Vekjarinn minn í morgunn sagði góðan daginn elskan mín, ertu vöknuð? Þessum gæða vekjara fylgdi ekki snús. Forsaga málsins er sú að við Pési æddum af stað úr Melabúðinni til að ná fyrir lokun í bílaumboð Pésa, þar sem bíllinn hans beið hans eftir viðgerð. Áttaði mig á því á leiðinni að ég hafði gleymt símanum mínum í vinnunni í æðibunuganginum í okkur. Komin alla leið í eitthvert Kauptún í öðru bæjarfélagi þá datt mér ekki til hugar að renna aftur vestur í bæ fyrir einn símagarm. Brunaði bara heim til mín og hóf leit að vekjaraklukkunni sem ég keypti í Ikea fyrir einum tveimur árum eða svo. Klukkuna fann ég þó hvergi og því voru góð ráð dýr. Nú vill svo til að ég er með heimasíma, ekki síst fyrir þá staðreynd að hann er galókeypis í þeim símapakka sem ég er með, nema mér varð hugsað til þess að einu sinni var hægt að panta hringingu til að láta vekja sig (já krakkar, auðvitað var það löngu á undan gsm) og það var þá sem ég áttaði mig á því að hringja í traustasta fólkið mitt. Mamma tók vel í að hringja í stelpuna sína klukkan sjö morguninn eftir. Það var svo pabbi sem vakti mig með þessum hlýju orðum í morgunsárið.
Niðri í andyrinu, í blokkinni sem ég bý í, sá ég stafla af bókum til gefins. Án þess að hika hélt ég beint í bílakjallarann, tautaði með sjálfri mér að ég ætti nóg af bókum, huggaði sjálfa mig með því að ég myndi leyfa mér að skoða það sem eftir yrði er ég kæmi heim úr vinnu. Í vinnunni í dag birtist svo Sólveig vinkona mín og gæðablóð með bók fyrir mig að lesa og nokkur eintök af the New Yorker. Ég var því kampakát er ég hélt heim á leið og mér til ósvikinnar gleði (eða ógleði) var bókastaflinn í andyrinu óhreyfður. Ég "neyddist" því til að staldra við hann og jú, þið giskuðuð rétt, ég tók að mér nokkrar bækur, eða öllu heldur, ég skildi nokkrar bækur eftir í andyrinu.
Ein af mínum uppáhaldsbókum er Hundrað ára einsemd eftir Gabriel García Márquez. Í gærkveldi horfði ég á Ástin á tímum kólerunnar. Velti því fyrir mér af hverju í ósköpunum ég hef ekki lesið fleiri bækur eftir manninn. Ein af bókunum sem ég tók með mér í lyftuna áðan er Af Jarðarför Landsmóðurinnar Gömlu.
Nú legg ég aldeilis ekki meira á ykkur að sinni, elsku vinir.
2 ummæli:
Hundrað ára einsemd er besta bók í heimi.
Takk fyrir skemmtilega sögu.
Knús og kram
Takk nafnlaus en hví nafnlaus?
Skrifa ummæli