föstudagur, 26. ágúst 2016

Fengum loksins...

sjúkdómsgreiningu á posavandanum á kassa eitt í dag og að sjálfsögðu vippuðum við Frikki Melabróðir okkur strax í aðgerð "skipta um snúru". Dugði ekkert minna en okkur tvö til verksins. Vorum þarna saman að gaufast og gera þegar ung kona vindur sér að mér og segir; fyrirgefðu, ég veit að þú ert ekkert að vinna hérna en værir þú til í að rétta mér 85% súkkulaðið þarna fyrir aftan þig svo ég geti farið með það á hinn kassann. Í fyrsta skipti á minni stuttu ævi var ég sumsé tekin fyrir forritara. Ég skelli skuldinni alfarið á snúruna.

Eftir þetta vorum við Frikki orðin svo náin að þegar ég síðar um daginn hljóp upp um hálsinn á sölumanninum okkar frá Freyju og rak honum rembingskoss hljóp Frikki til og gerði slíkt hið sama. Munurinn er þó sá að ég hafði fengið fullann poka af lakkrís að gjöf, Frikki fékk ekki neitt.



Eftir vinnu tók ég strikið beint á Café Haiti þar sem ég hitti fyrir hana Eldu sem veit upp á hár hvað gleður okkur Pétur. Gekk síðan rösklega í átt að Hörpu og áfram meðfram sjónum, yfir ljósin til móts við Höfða og heim. Með ylvolgar baunir í bakpokanum.

1 ummæli:

Þórdís sagði...


Þú færð á móti sem þú gefur mín kæra :)