Þrátt fyrir það er hann ári yngri en ég. Þegar við vorum krakkar harðneitaði hann að fara í gallabuxur, vildi eingöngu klæðast terlinbuxum. Þegar við nálguðumst unglingsaldurinn fékst hann loks í gallabuxur en klæddist iðulega köflóttum skyrtum og var með blátt kaskeiti á hausnum.
Bróðir minn skautaði að mestu framhjá popptónlist og valhoppaði beint í klassíska tóna. Enn í dag hefur hann unun af óperum. Það vita ekki allir að lögfræðingurinn, bróðir minn, lagði stund á óperusöng í Söngskólanum í Reykjavík og útskrifaðist þaðan eftir fullt nám áður en hann hóf sína lögfræðileið. Á þeim árum sá hann að auki alfarið um klassísku deildina, sem var á efri hæðinni og töluvert stór, í Skífunni á Laugavegi (fyrir þá sem muna þá tíð).
Bróðir minn hefur alla tíð haft áhuga á sögu, hann hefur unun af lestri góðra bókmennta og ljóða og hefur þess utan einhverskonar límheila, hann virðist allavega muna heljarins ósköp um allt og ekki neitt um sögulegar staðreyndir, sögur sem honum hafa verið sagðar eða sögur sem hann hefur lesið.Þegar við vorum krakkar leit hann upp til Vigdísar Finnbogadóttur og Jóns forseta. Því þykir mér við hæfi að birta þessa fínu mynd af bróður mínum að skála við forsetann, sem var aldrei forseti, á afmælisdegi litla bróður míns.