miðvikudagur, 18. mars 2020

Think about things

Það á ekki af íslensku þjóðinni að ganga. Loksins þegar öruggur sigur Íslendinga í evróvision er í höfn, eftir 36 ára streð og strit, gleði og brostnar vonir, þá er keppnin blásin af. Hvers á þjóðin að gjalda? Að kona tali nú ekki um hann Daða Frey og allt hans gagnamagn? Hópurinn kom, sá og tapaði í fyrstu atrennu og nú þegar þau vinna þá þarf ekkert minna en heimsfaraldur til að koma í veg fyrir að Daði Freyr taki keppnina með trompi þarna ytra. Margir yrðu nú sárir af minna tilefni en þessu, get ég sagt ykkur.

Komst ógrátandi í gegnum sjónvarpsgláp í kvöld. Datt inn í sænska þætti um ljóshærða, miðaldra konu sem á 3 börn og fyrrverandi menn og rekur veisluþjónustu og höndlar ekki alveg að sinn fyrrverandi er kominn með nýja og er að rembast við að fara á stefnumót og svona, soldið eins og ég. Nema ég er náttúrulega dökkhærð , á engin börn og vinn í verslun og er reyndar ekki á Tinder og langar ekki rassgat á stefnumót en, þið sjáið samt alveg líkindin, er það ekki?

Birta var að hendast inn um kattalúguna. Bjössi liggur úrvinda við fætur mér hér á bleika sófanum, hann elti kústinn um alla íbúð og háði djarfar orustur við sópinn allt þar til ég burstaði samtíningnum í fægiskóflu og gekk svo frá kústinum inn í þvottahús. Blessaður karlinn hefur legið í fastasvefni á sófanum síðan. Ég skil hann vel. 

Ætli sé ekki best að hleypa eins og einum stefnumótaþætti af stað fyrir háttinn, maður hefur víst ekkert upp úr því að láta sér hlakka til Eurovision hvort eð er.

Engin ummæli: