mánudagur, 17. febrúar 2020

Í fyrsta skipti, síðan ég skildi,

var ég strokin af karlmanni. Hann strauk á mér lærin og fótleggina, rassinn og aftanverð lærin. Fikraði sig upp eftir bakinu á mér og strauk á mér magann. Fór mjúkum höndum um handleggi mína og strauk hvern einasta fingur. Fyrst með saltskrúbbi og þar á eftir með þörungamaska. Þessi athöfn var vissulega bara forleikur. Nýji strokumaðurinn í lífi mínu heitir Óskar og er heilsunuddari í Bláa Lóninu. 60 mínútna nuddið sem síðan tók við gaf skrúbbsktrokunum ekkert eftir.

Þegar ég var búin að fara fram á skilnað og áttaði mig á því að afmælisdagurinn minn yrði ekki 5 ára brúðkaupsafmæli heldur 45 ára afmælisdagurinn minn þá ákvað ég að gera eitthvað stórfenglegt fyrir sjálfa mig. Stórfengleg hugmyndin lét ekki á sér standa, ég pantaði hádegisverð á Lava veitingastað, herbergi á Silica og kvöldverð á Moss. Fyrir mig og mig eina. Bætti um betur og pantaði mér nudd í Bláa Lóninu. Flaut frá strokumanninum í himnasælu og um Lónið þar til ég var farin að óttast að skinnið myndi smjúga af viskhöndunum á mér.

Það eru líklega ein 25 ár síðan ég hætti að nota sjampó og hárnæringu. Á því ekki gott með að lýsa því fyrir ykkur hvernig mér leið að sjá sjampóbrúsann hennar mömmu í sturtunni minni í morgunn. Eftir Bláa Lóns ævintýrið, þar sem kona hafði ekki einungis aðgang að prívat lóni frá hótelherberginu heldur var strokin hátt og lágt af myndarlegum manni, þá var hárið á mér í morgunn eins og þæfður lopasokkur.

Legg ekki meira á ykkur elskurnar.

Engin ummæli: