sunnudagur, 26. maí 2013

Ekki svo fýld egg

Sporðrenndum fýlseggjum með morgunmatnum, já, hér skiptir ý sköpum


Bikarana keyptum við í Ástralíu þar sem úir og grúir af búsáhaldabúðum með mörgum skemmtilegum og misþarflegum eldhúsáhöldum.

Eggin voru prýðileg og ágætt alveg að hafa fýlsegg á afrekaskránni, en svartfuglseggin hlakka ég til að snæða


Skálin kemur frá ömmu Hallveigu, merkt hinum íslenska Funa. Mér þykir hún, rétt eins og svartfuglseggin, hreint dásamleg.

mánudagur, 20. maí 2013

Lyftist þá á mér brúnin

Ég er lofthrædd. Myndi því seint láta bjóða mér miðdegisverðinn sem hér gefur að líta, þótt hann sé á Manhattan


Læt mér nægja að lifa á brúninni með því að fara á náttkjólnum út í bakarí í morgun. Tróð honum ofan í gallabuxur og henti lopapeysu yfir mig.

Fór að vísu langt niður stálstiga ofan í helli. Hring eftir hring eftir hring í hringstiga. Óttinn sparkaði sting í kviðinn örskotstund en gekk annars bærilega að hugsa um einhvað annað. Passaði mig á að horfa ekki niður


Prýðis helgi að baki. Fríið samt ekki búið. Þess vegna ætla ég í heitt bað með Campari Crush á baðbrúninni


Nýt þess að lifa á minni brún á Samhattan.

fimmtudagur, 9. maí 2013

Tíminn líður, trúðu mér

Á síðasta degi aprílmánaðar fórum við skötuhjúin og hlýddum á Fóstbræður þenja raddböndin. Mér til sérstakrar ánægju fluttu þeir þetta gamla þjóðkvæði;


"Tíminn líður trúðu mér
taktu maður vara á þér
heimurinn er sem hála gler
hugsað´um hvað á eftir fer"

Síðustu tvær vísurnar þekki ég vel. Man eftir sjáfri mér í fanginu á ömmu sem strauk mér um eyrun, ruggaði mér og söng;

"Það á að strýkja strákaling,
stinga honum oní kolabing,
loka hann út í landsynning
og láta hann hlaupa allt um kring.

Það á að strýkja stelpuna,
stinga henni oní mykjuna,
loka hana úti og lemja hana
og láta hann Bola kremja hana."