Í gær var einn af góðum dögum ársins. Mætti kvefuð og þreytt til vinnu en lét það ekkert aftra mér við bolluátið, bolludagur er víst bara einu sinni á ári. Um kvöldið steikti ég pressað hvítlauksrif í kannski sekúndu áður en ég bætti matskeið af púðursykri við og dembdi síðan balsamik ediki yfir. Á heitri pönnu tekur það ekki langa stund að sjóða og þykkna og því þurfti kona að vera dugleg að hræra í blöndunni sem reyndist hreint ekki þrautalaust, fnykurinn af heitu balsam edikinu var slíkur að frúnni súrnaði í augum. Léttsteiktri kjúklingabringu var síðan blandað saman við og því næst færð yfir í eldfast mót. Raðaði útlendum kirsuberjatómötum allt í kring og smellti inní ofn
Átti útrunninn erlendann mozzarellaost sem ég skar væna sneið af og setti yfir bringuna eftir hálftíma viðveru í ofninum. Það tók ostinn ekki nema rétt rúmar 5 mínútur að bráðna og þá var bringunni skellt á disk, smátt skorinni basiliku fleygt yfir ásamt skornum erlendum kirsuberjatómötum. Átti líka útrunnið salat sem fékk að fljóta með. Príma kvöldverður get ég sagt ykkur.
Í dag var enn einn af þessum góðu dögum ársins. Pési stóð þegar yfir pottunum er ég mætti kvefuð en ekki jafn þreytt til vinnu. Súpan stóð fyllilega fyrir sínu og fyllti minn maga svo duglega að ég afþakkaði gott boð Pésa um að taka súpu með mér heim, sprungin á sprengidegi. Í kvöld dróg ég útrunna erlenda mozzarellaostinn út úr ískápnum og skar í sneiðar, dreypti eðal ólafíuolíu yfir, lagði íslenskar tómatsneiðar ofaná, pipraði og saltaði, reitti basiliku yfir og drippaði því næst kirsuberjabalsamgljáa yfir
Príma kvöldverður get ég sagt ykkur.
Á morgunn er svo enn einn dagur. Legg ekki meira á ykkur. Í bili, a.m.k.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli