fimmtudagur, 27. febrúar 2020

Af köttum og baðvatni

Kettir virðast elska baðvatn, allavega miðað við kettina sem ég hef komist í tæri við í gegnum tíðina. Dagurinn minn sat yfirleitt á baðbrúninni og lapti heitt baðvatn eða beið eftir því að ég kæmi úr sturtu til að sleikja sturtubotninn. Sama gerði hún Tisa mín sem um hríð bjó með okkur Degi, og þáverandi sambýlismanni, í Grafarholtinu forðum daga. Samrýndu systkinin, áður í Samtúni, nú í Veghúsum, eru í engu frábrugðin þessari þörf katta. Nema sturtuferðir frúarinnar eru ekki jafn einskorðaðar við morgna eftir að hún flutti í Grafarvog. Suma morgna snúsa ég fram yfir sturtutíma. Þá daga er himneskt að fara í heita kvöldsturtu. 

Í morgun fór ég í sturtu. Þegar ég kom heim eftir vinnu vomaði Birta ámátlega í sturtunni, eina sem ég gat lesið úr því var; ég vil fá sturtuvatn. Að sjálfsögðu varð ég strax við þeirri (óbeinu) beiðni, tók minni sturtuhausinn í mínar hendur og skrúfaði frá, lét heita bununa renna yfir sturtubotninn. Þar sem ég stóð álút og fylgdist með Birtu fylgjast með vatninu sem rann í botninn ákvað ég að skrúfa fyrir. Nema ég snéri of mikið og áður en ég vissi af stóð ég álút undir bununni af stóra sturtuhausnum. Hárið á mér og vinstri handleggurinn á mér (innan í peysunni sem ég var í) varð á örskotsstundu gegndrepa.

Fyrst brá mér, síðan hlóg ég, dátt og innilega. Þurrkaði á mér hausinn í handklæði, klæddi mig úr og fór í náttföt. Legg ekki meira á ykkur.

Engin ummæli: