mánudagur, 23. maí 2022

Dansandi doppur á laxi

Þar sem ég brunaði út úr bænum s.l. föstudag bað ég þess heitt út í kosmósið að lögreglan myndi ekki stöðva mig á leið minni til Hvolsvallar. Ástæðan er sú að rétt áður en ég brunaði af stað í heimsókn til systur minnar kom ég að sjálfsögðu við í Ríkinu og festi kaup á rauðvíni við okkar systrahæfi, nema rétt lögð af stað brotnaði botninn undann annarri rauðvínsflöskunni og aftursætið í bílnum tók hraustlegra á móti veigunum en okkur systrum hefur nokkru sinni tekist. Ég keyrði því á Hvölsvöll með "ámu" í aftursætinu og er hreint ekki viss um hver útkoman hefði orðið hefði ég verið stoppuð og látin blása.

Það er óhætt að segja að talandinn á okkur systrum hafi eingöngu hvílst yfir blánóttina meðan við sváfum enda flugu klukkutímarnir frá okkur eins og um magrar mínútur væri að ræða. Ekki að við systur hefðum ekki gert neitt annað en að blaðra, við drukkum ósköpin öll af kaffi, fórum í Valdísi og í Krónuna í tvígang, röðuðum á pizzur, fórum í gegnum fataskáp systur minnar, rifjuðum upp mökk af minningum, hlógum oftar en ekki eins og hýenur, hringdum í elstu systur okkar til að óska henni til hamingju með afmælið, drukkum flösku af kampavíni, horfðum á heila kvikmynd (bannaða innan 12 ára!) með dætrum hennar, fylgdumst með ferðum mágs míns á Jakobsveginum í myndum og myndsamtölum, löbbuðum góðan hring í brakandi blíðu í Tumastaðaskógi (þeim himneska stað), fíruðum upp í grilli heimilisins, hituðum sykurpúða yfir kertaljósi, heimsóttum Auðkúlu og knúsuðum Birnu vinkonu mína. Það eru forréttindi að þekkja fólk sem kona getur talað tæpitungulaust við um drauma og þrár, ótta og væntingar, mistök jafnt sem velgengi. Ekki verra þegar vinkonan sem þú getur átt hispurslaus skoðanaskipti við er blóðtengd þér í ofanálag. OK, OK, við drukkum víst eitthvað af rauðvíni líka, lies in the eyes upstairs!

Hugsanlega væri ég enn á Hvolsvelli að blaðra ef ég hefði ekki verið búin að panta borð á Sushi Social í gærkveldi. Brunaði heim með örlítið daufari áfengislykt í bílnum og rétt náði að henda mér í sturtu áður en ég rauk niður í bæ til fundar við hana Maríu*, önnur vinkona af þeirri gerðinni þar sem flest (ef ekki allt) er látið flakka í bland af gleði og alvöru með góðum skvettum af hlátri. Það ER mikil gæfa að þekkja fólk sem þú þarft ekki stöðugt að hugsa vel fyrirfram hvað þú segir við, fólk sem tekur þér eins og þú ert og hlustar á þig hvort heldur sem er í blíðu sem stríðu. 

Úttektin á fatskáp systur minnar kom út í gróða fyrir mig, Bogga systir gaf mér þrjá kjóla. Einn af þessum kjólum er laxableikur með hvítum doppum. Ég fór í honum út að borða í gærkveldi. Ég fór aftur í hann í morgun til að arka í strætó til að komast niður í bæ í blóðprufu á Landspítalanum. Þaðan arkaði ég framhjá Hallgrímskirkju niður á Grettisgötu þar sem ég kíkti inn í Verzlanahöllina. Þaðan arkaði ég síðan með plötu undir handleggnum áleiðis í bílastæðahúsið á Hverfisgötu og sótti bílinn minn frá kvöldinu áður. 

Rétt í þessu sit ég á veröndinni í blíðu þessa mánudags, enn á laxableika kjólnum. Ef ekki væri fyrir veðurblíðuna er hugsanlegt að ég væri nú búin að ryksuga íbúðina í þessum sama kjól, ég meina, hver veit hvað gerst getur, ha? Platan góða hringsnýst á fóninum, rúllandi errin hans Georges Brassens hljóma í takt við rúllandi klakana í hvítvínsglasinu mínu.

*Áhugaverð staðreynd; æsku- og eilífðarvinkoa mín heitir líka María.