Mikið sem það var indælt að keyra heim úr vinnunni í gær í birtu. Febrúarbirta já en birta samt. Meira undrið sem birta gerir fyrir sálartetrið. Líka fyrir tetur sem er glatt og sál sem er hamingjusöm. Rigning gærdagsins var þétt en létt. Minnti mig á vor. Sofnaði við gnauðið í vindinum sem hamaðist. Vaknaði snemma og vindurinn enn í ham. Snjóföl fyrir utan. Minnti mig á að enn er vetur.
Kaldur veturinn vekur upp hjá mér hlýju og snjór með því fallegra sem ég veit. Litasynfónía hausts og vors augnakonfekt og upphaf í báða enda. Þó jafnast ekkert á við sumar. Heitar tilfinningar, gleði, fyrirheit. Merkilegt þetta samspil árstíða, veðurs og manns.
Appaðu þig í gang - ætli hann starti Skódanum með appinu?
Ég var einmitt búin að velta því fyrir mér hvað þetta app væri eiginlega. Að sjálfsögðu er app vel snyrtur fermingardrengurhvítur karlmaður í jakkafötum. Ekki yrði ég hissa þó upplitaði skódinn væri farartæki svo strokinnar ímyndar. Það er víst ekki allt gull sem glóir.
Eftir að hafa fylgst með fésbókarvinum raða inn "fyrstu statusunum" sínum lét ég undan áhrifagirninni og tók þátt. Fór inn á app-ið svokallað og upphófst hið venjulega með því að taka þátt leyfir þú xxx að pósta á veggnum þínum, sækja upplýsingar á veggnum þínum, blablabla. Þessi partur hefur greinilega ekki breyst mikið í þessi 2 ár sem ég hef sniðgengið allt svona "leikjadæmi" á fésbók. Nema hvað, ég gat hafnað þessum óskum, áður fyrr var það ekki alltaf hægt, og samt fengið niðurstöðu. Barbabrella. Niðurstaðan var röng. Velti því fyrir mér hvort það taki á taugarnar að vera sjálfumglaður er ekki fyrsti statusinn sem ég birti á veggnum mínum. Ég man vel hvenær ég skrifaði þennan status og um hvað ég var að hugsa. Kannski var app-ið bara fúlt yfir því að fá ekki aðganginn sem hann/hún/það bað um. Kannski fær app-ið þennan aðgang hvorteðer og bara heimskinginn ég veit ekki af því. Líklega treystir app-ið á að fólk muni hreinlega ekki hvaða status var sá fyrsti. Ég til að mynda hef ekki hugmynd, veit bara að það var ekki þessi því hann er mér minnisstæður.
Meiri stælarnir að gefa upp magn af smjöri í dl í kökuuppskrift í blaði. Smámunasemi í frúnni? Já, líklega. Glöð samt því afraksturinn er hin álitlegasta súkkulaðikaka. Glöð líka því mánuðurinn minn er loksins kominn og krúttlegi kallinn minn löngu byrjaður að velta því fyrir sér hvað hann eigi að gefa mér í afmælisgjöf.
Afmæli.
Elska að eiga afmæli. Næstum jafn mikið og ég elska að eiga mann sem lætur mér líða eins og allir dagar séu afmælisdagar. Er nokkur furða að frúin baki köku úr súkkulaði og smjéri á þriðjudagskveldi og bæti nokkrum berjum í?