mánudagur, 11. janúar 2010

Illt skeytingarleysi

Staðin upp úr sófanum. Get bara ekki horft einu sinni enn á þessa klippu þar sem lifandi fugl er fláður lifandi. Og jafnvel saumaður lifandi eftir plokk-þörfum. Get ekki skilið hvað í heilanum segir manneskju það sé í lagi að meiða lifandi dýr. Hef ímugust á illri meðferð í garð dýra.
Myndarlegi maðurinn hefur greinilega líka fengið nóg. Hann er farinn niður í þvottahús með bleiku inniskóna mína. Það hefur ekki verið gerð heimildarmynd um það safn af táfýlu sem loðað getur við kafloðna inniskó, en frekar kýs ég fýluna í gervinu en plokkaðan dún af lifandi fugli. Ojbarastann!

laugardagur, 2. janúar 2010

Tíð

Labbaði í gær í mjúkri birtu nýársdags, að gamla vinnustaðnum í Skógarhlíðinni. Rýndi inn um glugga á tómt rými fyrrum skrifstofu. Kyrrð í lofti og fátt sem sat eftir. Það er fortíðin.

Mætti fyrir allar aldir á núverandi vinnustað ásamt galvöskum vinnufélögum til að leggja lokahönd á undirbúning útsölu. Útsölu sem hófst á slaginu ellefu og iðaði af lífi í allann dag. Það er nútíðin.

Á morgun er á morgun. Og ég hlakka til. Það er framtíðin.

föstudagur, 1. janúar 2010

Tvöþúsund&tíu

Eftir því sem árunum fjölgar uppgvöta ég betur og betur hversu lítið ég þarf á fortíðinni að halda. Ég er ginkeypt fyrir nýungar og hef gaman af breytingum. Ég hef þegar fengið margar óskir uppfylltar en langar samt í meira. Ég strengi ekki áramótaheit en er þó full af væntingum og löngunum. Mér finnst gott að lifa í nútíðinni og enn og betra að hlakka til framtíðarinnar. Ég er í bleikrósóttu pilsi og mikið meira en til í 2010.