miðvikudagur, 28. ágúst 2019

Heimlæða

Sit við tekkskrifborð sem stendur við glugga. Skrifborðið á maðurinn minn. Við þetta skrifborð sat hann og lærði lexíurnar sínar. Óharnaður dengur á Hvolsvelli.

Glugginn sem skrifborðið stendur við er sprunginn. Glugginn stendur í húsi sem maðurinn minn keypti árið 1993. Þá var hann giftur, 2ja barna faðir. Í dag er hann tvígiftur, einu sinni fráskilinn, 3ja barna faðir og 2ja stúlkna afi. 

Ég sé Birtu, kisuna mína, liggja makindalega á verandarhandriðinu út um gluggann, fyrir neðan sprunguna. Milli þess sem hún horfir í kringum sig lygnir hún aftur augunum. 

Bróðir hennar, Bjössi, liggur værðarlegur í bleikum sófasettsstól sem við maðurinn minn keyptum á fornsölu þarna um árið sem við töldum mér trú um að þetta hús gæti orðið mitt heimili.

Þar sem ég sit og hripa niður þessi orð situr maðurinn minn á mjög mikilvægum fjölskyldufundi þar sem nærveru minnar er ekki óskað.

fjölskylda fólk, heimafólk, heimilisfólk, hjón, sifjalið, skyldulið.

laugardagur, 24. ágúst 2019

Man alltaf eftir fyrstu Menningarnóttinni.

Án vafa var hún smærri í sniðum og minnist ég helst síðdegisrölts og flugeldasýningar. Það eru ekki smáatriðin sem ég man heldur stemningin, eftirvænting og smitandi hamingja sem skein úr hverju andliti. Djamm fram á næsta dag, enginn sem kleip mig í rassinn, allir glaðir og afslappaðir. Besta djamm ever.

Það eru ekki allir sem muna. Í þessum skrifuðum orðum puðast sá myndarlegi við að potast 10 km í minningu systur sinnar sem lést úr Alzheimer.

Þar sem ég kom frá því að keyra hann í hlaupið braust sólin fram. Þrátt fyrir innvortis ólgu vegna komandi óvissu nánustu framtíðar var ég full af gleði með blússandi jass í bílnum, sólarvarma á nefbroddinum og kitlandi nútíðina í fanginu. 

Stemning andi, andrúmsloft, geðblær, geðhrif, hugarhræring, hugblær, skap.