átta mig á að ég mátti gera hvað svo sem ég vildi í mínu eigin fríi, þ.m.t. ekki neitt. Eyddi því miklum og góðum tíma á veröndinni minni, sem að stórum hluta seldi mér þessa úthverfaíbúð í fyrra, og stóð sannarlega fyrir sínu. Hristi í glás af kokteilum, las töluvert af bókum, hlustaði á mökk af tónlist, knúsaði Birtu og Bjössa við hvert tækifæri, eldaði góðan mat, snuddaði við hversdagsleg heimilisstörf, fór í frábæra Glymgöngu með sjálfri mér, keypti pottablóm á veröndina, kaus Guðna til forseta, keypti óvart rauðvín í stað hvítvíns, fór í góðan göngutúr um hverfið mitt, fékk vinkonu í næturgistingu og fór með henni út að borða, skipti mér af vinnunni, fór í matarboð, hjólaði niður í bæ, drattaðist loks í Grafarvogslaugina í þar, þar næstu götu við mig, nostraði við intróvertinn í sjálfri mér og hugsaði heilan haug. Eyddi síðustu frídögunum umvafin fjölskyldu.

Að auki raðaði ég plötusafninu mínu í stafrófsröð. Þrettán ár síðan ég afrekaði það. Nú legg ég aldeilis ekki meira á ykkur.

Engin ummæli: