þriðjudagur, 17. mars 2020

50,000,000 Elvis aðdáendum getur ekki skjöplast

Í okkar fyrstu ferð til Parísar, við endann á einum af mörgum stigum Montmartre, á leið okkar frá Sacre Coeur, álpuðumst við inn í pínulitla búð og rákumst þar á aðra af tvíburasystrunum sem eiga og reka búðina, sem þrátt fyrir að vera lítil er sneisafull af skarti sem önnur systirin býr til og listaverkum sem hin systirin gerir. Leiddumst út, hönd í hönd, frúin með nýtt hálsmen um hálsinn. Í næstu ferð völdum við armband í stíl. Þar með var heimsókn í bútíkina okkar orðin að hefð og síðan þá höfum við bætt eyrnalokkum í safnið, afmælisgjöf handa mömmu og afmælisgjöf handa Daney systurdóttur. Í síðustu ferð okkar til Parísar keyptum við loks verk af hinni systurinni, sprúðlandi af passjón og festívri gleði, að kona tali ekki um rómans í flöktandi kertaloga
 
Hvarflaði ekki að mér að ferðin sú yrði okkar síðasta til Parísar, saman.

Stuttu fyrir skilnaðinn slitnaði armbandið. Á enn eftir að láta gera við það. Í gær, er ég kom heim eftir vinnu og byrjaði á því að rífa af mér skartið, áttaði ég mig á því að ég var bara með eyrnalokk í vinstra eyranu, hvenær lokkurinn flaug úr því hægra er ekki gott að segja. 

Af öðrum stórmerkilegum tíðindum gærdagsins þá kveikti ég á sjónvarpinu eftir matinn, líklega í 4ja skiptið síðan ég flutti hingað. Dembdi mér beint í Vod-ið og skoðaði hvort áhugaverðir þættir væru í boði. Þaðan tók ég stefnuna á DR1. Á hraðri yfirferð á I-inu, þá gerðist það, alls óforvendis. Skilnaðarsársaukinn hvefldist yfir mig, sár og óvæginn. Hvort það var bölvaður eyrnalokkurinn eða allir þættirnir sem við Pétur vorum vön að horfa á saman sem kom því öllu af stað er ekki gott að segja, en þar sem ég sat í bleikum sófa og barðist við tárin þá ákvað ég að leyfa mér það, leyfa mér að gráta, leyfa mér að sakna græns sófa og tánudds, leyfa mér að hugsa hlýtt til manns með fallegt bros og skakkar tennur, minnast bliks í auga og vonar sem átti aldrei von.

Í kvöld sauð ég fisk handa kisunum mínum og setti í vél. Í staðinn fyrir að kveikja á sjónvarpinu kveikti ég á plötuspilaranum. Undir ærandi diskóplötu frá 1977 hengdi ég upp þvott. 

Legg ekki meira á ykkur smáfuglar fagrir og aðrir vinir.

Engin ummæli: