sunnudagur, 23. febrúar 2020

Steikt egg og flensa

Einhverra hluta vegna sá bráðum minn fyrrverandi alfarið um að steikja bæði beikon og egg í okkar sambúð. Ég get því ekki með góðu móti munað hvenær ég sá um slíka steikingu síðast, allavega liðin 12 ár síðan, það veit ég með vissu. 

Þegar ég kom heim eftir vinnu s.l. föstudag langaði mig mest til að henda mér í heita sturtu og beint í náttfötin. Henti mér vissulega í heita sturtu en þar á eftir tók ég til við að mála varirinar á mér rauðar, smeygði mér í svartar gallabuxur, þunna hauskúpuskyrtu og appelsínugula hælaskó. Mætti rám og þreytt í partý í Skútuvogi, partýhaldari tók vel á móti mér og skipaði mér að fá mér gott romm í hálsinn. Fékk þrjá flauelsmjúka rommsopa á barnum en hélt mig síðan við brakandi þurrt hvítvín. Skemmti mér konunglega í pub-quiz, spjallaði og hló með vinnufélögum en datt ekki til hugar að fara með þeim niður í bæ, dreif mig bara heim í leigubíl. 

Var sjálfri mér þakklát er ég vaknaði þynnkulaus morguninn eftir. Ákvað að steikja mér egg og beikon í morgunmat, slík var gleðin. Beikonið steikti ég á þurri pönnu, minnug þess hvernig bráðum minn fyrrverandi var vanur að steikja beikon, en ég ákvað að prufa að smjörsteikja eggin. Smjörið varð að sjálfsögðu fljótt brúnt en bragðið á eggjunum var gott. Svo gott að þrátt fyrir flensuna afréð ég, eftir heita sturtu að sjálfsögðu, að labba bara eftir bílnum enda glennti sólin sig og ég arkaði af stað með sólgleraugu á nefinu. Var ekki alveg viss um hver væri besta leiðin en hafði jú einhverjum árum fyrr verið viðstödd opnun göngubrúar sem tengdi þennann voginn við hinn voginn. Eftir 1 klstund og 7 mín. settist ég inn í tíkina mína. Er heim var komið fann ég að mér var kalt inn að beini. Óskaði þess að ég væri með baðkar en þar sem ég er bara með sturtu klæddi ég mig úr og henti mér undir sæng. Steinsofnaði og svaf til að verða hálf sjö. Skjögraði svefndrukkinn fram úr með stíflað nef, hóstakjöltur og lopaþoku í hausnum. 


Í morgunn vaknaði ég nokkuð hress en komst þó ekki fram úr, Birta mín lá steinsofandi á framhandleggnum á mér og að sjálfsögðu vildi ég ekki vekja hana. Eftir könnu af kaffi og bókalestri ákvað ég að steikja mér egg í ólífuolíu, sumsé eins og bráðum minn fyrrverandi gerði ávalt. Ristað brauð með, ekkert til að kvarta yfir 

Fór í heita sturtu í dag, já, en fór ekki út fyrir hússins dyr. Er búin að þurrka af, ryksuga og skúra og setja í vél. Úti fyrir kyngir niður friðsælum snjó. Birta og Bjössi sofa værðarleg á bleikum sófa. Var rétt í þessu að hengja upp þvott, franskur djass í bakgrunni, værð í hjarta. 

Legg ekki meira á ykkur elsku vinir nema jú, þessa mynd hér

2 ummæli:

Lífið í Árborg sagði...

Það er gott að heyra hvað þú ert dugleg við að halda áfram með þitt líf þó oft komi upp í hugann hvað þinn "bráðum fyrrverandi" var vanur að gera, þetta er eðlilegt og mun taka góða tíma að komast á beinu brautina. Um að gera að muna að næra sál og líkama, þannig munt þú venjast einverunni og nýjum lífsmáta. Gott að kisurnar eru komnar til þín, þær hafa örugglega líka saknað þín. Hafðu það sem best mín kæra duglega kona.

Frú Sigurbjörg sagði...

Hjartans þakkir fyrir þessi góðu og fallegu orð elsku vinkona! Það sem ég er glö að hafa fengið að kynnast þér og eiga þig sem mína "blogg"vinkonu, þú ert dásemd <3