mánudagur, 14. september 2009

stæ-l

Eftir uppsögn og launa-taugaáfall stakk ég mér á bólakaf í blöndu af ofmetnaði og hofmóð. Ég reiddi fram nokkra tugi þúsundkalla í þeirri drambsömu vissu um, að nú yrði eigin akkilesarhæll yfirbugaður. Hef síðan þá verið í felum m.a. í skjóli utanlandsferðar og þagnar þegar kærastinn spyr hvernig miði. Habði mig loksins í að festa kaup á útjaskaðri, notaðri skruddu í gær með ólundarsvip og innvortis nöldri. Lokaði mig inni í herbergi til að líta í hana. Smellti henni jafnharðann aftur með enn frekari ólund og kvíðahnút ofan á innvortis nöldrið. 16 ár eru liðin síðan ég gafst upp og ákvað endanlega að stærðfræði væri með ömurlegustu fyrirbærum sem ég vissi um. Svei mér þá, ef hún er ekki bara ömurlegri en ég hélt.

Sat öfugu meginn í strætó í morgun. Umhverfið var fallegt frá öðru sjónarhorni. Haustið er gott.

Engin ummæli: