fimmtudagur, 22. ágúst 2024

Bróðir minn fæddist gamall.

Þrátt fyrir það er hann ári yngri en ég. Þegar við vorum krakkar harðneitaði hann að fara í gallabuxur, vildi eingöngu klæðast terlinbuxum. Þegar við nálguðumst unglingsaldurinn fékst hann loks í gallabuxur en klæddist iðulega köflóttum skyrtum og var með blátt kaskeiti á hausnum.

Bróðir minn skautaði að mestu framhjá popptónlist og valhoppaði beint í klassíska tóna. Enn í dag hefur hann unun af óperum. Það vita ekki allir að lögfræðingurinn, bróðir minn, lagði stund á óperusöng í Söngskólanum í Reykjavík og útskrifaðist þaðan eftir fullt nám áður en hann hóf sína lögfræðileið. Á þeim árum sá hann að auki alfarið um klassísku deildina, sem var á efri hæðinni og töluvert stór, í Skífunni á Laugavegi (fyrir þá sem muna þá tíð).

Bróðir minn hefur alla tíð haft áhuga á sögu, hann hefur unun af lestri góðra bókmennta og ljóða og hefur þess utan einhverskonar límheila, hann virðist allavega muna heljarins ósköp um allt og ekki neitt um sögulegar staðreyndir, sögur sem honum hafa verið sagðar eða sögur sem hann hefur lesið. 

Þegar við vorum krakkar leit hann upp til Vigdísar Finnbogadóttur og Jóns forseta. Því þykir mér við hæfi að birta þessa fínu mynd af bróður mínum að skála við forsetann, sem var aldrei forseti, á afmælisdegi litla bróður míns.

miðvikudagur, 21. ágúst 2024

Montmartre, Marais et Molitor

Í þorpinu uppi á hæðinni þræddum við þröngar göturnar, sáum síðustu myllu Parísarþorps, bleikt hús, styttu á leið út úr vegg, húsið þar sem Dalida bjó, kirkju hins heilaga hjarta, hús hershöfðingja úr her Napóleons og ástarvegginn. Spaðarnir á Rauðu Myllunni hreyfðust ekki. Fórum á Dalí safnið, heilsuðum upp á Valerie vinkonu mína í búðinni hennar. Stóðum á hótelsvölunum og mændum á húsþök Parísar og fylgdumst með turninum blikka á heila tímanum.

Í Mýrinni þræddum við göturnar, kíktum í vintage verslanir og duttum niður á vel lyktandi sápubúð. Fórum í Atelier des Lumiéres og létum heillast af tónlist og list. Fórum á Pompidousafnið og heilluðumst af sköpunargáfu og nútíma list. Vinguðumst við þjóninn á Líbanska staðnum við hliðina á útidyrahurðinni að íbúðinni sem við leigðum. Fengum Dylan hárgreiðslumeistara heim til að klippa okkur stöllurnar, drukkum bjór og kjöftuðum frá okkur allt vit. Gerðum okkur ferð í garðinn hans Monet, hans mesta meistaraverk.

Á rue Molitor gistum við á hótelinu við hliðina á húsinu sem ég bjó í. Drukkum kampavín í hótelgarðinum sem ég hafði svo oft mænt á frá svölunum á því rúmlega ári sem ég bjó þar ytra. Löbbuðum að búðunum sem ég var vön að fara í, göturnar sem ég þekki enn svo vel. Örkuðum yfir brúnna í átt að 15. hverfi og stöldruðum við til að virða fyrir okkur turninn og styttuna. Skoðuðum "gamla" skólann minn. Tókum lestina yfir í Latínuhverfið þar sem við skoðuðum gömul hús, stórfenglegann gosbrunn, Notre Dame, drukkum bjór og átum saltflögur í garðinum við miðaldasafnið. Fórum á djasstónleika um kvöldið. Gerðum okkur ferð að uppáhalds torginu mínu í París. Tókum metróinn að Sigurboganum og örkuðum svo alla leið niður að Louvre safninu.

Eftir ríflega 25 ára vinskap ákváðum við stöllurnar sumsé að tími væri til kominn að leggja land undir fót saman. París sveik ekki frekar en fyrri daginn, önnur sjóaðri á götum borgarinnar meðan hin hafði ekki komið síðan á níunda áratugnum. Báðar nutum við þess að drekka í okkur afslappað andrúmsloftið, dreypa á guðaveigum og belgja okkur út af dýrindismat og list og blómum og og og ..... veislan hófst strax í flughöfninni með smurbrauði Jómfrúar


Í ágúst haustlægðinni þarf engann að undra þó hugur frúarinnar fljóti til Parísar. Ó nei og nú legg ég aldeilis ekki meira á ykkur.