sunnudagur, 26. janúar 2014

Barnaafmælistízkan í ár

Fórum í afmæli í gær. Alvöru afmæli með blöðrum, tertum, afmælissöng og kertablæstri


Barnaafmæli eru til margs fróðleg, t.d. komst ég að því að strigaskór með ljósum eru ofursvalir og legghlífar eru að koma aftur í tízku


Ekki amalegt það. Sjálf ætla ég að vera með þeim fyrstu til að kaupa strigaskó með ljósi þegar framleiðendur drattast til að skapa slíka ánægju í fullorðinsstærðum. Sé til með legghlífarnar.

fimmtudagur, 16. janúar 2014

Dæs

Ætlaði að vera dugleg að læra í kvöld en eftir þéttskipaðan vinnudag, pilatespúl, dásamlega máltíð og heita sturtu var ég svo löt að ég nennti ekki einu sinni að greiða á mér hárið eftir steypibaðið. Sit á sófanum í bleika sloppnum hennar mömmu með bífurnar upp á borði, læt mér líða vel. Nægur tími til að læra undir próf, ennþá. Svo sem búin að vera dugleg í kvöld; knúsa þann myndarlega, skipuleggja matseld fyrir matarboð, klappa kettinum, sötra soldið rauðvín, tala um að taka niður jólaskrautið, dæsa doldið af ánægju, fá þann myndarlega til að bera krem á fæturna á mér og nudda dálítið tærnar í leiðinni. Skítt með próf. Löngu búin að finna út úr því að stóru plönin hjá mér eru til að kollvarpa þeim. Skítt með að hárið á mér þornaði út í allar áttir ógreitt, sá myndarlegi hefur áreiðanlega séð það verra. Letin segir mér að það skynsamasta í þessari stöðu er að bæta örlítið meira í rauðvínsglasið, lesa aðeins meira af Fiskum sem hafa enga fætur, hjúfra sig þéttar að myndarlegum manni og leggja svolítinn metnað í ánægjudæsið.

föstudagur, 10. janúar 2014

Tíma-tal

Á nýju ári langar mig að trúa ykkur fyrir því að ég er kona með fortíð. Fortíð af fjölskyldu og vinum, kærustum og hjásvæfum, sambýlismanni og köttum. Fortíð af uppeldi og æsku, asnaprikum og axarsköftum. Fortíð af hamingju og gleði, særindum og sút, kátínu og skvaldri, sigrum og ósigrum. Það er gott að ylja sér við góðar minningar, minningar sem tengjast órjúfanlegum böndum meðan önnur bönd rofna og aðrar minningar dofna. Ég hef þó ekki áhuga á að dvelja í fortíðinni, kýs fremur að horfa til framtíðar. Fortíðarþrá getur breyst í fortíðarþráa á örskotsstundu.

Á einhverjum óljósum tímapunkti eftir að ég fór að elska þann myndarlega tók ég eftir því að tíminn í dag er stundin sem skiptir máli. Tilhlökkun til framtíðar nær ekki lengra en örfáar stundir fram í tímann, klukkutímar sem líða þar til ég nýt samvista við þann myndarlega. Nýt líðandi stundar á deginum í dag.

Ástin er mínúturnar í klukkustundunum mínum. Innihald klukkustundanna í sólarhringnum. Uppistaða sólarhringanna í vikunum. Vikunum í mánuðunum og mánuðunum í árinu. Krafturinn sem þeytir tímanum áfram og áfram, tímalaust. Vakna í janúar 2008, fer fram úr í febrúar 2009. Klæði mig í maí 2010, fer í vinnuna í ágúst 2011. Kem heim í september 2012, fer að sofa í nóvember 2013. Vakna í janúar 2014.

Tek varla eftir æðibunugangi tímans. Alsæl með ástina sem stenst tímans tönn.

Helgarmorgnar

Á helgarmorgnum 
- liggjum við í rúminu
-förum ekki á fætur fyrr en í lengstu lög
- förum helst ekki á fætur nema til að hella upp á könnuna
- drekkum kaffi í rúminu
- á helgarmorgnum viljum við njóta
- á helgarmorgnum er tilvalið að klára síðustu dreggjar kampavíns frá kvöldinu áður, skála fyrir ástinni og borða kryddað súkkulaði
- hvísla ástarorð að hvort öðru
- njóta hvors annars

Helgarmorgnar er okkar tími.