þriðjudagur, 29. september 2009

Jordgubb



Myndarlegi maðurinn kláraði jarðaberjasafann. Situr enda kampakátur á sófanum með vískí og skóáburð. Dugar ekki að fara á óburstuðum skóm til útlanda, jafnvel þó það sé einungis vinnuferð til Danmerkur. Velti möguleikum mínum, galeinni, heima hjá honum, fyrir mér;
- Get sungið hástöfum með öllum uppáhaldslögunum mínum á æpodnum.
- Glápt á Sex & the City.
- Klappað kettinum.
- Prumpað undir sænginni.
- Breikað á stofugólfinu.
- Saknað hans og hlakkað til að fá hann aftur heim. Það þarf jú líka að klára melónu-ananas-safann.

sunnudagur, 27. september 2009

Baun-laus

Var að koma úr bústað. Gisti heila nótt með Zöru-stjórum. Bústaðurinn er í Grímsnesinu og í gervi einbýlishúss. Haustlitirnir eru yndis-fallegir og samstarfskonur mínar eru yndis-legar. Dekruðum við okkur í mat og drykk, en lögðum ekki í 11°"heitann heita" pottinn. Sinnti hlutverki aldursforseta hópsins og bauð góða nótt upp úr miðnætti, klöngraðist upp á 4 dýnur og svaf miklu, miklu betur en prinessan á bauninni.

Það er gott að koma heim með útkýlda vömb af 6 rétta brönch, í heitt kaffi og von-Somtime-tertur. Best af öllu þó að knúsa uppáhalds jafnaldrana mína

föstudagur, 25. september 2009

Höfði brennur

Það logar í Höbða og reykurinn er þykkur og grár. Flutningabílarnir sem ferja eiga Höbða-góss, eru jafn margir slökkviliðsbílum. Rokið snýr í fangið og rigningin sömuleiðis. Mér er enn illt af tilhugsuninni um nýja ritsjóra Morgunblaðsins. Kötturinn er órólegur.

Þetta er S. Katla Lárusdóttir í Samtúninu.

mánudagur, 21. september 2009

Sætasta húsamúsin

Þegar mýsnar fara á stjá, fer kötturinn að sofa í hausinn á sér*



*Fyrir samheitaorðabókafólk; að sofa í hausinn á sér er Ólafíuíska.

sunnudagur, 20. september 2009

Merkt & klístrug

Myndin var óseld en er nú merkt mér. Ég hef vel fram í október til að ákveða hvar ég eigi að hengja hana upp. Þar sem stærðfræðin vofir yfir höfði mér eins og óður púki með þrjú andlit, er ég búin að fara í langann göngutúr með myndarlegann mann mér við hlið, kíkja á bókamarkað, lesa í nýju bók kærastans, dorma í heitu baði og baka breskann verðlaunabúðing

laugardagur, 19. september 2009

Um-sláttur

Hef slegið um mig í allann dag. Fór á myndasýningu og reyndi í framhaldinu að festa kaup á mynd. Pantaði herrafatnað fyrir margar, margar evrur á glansandi rauðum hælaskóm. Ýtti við viðkvæmni með lélegu gríni. Byrjaði á nýju bók kærastans meðan hann dormaði í bjútiblundinum á sófanum. Kaupti tvenna poka af kasjúhnetum og trönuberjasafa. Át síðasta tyrkneska piparinn úr dollunni.

Mig óar fyrir hvar þetta muni allt saman enda, en tel þó nokkuð víst að Borgarahreyfingin, eða hin eða hvers eða hvurs, verði ekki valkostur á næsta kjörseðli. Mér þykir annars afskaplega ósmekklegt þegar ópersónukjörnir þingmenn, fara með atkvæði flokks síns eins og þeim einum hentar.

föstudagur, 18. september 2009

Dænastí-flækja

Uppgvötaði Dænastí á Skjá1 um daginn. Datt niður í miðjann þátt og sat stjörf yfir þeim hræðilegustu hárgreiðslum, axlarpúðum, skikkjukápu og olíubornu bringuhárum sem ég hef augum litið. Í Dænastí er illskan uppmáluð í gervi Joan Collins, og góðmennskan í gerfi hennar þarna með ljósa blævængjatoppinn sem skríður ofan í ljós-ljós-ljósbláu augun. Í Dænastí spilar maður tennis upp á æru sína vegna svikinna tryggða eiginkonu, og getur orðið nánast sturlaður af að anda að sér málningunni á skrifstofunni sinni sem mamma manns á e-a sök af. Þ.e.a.s. ef mamma manns er Joan Collins. Fyrrverandi eiginmaður hennar, og núverandi þessarar góðu, keyrir töluvert um í limmósínu.

Ætlaði að komenta hjá Parísardömunni um að ég hefði aldrei gengið með barn, en uppgvötaði svo að ég hef gengið með barn. Í fanginu. Mörg börn. Mislangar, eða stuttar, leiðir. Sætti mig á að skrifa ég hefði aldrei verið ófrísk, en ég hef heldur ekki alltaf verið frísk. Joan Collins veit pottþétt um hvað ég er að tala, en það er þessi góða þarna sem mun sýna mér samúð.

þriðjudagur, 15. september 2009

Skitið og skeint

Varð það á að rýna í nýjasta tölublað Séð og Heyrt. Tók eftir því að sambands-slits-fyrirsagnirnar eru ekki lengur á þá leið að Ástin hafi slökknað, nú er það Fegurðin sem dofnaði.
Þokkadís Íslands virðist hafa gengið í hnappelduna, en skv. öruggum heimildum S&H grétu margir menn þarna um árið sem eiginmaðurinn nældi sér í hana. Hreinlega grétu.

Ég er auðvita bara hundöfundsjúk. Þokki minn, sem þó drýpur af mér, hefur hingað til ekki grætt menn. Og engum hefur dottið til hugar að kalla misheppnuð ástarsambönd mín dofnandi fegurð. Í ofanálag stínka ég í stærðfræði. Piff.

mánudagur, 14. september 2009

stæ-l

Eftir uppsögn og launa-taugaáfall stakk ég mér á bólakaf í blöndu af ofmetnaði og hofmóð. Ég reiddi fram nokkra tugi þúsundkalla í þeirri drambsömu vissu um, að nú yrði eigin akkilesarhæll yfirbugaður. Hef síðan þá verið í felum m.a. í skjóli utanlandsferðar og þagnar þegar kærastinn spyr hvernig miði. Habði mig loksins í að festa kaup á útjaskaðri, notaðri skruddu í gær með ólundarsvip og innvortis nöldri. Lokaði mig inni í herbergi til að líta í hana. Smellti henni jafnharðann aftur með enn frekari ólund og kvíðahnút ofan á innvortis nöldrið. 16 ár eru liðin síðan ég gafst upp og ákvað endanlega að stærðfræði væri með ömurlegustu fyrirbærum sem ég vissi um. Svei mér þá, ef hún er ekki bara ömurlegri en ég hélt.

Sat öfugu meginn í strætó í morgun. Umhverfið var fallegt frá öðru sjónarhorni. Haustið er gott.

laugardagur, 12. september 2009

Brönch



Er það ekki annars kallað brönch þegar árdegisverðurinn er etinn korter í tólf?
Styttist í síðdegiskaffið og innkaupalistinn ekki orðinn klár. Hmm.

fimmtudagur, 3. september 2009

Félagslyndi


Eftir að hafa smakkað til sósuna fyrir okkur, sá kötturinn um að skemmta góðum gestum sem heimsóttu okkur með myndasýningu í tölvunni


miðvikudagur, 2. september 2009

Mann-sal

Vinnudegi gærdagsins lauk snögglega um 2,5, ef ekki 3 klst fyrr, en áætlað var. Örlögin eru þó sjaldnast umflúin, ég loka búðinni í kvöld í staðinn. Myndarlegi maðurinn gerir sig breiðann og þykist ætla að toppa mig í fylltri svínakjötseldamennsku. Það mun honum að öllum líkindum ekki takast, þar sem nýtt svínakjöt verður varla verra en frostskemmt ársgamalt svín. Ég vona altjént ekki.

Fletti sparhefti sem borið var í hús í gær. 2 fyrir 1 á stórum kranabjór og aðgangseyri á Goldfinger. Heyrði í morgunútvarpinu að rannsókn hérlendis staðfestir að mannsal eigi sér stað á Íslandi. Stærstur partur, þó ekki allur, í kynlífsiðnaði.

þriðjudagur, 1. september 2009

Húsblanda

Átti svínakjöt í frysti sem ég ákvað loksins að gera e-ð við í gær. Tróð sneiðarnar fullar af furuhnetum, pestó, hvítlauk, steinselju og salvíu af miklum myndarskap. Fékk svo myndarlega manninn til að velta þeim upp úr hveiti og loka* á pönnu. Þaðan lá leið þeirra inn í ofn ásamt tómötum og lauk. Fyllingin fyllti vitin af ljúfri lykt en kjötið var ónýtt. Helst til mikið haft fyrir kvöldmat sem á endanum varð steiktar kartöflur, og síðar popp til að fylla upp í rúmið sem meðlætið náði ekki að metta.

Vinnudagurinn mun hefjast á Verslunarstjórafundi og enda e-r milli hálftíma til klst eftir lokunartíma búðar. Þar til nýt ég kaffisins, hlusta á vælið í kettinum og reyni að upphugsa góða afmælisgjöf handa góða pabba mínum.

*fínt kokkaorð yfir að steikja.