Bókina fékk ég svo í jólagjöf frá foreldrum mínum. Að sjálfsögðu dembdi ég mér lóðbeint með nefið ofan í hana enda afar áhugasöm um Stöðu pundsins. Var reyndar byrjuð á bókinni Nine perfect strangers en að sjálfsögðu lætur kona ókunnuga ekki halda sér frá kunnugum. Í miðjum Bragaháttum datt svo ný bók Jussa uppí hendurnar á mér og ég festist í Fórnarlambi 2117. Sat hugfanginn í dönskum glæpavef allt þar til ég lagði land undir fót. Eins og allir almennilegir bókabéusar vita þá er ekkert vit í því að bregða sér í ferð milli landa með langt komna bók svo Plan B varð plan E. Í Lundúnaborg færði systurdóttir mín mér að gjöf bók með svo girnilegum titli og bókarkápu að ég hef neyðst til að beita sjálfa mig járnvilja til að byrja ekki að blaða í henni strax. Hvað varð annars um D gætuð þið spurt? Jú, í miðju fullorðinsbókafárinu datt ég ofan í 63 ára gamla barnabók sem dúkkaði upp í einum skilnaðarkassanum, aðalsöguhetjan ber sama nafn og ein systir mín svo það segir sig sjálft að ég yrði að reka nefið í hana einnig. Sem ég og gerði.
Kom heim s.l. föstudag með forsmekk af kvefi í hálsi. Var orðin nefmælt á laugardegi og einstaka hóstakjöltur rauf nuddværðarkyrrð frúarinnar á sunnudegi. Í gær herti pestin tökin og í dag heldur hún þétt um slímtaugar nefsins ásamt því að herða hóstatakið. Í gær fékk ég einnig veður af nýrri Eddubók. Dreif mig í heita sturtu eftir vinnu og lagðist á bleikann sófann í rauðum náttslopp, harðákveðin í því að klára Jussa vin minn. Vaknaði síðar um kvöldið, ringluð og sveitt. Fórnarlamb 2117 lá á gólfinu. Át nokkrar kexsneiðar með Stilton osti við eldhúsbekkinn áður en ég burstaði tennur og fleygði mér í rúmið. Sofnaði strax.
Í dag sá ég að Jóhanna gaf sinni góðu konu rósir í tilefni nýrra Eddumála, eins gott. Sjálf beiti ég Jónínu járnvilja, hún kemur ekki inn á mitt náttborð fyrr en danskur kollegi hennar er farinn þaðan.
Legg ekki meira á ykkur í bili, elskurnar.
2 ummæli:
Þessi danski heldur manni sko við efnið. Góð eins og allar bækur Jussa :) Sendi þér Bataóskir og farðu svo vel með þig.
Hjartans þakkir fyrir góðar óskir og innlit á gamalt blogg :) Sá danski er bara frábær!
Skrifa ummæli