Fyrir sléttri viku lá ég flöt á gangstéttinni fyrir framan vinnustaðinn minn. Datt nógu kyrfilega til að krambúlera vel á mér vinstri handlegg og fótlegg. Hvað hægri hliðina snertir slapp ég nánast ósködduð fyrir utan úlnliðinn á mér sem var tiltölulega fljótur að blása út. Ekki að ég léti það neitt á mig fá, setti bara undir mig hausinn og æddi af stað í vinnudaginn, þáði bólgueyðandi töflur hjá prívat apótekaranum mínum og lét sem ekkert væri. Það var ekki fyrr en að vinnudegi loknum að rödd skynseminnar hóf rökræður við þrákelkni stelputuðrunnar sem lét sér að endingu segjast og brunaði niður á Bráðamóttöku með bók í veskinu.
Eyddi langri helginni í Kolbeinsstaðarhreppi með systrum mínum og móður okkar sem fagnaði enn einu ári. Ein af þremur systrum mínum hafði beðið mig um að hrista í kokteila á komandi afmælishelgi, ég sá glöð um hráefnin í kokteila en umrædd systir neyddist til að sjá um hristinginn. Ekki að við gerðum neitt annað en að drekka kokteila alla helgina, seiseinei, átum glás af ostum og berjum og rjómatertu, þær prjónuðu einhver ósköp og ég fór í göngutúr, eitthvað töluðum við víst líka og hlógum eins og híenur að hinu og þessu, horfðum á Flashdance og létum okkur dreyma um legghlífar og svitabönd, það held ég nú.
Mér sumsé tókst ekki að brjóta á mér hendina, sem betur fer. Þetta er eins og brot en er bara ekki brot sagði læknirinn við mig. Gott og vel. Engu að síður eru ofur hversdagslegir hlutir eins og að ræsa bifreiðina, opna útidyrahurðina, skrifa innkaupalista, skeina sér, hrista kokteila, klæða sig í sokka, hamra á lyklaborð og svo mætti lengi telja ekki jafn þægilegir og áður. Merkilegt hvað ein mannvera getur notað einn úlnlið.
Ég legg bara ekki meira á ykkur, elsku vinir, verandi rétthend.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli